Sænsku húsin kostuðu 180 þúsund krónur

Árið 1946 tóku þeir sig saman, Jón Sigurðsson í Stálsmiðjunni, bróðir Eðvarðs Sigurðssonar verkalýðsforingja sem lengst af bjó í torfbæ vestur á Melum, og Sveinn Jónsson í Héðni og stofnuðu félagið Árroðann sem hafði það eina markmið, og það göfugt markmið að flytja inn húseiningar frá Svíþjóð, enda var þá gríðarlega mikill skortur á húsnæði í Reykjavík.

Þannig er upphafinu að innflutningi „sænsku húsanna“ lýst í Vesturbæjarblaðinu árið 2008, en mörg húsanna voru einmitt reist í vesturbænum.  Á þessum árum var mikil húsnæðisekla í Reykjavík. Braggaíbúðir í borginni voru 380 og fjölgaði í 543 íbúðir árið 1955. Þörfin fyrir nýtt húsnæði var gríðarleg, svo innflutningur sænsku timburhúsanna var kærkominn. Þeir sem keyptu húsin, voru fyrst og fremst járniðnaðarmenn hjá áðurnefndum fyrirtækjum, segir í Vesturbæjarblaðinu. Deilt var um hvort greiða ætti tolla og aðflutningsgjöld af húsunum, en það mál leystist farsællega að sögn blaðsins.  Það voru sænskir iðnaðarmenn sem reistu fyrstu húsin.

Útvegsbankinn útvegaði lán til 20 ára til kaupa á húsunum en þau kostuðu 180 þúsund krónur. Með þeim fylgdu allar hurðir og innréttingar og uppfylltu þær innréttingar sem eðlilegt var að gera kröfu til á þeim árum. Sænskir iðnaðarmenn komu til landsins og settu upp fyrstu 3 húsin og leiðbeindu  íslenskum iðnaðarmönnum með uppsetningu þessarar gerðar húsa.

Fyrstu húsin risu í vesturbænum, meðal annars við Kaplaskjólsveg og í Granaskjóli. Það er athyglisvert að skoða þær leiðir sem á þessum tíma voru farnar til að leysa húsnæðisvandann því í kjölfar innflutnings húsanna fylgdi stofnun Byggingarsamvinnufélaga, svo sem kennara og bankamanna, sem öll beittu sér fyrir innflutningi á sænsku húsunum fyrir sína félagsmenn. Mörg þessara húsa voru sett upp í Vogahverfinu, til dæmis hús barnakennara í Nökkvavogi. Í Bankablaðinu segir árið 1948, að Búnaðarbankinn hafi sýnt þeir starfsmönnum bankans sem hafi byggt þessi hús sérstakan skilning og veitt þeim mjög hagstæð lán til húsakaupanna.

Lánin eru veitt til 35 ára. Afborganir og vextir eru 5,7%, sem greiðast mánaðarlega af launum starfsmanna. Endanlegt kostnaðarverð hvers húss hefir ekki enn verið ákveðið, þar eð kostnaðarverðið er nokkuð misjafnt. Þess vegna hefir ekki enn verið gengið frá lánsupphæð hvers húss gagnvart bankanum. Starfsmenn bankans eru þó þegar byrjaðir að greiða af húsum sínum 1000,00 krónur á mánuði í vexti, afborganir og opinber gjöld. Starfsmenn Búnaðarbankans eru mjög  ánægðir með þessa lausn málsins og telja að forráðamenn bankans hafi sýnt þeim lipurð og velvild í öllu, er hefir varðað byggingu „sænsku húsanna“, og þá sérstaklega með láni því, er hér hefir verið getið

 

Ritstjórn ágúst 4, 2016 11:30