Ólst upp í sænsku húsi á Nesvegi

Sveinn Guðjónsson oft kallaður Svenni í Roof Tops ólst upp í einu sænsku húsanna sem svo voru kölluð, á Nesvegi 60 í Reykjavík. Raunar bjuggu allir félagarnir í Roof Tops nema einn, í sænsku húsunum þar. Það var stutt í KR sem Sveinn segir að hafi haft mikil áhrif á alla strákana í hverfinu, sem margir voru að sparka bolta þar. Hann segir að í minningunni séu áhrif KR mjög sterk og hann sé enn að hitta strákana í hverfinu á leikjum KR í Kaplaskjólinu. „Þetta eru hálfgerð trúarbrögð“, segir Sveinn sem fær alltaf hnút í magann á leikdegi hjá KR og segist vera í nokkra daga að ná sér eftir að félagið tapi leik.

Barnafólk keypti húsin

Foreldrar Sveins, þau Guðjón Emilsson vélstjóri sem þá starfaði hjá Vélsmiðjunni Héðni og Dagrún Gunnarsdóttir festu kaup á húsinu skömmu áður en Sveinn fæddist, en hann var annar í röð fjögurra systkina. Elsti bróðir hans heitir Emil Teódór, en sá yngri Gunnar og hann var einmitt líka í Roof Tops ásamt Sveini og félögum. Eina systur eiga þeir bræðurnir sem heitir Anna Guðný. Sveinn segir að það hafi verið líflegt í hverfinu á þessum árum, enda mikið af börnum því þeir sem keyptu sænsku húsin voru yfirleitt barnafólk. Húsnæðisskortur var mikill í borginni á þessum árum.

Slekkur alltaf á rafmagnstækjunum

Svenni ásamt eiginkonu sinni Björgu Bjarnason fyrir utan húsið á Nesveginum

Svenni ásamt eiginkonu sinni Björgu Bjarnason fyrir utan húsið á Nesveginum

Sænsku húsin voru innflutt einingahús og Sveinn Jónsson í Héðni var annar þeirra sem hafði forgöngu um að þau voru flutt til landsins.  Sveinn segir að foreldrar sínir hafi leigt út kjallarann til að byrja með, en seinna þegar hann var orðinn stálpaður fékk hann herbergi þar.  Þetta voru timburhús og Sveinn segir að mamma sín hafi verið svolítið eldhrædd en hún lenti í bruna sem barn. „Ég kippi alltaf ragmagnstækjunum úr sambandi áður en ég fer að sofa, eins og mamma gerði. Hún var hrædd um að rafmagnið gæti leitt út og kveikt í húsinu. Um jól voru svo alltaf miklar varúðarráðstafanir, þegar kveikt var á kertum í húsinu“.

Ritstjórn ágúst 9, 2016 11:38