„Allur aldur hefur sína fegurð og sínar ákoranir“

Borgarbókasafnið bauð upp á Opið samtal um hvort aldursfordómar væru ríkjandi í íslensku samfélagi eða ekki. Dögg Sigmarsdóttir verkefnastjóri Borgarlegrar þátttöku dró upp þríhyrning, fortíðar, nútíðar og framtíðar og bað viðstadda að velta fyrir sér. Þær Þórey Sigþórsdóttir og Rebekka A. Ingimundardóttir hófu síðan samtalið og lýstu könnun sem þær unnu í tengslum við sýninguna Ég lifi enn – sönn saga.

Kveikjan að sýningunni var þegar tengdamóðir Þóreyjar datt og brotnaði og var í kjölfarið lögð inn á spítala. Hún fékk lungnabólgu þegar Þórey spurði hverju sætti var svarið ,,Já, það er bara svona. Þegar þetta dettur og brotnar, liggur það svo lengi og andar ekki nógu djúpt og þá fær það sýkingu og bara deyr.” Þóreyju fannst þetta óskiljanlegt því hún starfar sem leikkona og raddþjálfi.

„Raddbeiting er öndun,“ segir hún. „Það má auðveldlega kenna fólki að nota röddina og anda. Öndunin er grunnurinn.“

Hún hafði því samband við Rebekku A. Ingimundardóttur sviðslistakonu og þær hófu að safna sögum sem síðan urðu uppistaðan í magnaðri sýningu.

„Þetta orðalag að tala um það,“ segir Rebekka. „Þetta er manneskja í erfiðum aðstæðum og fornafnið það er notað.“ Hún er einnig lærður markþjálfi og finnst óskiljanlegt að eldra fólk fái ekki notað þess ávinnings sem má öðlast gegnum markþjálfun. „Við missum röddina þegar við eldumst.“

Ekki samhengi mili aldurs og nýsköpunar

„Það er ekkert samhengi milli aldurs og nýsköpunar,“ bætir Harpa Magnúsdóttir hjá Hoobla Ísland við. „Fólk á öllum aldri getur lært og menn á vinnumarkaði gefa sér oft að fólk komið yfir miðjan aldur vilji ekki fara í grunnstöður hjá fyrirtækjum, en það eru margir sem vilja minnka starfshlutfallið og ábyrgðina.“

Þórey vill eyða mýtunni um að fólk missi röddina þegar það eldist og er sammála Rebekku um að sjálfstraust sé lykillinn. Þegar fólk stigi inn í eigin fordóma dragi það sig í hlé og hætti að láta fyrir sér fara. Þær töluðu einnig allar um að forvitni væri drifkraftur og fólk á öllum aldri ætti að spyrja sig hvað það gæti lært nýtt og hvernig það gæti lifað lífi sínu á magnaðan hátt. Harpa minnti á að þriðja æviskeiðið væri oft mjög gefandi því þá gæfist tími og tækifæri til að endurvekja drauma sína frá því í æsku og  ungdómsárum og láta þá rætast. Þórey bætti þá við að aldursfordómar geta verið hættulegir. Hún sagði sögu af sjötugri konu sem kom á bráðadeild og ekki var hlustað á hana þegar hún lýsti einkennum sínum. Hún var keyrð til hliðar inn á aðra deild en fyrir tilviljun uppgötvaðist að hún var með innvortis blæðingar sem auðveldlega hefðu getað kostað hana lífið.

Þótt flestir viðstaddra væru sammála um að aldursfordóma gætti vissulega í samfélaginu kom í ljós að við borðið sátu meðal annars konur sem hvor á sinni hátt höfðu sannað að þeir ættu ekki rétt á sér. Nanna Rögnvaldardóttir matreiðslubókahöfundur sem sló í gegn með skáldsögunni Valskan. Bókin sú var skrifuð eftir að Nanna fór á eftirlaun 65 ára gömul og hún var kjörin nýliði ársins 2023 í rithöfundastétt, 66 ára gömul. Kolbrún Linda Ísleifsdóttir hóf laganám 28 ára, hóf störf sem lögmaður komin á fertugsaldur og hætti að vinna vegna veikinda um fimmtugt. Síðan hefur hún haldið heilastarfseminni gangandi með því að mæta á fundi, ráðstefnur og samkomur þar sem fram fer umræða um heilbrigðismál og mannréttindi sem eru meðal áhugamála hennar.

