Ómar Valdimarsson mannfræðingur og fjölmiðlamaður

Ómar Valdimarsson er einn af þeim sem flestir vita um en færri þekkja. Í starfi sínu sem fjölmiðlamaður hefur hann á tímum verið áberandi eða allt þar til hann hvarf svolítið af sjónarsviðinu á Íslandi. Sumir þekkja hann líka af því að hafa verið söngvari og ásláttaleikari þjóðlagasveitarinnar Nútímabarna 1968 en Ómar syngur nú í Karlakór Reykjavíkur og nýtur þess að mæta á æfingar tvisvar í viku.

Okkur fýsti því að vita hvað hefði á daga hans drifið og það var auðsótt mál. Eiginkona Ómars er Dagmar Agnarsdóttir en hún hefur lengst af starfað sem hárgreiðslumeistari en hefur alla tíð líka fengist við  listmálun. Þegar þau hjónin nálguðust miðjan aldur gerðu þau sér grein fyrir því að þau langaði ekki að verða sjötug og þurfa að segja: ,,Ég vildi að ég hefð nú bara…“. Nú þegar þeim aldri er náð geta þau sagt: ,,Manstu þegar við gerðum og fórum þetta og hitt,“ því þau hafa sannarlega upplifað mikið ævintýri mörg undanfarin ár.

Ómar stofnaði almannatengslafyrirtækið Athygli 1989 ásamt nokkrum öðrum og einn af viðskiptamönnum hjá þeim var Rauði kross Íslands. ,,Þeir spurðu mig hvort ég væri ekki til í að koma á námskeið fyrir fólk sem vildi starfa erlendis og ég var til í það því það rímaði alveg við það sem ég hafði verið að hugsa.“

Eftir námskeiðið 1994 fór Ómar til Tansaníu fyrir Rauða krossinn en á þeim tíma voru þangað komnir 500.000 rúandískir flóttamenn sem höfðu flúið fjöldamorðin í Rúanda. Þar var hann í 6 mánuði og þannig hófst starf Ómars fyrir Rauða krossinn sem átti eftir að bera hann víða um heim.

,,Eftir þessa sex mánuði í Tansaníu fór ég bara heim að gera það sama og áður, en var eftir það með allan hugann við störf Rauða krossins. Og svo fór að ég fór í fleiri ferðir en þeir sendu mig m.a. til Íran, út um Kyrrahaf, til Afríku og svo kom að því að því að mér bauðst tveggja ára staða fyrir svæðisskrifstofu alþjóða Rauða krossins í Kuala Lumpur. Ég hugsaði með mér að ég ætti að þiggja þessa stöðu og myndi síðan láta gott heita því óneitanlega hafði þetta starf mikil áhrif á heimilislífið. Úr varð að ég seldi hlut minn í Athygli og við Dagmar fórum til Kuala Lumpur og með okkur yngsta dóttir okkar sem þá var um fermingu. Við komum svo ekki alkomin heim fyrr en tíu árum síðar. Vorum í Malasíu, Tælandi, Indónesíu, Kenía en þá var ég orðinn svolítið þreyttur á þessum flækingi,“ segir Ómar.

Á meðan hann starfaði fyrir Rauða krossinn var hann upplýsingafulltrúi fyrir alla Asíu og Kyrrahafið. ,,Þetta þýddi mikinn flæking en alltaf skemmtilegt og fróðlegt,“ segir Ómar. Þegar hann kom heim frá Kenía var hann 58 ára. „Ég hugsaði með mér að ég væri nú með reynslu sem mjög fáir Íslendingar hefðu og gæti vafalaust valið úr spennandi störfum. En af því ég var ekki með rétta kennitölu gerði ég mér grein fyrir því að það var hvergi beðið eftir mér í vinnu. Fimmtugt fólk og þar yfir eru ekki eftirsóttir starfskraftar. Uppúr þessu fór ég að hugsa um að ég ætti kannski að fara í nám sem ég gerði ekki þegar ég var yngri. Ég sótti þá um inngöngu í mannfræði í Háskóla Íslands. Mér fannst spennandi að fá dýpri skilning á því sem ég hafði upplifað í starfi mínu fyrir Rauða krossinn. Af hverju hlutirnir voru svona eins og þeir voru. Ég kláraði BA gráðu og þótti námið svo skemmtilegt að ég tók ákvörðun um að fara líka í Masterinn. Svo nú má ég kalla mig mannfræðing,“ segir Ómar kankvís. ,,Það hjálpaði mér reyndar ekki til að fá vinnu en það gerir bara ekkert til.“

