Guðni Már fluttur til Tenerife fyrir fullt og allt

Tilbúinn að skrifa næstu bók.

„Tveir mánuðir og yfir tvöhundruð blaðsíður. Átta tíma vinnudagur undanfarna tvo mánuði,“ skrifaði Guðni Már Henningsson útvarpsmaðurinn góðkunni á Fésbókarsíðu sína í vikunni.  „Þetta eru ágætis afköst. Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður sagði eitt sinn að ég væri hraðortur en ég líka hraðskrifandi“ segir hann og hlær og bætir svo við „þetta er ævisaga, reyndar ekki hefðbundin ævisaga sem spannar lífið frá vöggu til grafar heldur eru þetta ævisögubrot. Upphaflega ætlaði ég að skrifa um síðustu vikurnar og dagana sem ég vann á Rás tvö og fyrsta árið mitt hér á Tenerife,” segir hann og útskýrir að fjöldi manns hafi haft samband við hann eftir að hann flutti til að spyrja hann út í lífið og tilveruna á Tenerife. “Ég var að fá þrjár til fjórar fyrirspurnir á viku. Í staðinn fyrir að vera að reyna að svara hverjum og einum ákvað ég að taka spurningarnar og svörin saman og hafa í bókinni. En það merkilega gerðist að þegar ég fór að skrifa fóru æskuminnigar skyndilega að troða sér inn frásögnina. Ég er því líka  að skrifa um æskuárin í Bústaðahverfinu. Það læðist svo sitthvað fleira inn í bókina,“ segir Guðni Már. Ævisögubrotin handskrifaði hann í stílabækur. „Mér finnst gott að handskrifa. Ég er ekkert sérstaklega flinkur á tölvu. Ég sat við skriftir á útikaffihúsi í nágrenni við heimili mitt og hér skín sólin flesta daga. Það er ekki nokkur leið að skrifa á tölvu í sólskini, maður sér hreinlega ekkert á skjáinn. Þegar ég kom heim á kvöldin hreinskrifaði ég svo textann á tölvuna og betrumbætti það sem ég hafði skrifað í stílabókina góðu.“

Það eru nærri fjórtán mánuðir síðan Guðni Már pakkaði saman og flutti. „Ég er farinn fyrir fullt og allt. Hef ekki komið til Íslands síðan ég kom hingað og er ekkert á leiðinni í heimsókn. Ég vil miklu frekar fá fólk til mín hingað en fara heim.  Það eru fáir Íslendingar sem ég hitti hér það er einna helst að ég hitti þá ef ég fer í mollið. Þá heyri ég stundum talaða íslensku. Fyrir stuttu var einungis einn dagur  sem ég hef orðið einmana síðan ég settist hér að. Það var á gamlárskvöld. Ég var einn heima og það voru allir veitingastaðir og kaffihús í nágrenninu lokuð. Kvöldinu varði ég í að skoða Fésbók  og þar voru allir að birta myndir af sér og sínum. Það virtust allir vera að skemmta sér og hafa gaman. Þá fann ég fyrir því að vera einn. Ég saknaði líka sjö ára dóttur minnar hennar Steinu Elenu mikið. En svo kom nýársdagur með sól og blíðu og þá brosti lífið aftur við mér. Eftir að ég kom hingað notaði ég kvöldin til að mála, ég var símálandi myndir. Nú er ég að mestu hættur að mála. Það er nokkuð dýrt að kaupa það sem til þarf í verkin hér. En það kemur fleira til  ég get ekki selt mörg málverk hér. Þau hlaðast því upp. Margir hafa viljað kaupa af mér en það er dýrt að senda verkin heim. Það er ekki hægt að póstleggja þau, það má ekki senda málverk í pósti og það er dýrt að flytja þau eftir öðrum leiðum. Annars hélt ég málverkasýningu um jólin á íslenska barnum og seldi alveg ágætlega. En mér fannst gott að mála á kvöldin og sakna þess þó ég sé eins og áður sagði að mestu hættur því.”

Brotin ævisaga. Lokapunkturinn settur.

