Það eru breyttir tímar. Hugmyndin um að geyma dýra og vandaða húsmuni þannig að börnin geti fengið þá síðar, er orðin úrelt. Uppkomnu börnin vilja ekki rósaviðinn. „Húsgögnin, það vildi þau enginn“, segir Sigurður Kjartansson sem flutti úr 350 fermetra húsi í 140 fermetra íbúð fyrir nokkru, en hann er kominn á eftirlaun. Hann segist hafa heyrt það hjá fleirum að börnin vilji ekki gömlu hlutina. „Dóttir mín seldi það sem hægt var að selja á Blandi og restin fór í Rauða krossinn. Það var ekkert hægt að gera“, bætir hann við.
Gerbreyttur heimur
Á bandarísku vefsíðunni aarp.org er fólki ráðlagt að hugsa um það í tíma að grynnka á dótinu sínu. Velta því vel fyrir sér hvað það hefur þörf fyrir og hvað ekki og spá í hvar það verði eftir til dæmis 5-10 ár. Því er líka ráðlagt að ræða það við börnin sín í rólegheitum hvort þau vilji fá eitthvað af dótinu. Þar kemur líka fram að aðstæður eru breyttar frá því sem áður var og það gildir víðast hvar í hinum vestræna heimi. Þegar ungt fólk byrjaði að búa hér á Íslandi fyrir hartnær hálfri öld, var algengt að það byrjaði með dót frá foreldrum sínum sem þeir voru hættir að nota, eða frá afa og ömmu. Það þótti heldur ekki tiltökumál að útbúa hillur úr trékössum sem fengust í Ríkinu. Nú kaupir unga fólkið nýja og léttari muni í IKEA fyrir lítinn pening.
Snýst ekki um tilfinningar
Það eru fyrst og fremst þessar breyttu aðstæður sem valda því að börnin vilja ekki endilega húsmuni sem foreldrar þeirra eru hættir að nota. Þetta snýst ekkert um tilfinningar í garð foreldranna og því ástæðulaust að taka það sem höfnun, ef þau vilja ekki gömlu húsgögnin. Sumt ungt fólk vill að vísu helst gamla muni og það er nóg af þeim í Góða hirðinum og víðar. Sigurður segir að smekkur unga fólksins í dag, sé annar en hann var áður, hlutirnir séu einfaldari og meira módern . „Svo gaf ég svolítið af dótinu, við reyndum að koma þessu út áður en það var selt fyrir lítið sem ekkert“, segir hann.
Fengu málverkin sem þau langði í
Það eina sem börn Sigurðar vildu voru málverkin. „Við höfðum safnað málverkum í gegnum tíðina, eftir gömlu meistarana og líka eftir yngri myndlistarmenn. Það var það eina sem þau vildu og þau fengu öll málverkin sem þau langaði í“, segir hann. Sigurður flutti hluta af dótinu úr húsinu, í annað hús sem hann á rétt hjá Flúðum. „Ég hef safnað gömlum hlutum, er gamall trésmiður og hef til dæmis safnað gömlum verkfærum. Það er ekki hægt að svipta mann allri vitleysunni. Svo lætur maður þetta sjálfsagt bara í byggðasafnið hér, þegar fer að halla meira undan fæti. Maður veit að maður er ekki eilífur. Það fer að styttast í tommustokknum ef maður mælir það þannig“, segir hann.
Nokkrar leiðir til að losa sig við dótið
Sérstök fyrirtæki hafa verið sett á stofn í Bandaríkjunum til að aðstoða fólk við að losa sig við dót og minnka við sig. Þær leiðir sem menn fara hér til að losna við gamalt dót, eru yfirleitt þessar:
Selja hlutina á Blandi, eða öðrum söluvefjum til dæmis á Facebook. Verðlagið á þessum vefjum er ekki hátt. Það er ekki við því að búast að dýrir munir sem voru keyptir á háu verði fyrir áratugum, fari fyrir mikið á söluvefjunum.
Halda bílskúrssölu. Það má reyna það, en það er ekki mikið hefð fyrir slíku hér á Íslandi. Það er frekar að fólk hafi farið með fatnað og ýmsa smærri hluti í Kolaportið, en þá þarf að meta hvort það borgar sig. Það þarf að fá sér bás og greiða fyrir hann, en verðlagið í Kolaportinu er mjög lágt.
Gefa í Góða hirðinn. Á Sorpu eru Gámar þar sem hægt er að gefa eigulega muni. Þar getur fólk hirt á en þessir munir eru svo líka seldir m.a. í Góða hirðinum í Fellsmúla og fer ágóðinn til góðra málefna.
Gefa í Rauðakrossinn. Á Sorpu eru líka gámar frá Rauða krossinum, þar sem tekið er á móti fatnað, skóm og slíku.