Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur

Að þessu komust Thomas Möller og Bryndís Tómasdóttir  rækilega þegar þau fluttu úr húsi í Vesturbænum þar sem þau höfðu búið samfleytt í 30 ár, alið börnin sín upp og liðið sérlega vel í. “Það var átak að flytja úr þessu húsi þar sem við áttum svo margar góðar minningar en við vissum að það var kominn tími til að breyta til,” segja þessi jákvæðu og samstilltu hjón. Þau eru bæði á þessum svokallaða miðjualdri en þau eru fædd í sömu vikunni 1954. Thomas og Bryndís fóru til Berlínar eftir Versló þar sem þau kynntust. Thomas fór í verkfræði og rekur nú sitt eigið fyrirtæki í rekstrarráðgjöf við annan mann og Bryndís stundaði nám í tungumálum í Berlín en er núna verslunareigandi. Hún rekur þá verslun með Sóleyju Jóhannsdóttur eftir að hafa starfað sem kennari alllengi. Þau eru því bæði sínir eigin herrar í smáum fyrirtækjum eftir að hafa allan sinn starfsaldur verið í störfum þar sem margir komu við sögu, hann sem yfirmaður í stórum fyrirtækjum og hún sem kennari. Nú eru þau bæði að vinna í tveggja manna fyrirtækjum og kunna því geysilega vel. Þau hafa því einfaldað líf sitt á margan hátt.

Útivist og göngur eru sameiginlegt áhugamál Thomasar og Bryndísar.

Hvernig einfaldar maður lífið?

Ef ég ætti að gefa jafnöldrum mínum ráð væri það einna helst að einfalda lífið en vera um leið óhræddir við að breyta til,” segir Thomas og bætir við að forgangsröðun sé eitt lykilatriðið. er allt í boði og svo einfalt að láta glepjast af einhverju sem skiptir ekki máli. Tíminn líður svo hratt að við erum orðin fullorðin og komin á efri árin áður en við vitum af. Þá er eins gott að forgangsraða og verja tímanum markvisst.” Það var einmitt það sem þau Thomas og Bryndís vildu gera þegar þau ákváðu að breyta til og fara á eina hæð sem hafði verið draumurinn um nokkurn tíma  og fara í gegnum allt dótið sem þau höfðu safnað á löngum tíma. Sonur okkar, sem hjálpaði okkur að flytja, hafði á orði að það væri nú ekki alveg í lagi hvað við hefðum safnað miklu dóti,” segja þau Thomas og Bryndís og brosa því þetta hafi auðvitað verið mikið af dóti frá því hann og systur hans bjuggu heima en tóku auðvitað ekki með sér þegar þau fluttu. Nú getum við hlegið að þessari vitleysu sem söfnunaráráttan er en ég er alveg viss um að fleiri standa í þessum sömu sporum,” segir Bryndís. Þau búa núna í fallegri íbúð í nýju fjölbýlishúsi í Garðabæ með dásamlegu útsýni yfir borgina. “Óhætt er að segja að blokkarlífið sé ljúft,” segja þau. Hér er allt skipulagt fyrir mann og svo getur maður farið á tónleika í Hörpunni án þess að fara í yfirhöfn, sama hvernig veðrið er,” segja þau hlæjandi því þau fara innanhúss í bílageymsluna og beint í bílastæðahúsið í Hörpunni.

Breyttu reglulega til

Bryndís segir að líf þeirra hjóna hafi í raun hólfast niður í nokkur skemmtileg tímabil. Þau hafi t.d. tekið af skarið og breytt til í vinnu, nú síðast þegar Thomas seldi fyrirtæki sitt og ætlaði að setja rólegri takt í lífið. Hann segir að ekki hafi liðið á löngu áður en freistandi tilboð um að stofna annað fyrirtæki kom inn á borð til hans. Nú er ég að nýta reynslu mína við að miðla til annarra hagnýtum upplýsingum sem ég bý yfir og þykir það einstaklega skemmtilegt. Bryndís stofnaði nýverið verslunina Kaiu við Engjateig þar sem seldar eru gjafavörur af ýmsum toga en hún og meðeigandi hennar, Sóley Jóhannsdóttir, ráku áður fyrr verslunina Soldísi í um tíu ára skeið.

Ekki tilbúin í ömmuhlutverkið eingöngu

Á meðan á viðtalinu stóð heyrðist ansi mikill barnsgrátur innan úr íbúðinni. Þegar betur var að gáð komu hljóðin úr börkum tveggja lítilla hnoðra sem dóttir þeirra eignaðist fyrir 5 mánuðum.  Bryndís segir að hún og Thomas séu alltaf boðin og búin að aðstoða ef þörf krefur og börnin þeirra viti það fullvel en hún sé alveg skýr með það að hún sé ekki tilbúin að fara í ömmuhlutverkið í fullu starfi. Bryndísi finnst mjög gott að hafa krefjandi verkefni sem fullnægi henni persónulega fyrir utan heimilið og þá sé hún enn betri amma og mamma þegar á þurfi að halda og Thomas tekur í sama streng.

Thomas og Bryndís við Dettifoss.

Áhugamálin

Þau Thomas og Bryndís hafa gætt þess að halda áhugamálum lifandi alla tíð. Bryndís stundaði badminton af miklum móð lengi en nú hefur sundið og leikfimin tekið við sem hún segist njóta vel.  Þau stunda bæði golf nokkuð auk ferðalaga með góðum vinahópum. Thomas hefur um árabil haft mótorhjólaferðir um landið sem áhugamál og er ein langferð fram undan hjá honum með hjólafélögum sínum. Þau eiga sumarbústað í Grímsnesi nálægt golfvellinum í Öndverðarnesi og nýta hann þegar þau eru í sveitinni. Svo njóta þau gönguferða úti í náttúrunni ríkulega.

Alltaf að hafa eitthvað til að hlakka til

Eitt af því sem þau Thomas og Bryndís segjast gæta vel að er að hafa alltaf eitthvað til að hlakka til í framtíðinni. Þannig verði lífið svo miklu skemmtilegra. Þau hafa líka hugfast að til að ná árangri á einu sviði sé nauðsynlegt að kunna að fórna á öðru. Það hafi komið sér vel þegar þau þurftu að gefa frá sér hluti sem þeim hafði fundist vera þeim svo hjartfólgnir að þau myndu aldrei geta horft á hverfa úr lífi sínu. En það tókst,” segja þau hæstánægð með að hafa flutt úr einbýlinu í fjölbýli.

Niðurstaðan er sú að breytingin var bæði gagnleg og einstaklega skemmtileg,” segja þau Bryndís og Thomas.

Ritstjórn mars 2, 2018 09:51