Hvað ert þú gamall/gömul/gamalt? Hefur þú heyrt að þú sért of ungur til að skilja, of gömul til að geta eða ekki nógu gamalt til að vera með? Hver ákvarðar aldurstakmörk og á hvaða forsendum? Hefur þú upplifað höfnun eða fordóma sökum aldurs?
Þannig hljómar inngangur Borgarbókasafnsins að boði í Opið samtal um aldur og aldursfordóma þann 27. febrúar næstkomandi klukkan 17.30. Þar er ætlunin að velta fyrir sér hvaða áhrif aldur okkar hefur á þátttöku? Setjum við okkur sjálf skorður eða eru hindranirnar hluti af samfélagsgerðinni og reglunum sem við setjum okkur? Að þessu sinni fer samtalið fram í Grófinni og þáttagerðarfólk frá Samfélaginu á RÁS 1 verður á staðnum til að taka upp umræðurnar og útvarpa þeim.
Borgarbókasafnið á þakkir skildar fyrir að gangast fyrir opnum samtölum um margvíslegum málefnum er snerta lýðræði og andann í samfélaginu. Umhverfið er notalegt og býður upp lifandi og skemmtileg samtöl og margvísleg efni. Hér er því gott tækifæri til að skerpa hugmyndir sínar, öðlast betri yfirsýn og fá að heyra mismunandi sjónarhorn. Öll erum við á einhverjum aldri og hverju skeiði fylgja ákveðnar kröfur, væntingar, fordómar og vanskilningur. Þess vegna vill Borgarbókasafnið gefa öllum tækifæri til að kanna kanna í sameiningu hvernig við vinnum gegn aldursfordómum og sköpum samfélag sem opnar á ný tækifæri óháð aldri. Við hvetjum fólk á öllum aldri til að taka þátt.
Frekari upplýsingar má fá á vef Borgarbókasafnsins: borgarbokasafn.is/vidburdir/spjall-og-umraedur/opid-samtal-thessum-aldri
Og þeir sem vilja skrá sig geta gert það hér: https://www.facebook.com/events/1075134640394544?ref=110
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.