Nú eru Ómar og Dagmar orðin sjötug og líður vel á þeim stað sem þau eru í dag. Þau eru heilsuhraust fyrir utan að heyrn hans hefur örlítið hrakað. Ómar segir að Dagmar sé alltaf svolítið að vinna en hann minna. Hann hafi þó tekið að sér formennsku í Garðyrkjufélagi Íslands sem hann hefur sinnt í tvö ár en hættir því nú í vor.  ,,Garðyrkjufélag Íslands hefur það meginhlutverk að standa fyrir fræðslu og rekur líka fræbanka,“ segir Ómar. ,,Áhugasamir geta valið úr hundruðum fræja úr þessum banka, sett þau niður og svo er óendanlega gaman að fylgjast með því sem kemur upp. Ég er á svipuðum stað og svo margir aðrir að vera í garðyrkjunni meira af vilja en mætti,“ segir hann. ,,Það er nefnilega eins með fræin og annað í lífinu að maður leggur grunn að einhverju góðu og svo kemur eitthvað gott út úr því sem er óendanlega skemmtilegt að fylgjast með.“

Ómar byggði sér lítið gróðurhús úti í garði og er að skemmta sér við að rækta þar ávaxtatré og ýmsa forræktun sem þarf skjól yfir vetrartímann.

Ómar og Dagmar keyptu húsið, sem þau búa í, tilbúið undir tréverk á sínum tíma. Þau hugsuðu með sér að það yrði svona tíu ára vegferð að klára að byggja húsið. ,,Svo þegar því var lokið var komið að viðhaldi,“ segir Ómar og hlær. ,,En héðan viljum við ekki fara á meðan við getum séð um garðinn sjálf.“

Ómar er alltaf eitthvað að skrifa og nú fyrir jólin kom til dæmis út bók eftir hann um lífshlaup Gunnars Þórðarsonar sem hann skrifaði.

Í dag er Ómar Valdimarsson að bíða eftir vorinu. ,,Ég hef verið að koma ýmsu spennandi til frá því í janúar, hef verið að setja fræ út í glugga og nú er ég að umpotta úti í gróðurhúsi. Fyrir utan garðyrkjuna eru skrif eiginlega það eina sem ég kann,“ segir Ómar og brosir. Hann hefur þó verið í margvíslegu félagsstarfi frá því hann var mjög ungur, jafnvel allt frá því hann var í æskulýðsstarfi í Bústaðakirkju. Öll slík reynsla nýttist honum síðan vel í starfi hans fyrir Rauða krossinn.

Á árunum í Asíu og Afríku sáu þau hjónin meira basl á fólki en ætti að leggja á nokkra manneskju. ,,Ungt fólk bjargar sér en þegar við erum komin yfir miðjan aldur er óendanlega erfitt að þurfa að basla mikið. ,,Við erum svo lánsöm að hafa komið okkur vel fyrir á dýrlegum stað og börnin okkar og barnabörn eru tiltölulega nálægt okkur. Barnabörnin okkar eru auk þess einhver þau bestu sem um getur,“ segir Ómar og hlær. ,,Í ungviðinu sér maður nefnilega tilgang lífsins og það  er svo mikil gæfa að sjá þau öll dafna vel,“ segir Ómar Valdimarsson og er sáttur við lífið og tilveruna.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

 

Ritstjórn apríl 13, 2022 07:00