Ég bý í höfuðborginni Santa Cruz. Ég í bý við annan endann á aðalgötunni, á Römblunni sem gengur í gegnum borgina. Gatan sú er slagæð borgarinnar. Þar eru kaffi- og veitingahús og mikið líf.  Í hverfinu mínu búa nær eingöngu Spánverjar, þar eru fáir útlendingar. Hér þekkja allir alla eins og í hverjum öðrum smábæ. Mér er ekki enn farið að líða eins og Spánverja en mér líður heldur ekki eins og útlendingi. Fólk hefur tekið mér vel. Ég er kannski ekki alveg nógu og góður í spænsku, þegar maður er kominn á minn aldur er ekki jafn auðvelt að læra nýtt mál og þegar maður er ungur. En ég bjarga mér alveg í leigubílum, verslunum og get rætt við vini mína um daginn og veginn. Fólkið hér er alveg dásamlegt hlýlegt og gott. Hér er til dæmis ung kona sem rekur apótekið sem ég skipti við og hún sér alveg um mín heilsufarsvandamál og fylgist vel með mér. Það er gott að eiga svo gott fólk að.“

Guðni Már segir að ástæða þess að hann ákvað að freista gæfunnar í ókunnu landi hafi verið sú að hann hafi ekki komist af á þeim lífeyrisgreiðslum sem honum eru skammtaðar á Íslandi. „Þær hefðu ekki einu sinni dugað fyrir leigu á íbúð. Ég er með eitthvað á milli 230 og 240 þúsund krónur í lífeyrisgreiðslur á mánuði. Hér leigi ég 80 fermetra íbúð á 600 evrur á mánuði eða sem samsvarar um 80 þúsund íslenskum krónum. Svo er matur og heilbrigðisþjónusta miklu ódýrari en heima. Ég leyfi mér kannski ekkert mikið en ég hef haft nóg að bíta og brenna. Ég verð líka ellilífeyrisþegi eftir örfáa daga og þá hækka greiðslurnar til mín um 50 þúsund á mánuði og það er miklir peningar hér. Lífið verður örlítið skemmtilegra við það.“

Það er alltaf nóg um að vera á Römblunni.

Guðni segir að það sé gríðarlegur munur á leigumarkaðnum á Tenerife og á Íslandi. „Leiguverðið ræðst auðvitað mikið af því hvar maður ákveður að setja sig niður. Það er dýrara að leigja á hefðbundnum ferðamannastöðum en þar sem ég er. Annað sem er frábært er að það fylgir allt með íbúðinni, innbú, rúmföt, handklæði, eldhúsáhöld. Það er allt til alls nema hér eru uppþvottavélar frekar sjaldgæfar. Það er hreinlega ekki gert ráð fyrir þeim í eldhúsinnréttingunum. Mér finnst það miður,“ segir hann og hlær en bætir við að þegar maður sé kominn með leigusamning haldi maður íbúðinni eins lengi og maður kæri sig um. Það sé mikill kostur. Langi mann á hinn bóginn að flytja þurfi maður ekki annað en pakka saman sínum persónulegu hlutum og hlamma sér í hægindastólinn á nýja heimilinu.

Eins og kom fram í upphafi þessa viðtals er Guðni búinn að skrifa minningabók.  Hún kemur út innan skamms og hann er með aðra bók í smíðum um Römbluna og mannlífið þar. Hún kemur væntanlega út á næsta ári.  „Mér finnst of mikið að gefa út tvær bækur á sama árinu,“ segir hann og bætir við að hann eigi fleiri handrit í  handraðanum óútgefin. Margir hafa komið að máli við Guðna Má og spurt hvers vegna hann sé ekki með podcast þætti á netinu. Það eru nefnilega ótrúlega margir sem sakna Guðna Más af Rás tvö.  „Auðvitað hefur mér dottið það í hug en það verður ekki af því að ég fari að gera tónlistarþætti. Á Rás tvö hafði maður aðgang að frábæru plötu- og diskasafni og góða vinnuaðstöðu. Ef maður ætlaði að fara að gera einhverja tónlistarþætti yrði það eins og versta skólaútvarp. En mér hefur hins vegar dottið í hug að gera talmálsþætti og setja á netið. Þá gæti ég lesið upp úr bókunum mínum, miðlað af þekkingu minni á tónlist og fjallað um hvað eina sem mér dytti í hug í það og það skiptið. Það gæti orðið skemmtilegt fyrir mig og aðra.“

 

 

 

 

Ritstjórn júní 7, 2019 07:08