Aldursbúbblur að myndast

Þórey og Rebekka sögðu frá því að eftir hverja sýningu á, Ég lifi enn – sönn saga hefðu þær hvatt til umræðna og á hana hefði komið fólk á öllum aldri. Þar hefði skapast vettvangur til skilnings milli kynslóða. „Ungur maður tók til máls og sagðist vinna á elliheimili,“ sagði Þórey. „Hann sagðist njóta þess og læra ný orð á hverjum degi. Ég óttast hins vegar að tungumálið sé að breytast og að gjá sé að opnast milli kynslóða. Ég rek mig oft á það í starfi að ég nota orð sem ég held að allir skilji en ungt fólk skilur ekki. Meðan kynslóðirnar bjuggu nær hver annarri í samfélaginu gafst tími til að tala saman. Ég er hrædd um að frá leikskóla og uppúr eigi flestir eingöngu í samskiptum við eigin aldurshóp. Það séu að myndast aldursbúbblur sem við komumst sárasjaldan út úr.“

Björk Ólafsdóttir ráðgjafi hjá VIRK sagðist sína reynslu einkum snúa að atvinnulífinu.

„Ég fæ til mín fólk með heilsubrest til að vinna með og það getur kannski ekki unnið það starf sem það var í áður. En ef það fer með opnum huga í gegnum ferlið eru ýmsar leiðir opnar. Ég hef útskrifað eldri borgara í hlutastarf. Það er mikilvægt að vera í rútínu og virkni þótt fólk sé farið að eldast og atvinnulífið þarf að spila með. Fólk þarf að sjá styrkleika sína og alls ekki afskrifa sjálft sig. Ég sé vissulega að ákveðnar stéttir og ákveðnar atvinnugreinar þar sem það virðist skipta miklu að vera hip og kúl, en við þurfum fyrst og fremst fjölbreytta vinnustaði og hér er að skapast fjölmenning. Konur eru líklegri en karlar til að trúa að kennitalan þeirra sé ónýt. Þær gera einnig meiri kröfur til sjálfra sín en karlar. Það er í það minnsta sú tilfinning sem við fáum hjá VIRK en hafa ber í huga að fleiri konur en karlar hafa verið hjá okkur undanfarin ár.“

Þurfum að deila hugmyndum og gildum

Þær Noelia Zapata og Feven Aberam hafa báðar reynslu af að ferðast milli landa og vinna stutt á hverjum stað. Á íslandi leitast þær við að tengja fólk af fjölbreyttum uppruna við tækifæri til þátttöku í samfélaginu. Feven býr að bæði reynslu og menntun í fjölmiðlun og mannréttindabaráttu og minntist á að baráttan gegn aldursfordómum væri einnig nátengd stöðu kvenna í hverju samfélagi og væntinga til þess að konur taki að sér fyrirfram skilgreind hlutverk innan fjölskyldu. Noelia ræddi að það sé einfaldlega auðveldara að taka sig upp og skapa sér nýtt líf á ókunnugum stað þegar fólk er ungt. Hins vegar er reynsla og þekking hinna eldri mikilvæg í öllum samfélögum.

„Allur aldur hefur eigin fegurð og eigin áskoranir. Við verðum að ná að komast nær hvert öðru til að deila hugmyndum og gildum og vera skapandi í hvernig við bregðumst við. Það er menningarmunur hvernig viska og þekking hinna eldri er nýtt og hversu mikils hún er metin. En ef við hjálpum hvert öðru og sýnum umhyggju fyrir fólki náum við að byggja brýr.“

Dögg spurði viðstadda hvort þeir hefðu hugmyndir um vettvang þar sem skapast gætu gefandi samskipti milli kynslóða. Flestir minntust á mat, að elda og borða saman væri bæði gefandi og bindandi. Nanna Rögnvaldardóttir sagði frá fjölþjóðlegri árlegri ráðstefnu í Oxford þar sem fólk frá mörgum þjóðum og á öllum aldri sameinast til ræða sameiginlegt áhugamál og enginn finnur fyrir kynslóðabili eða að ólík menning skapi vandamál. Margt fleira athyglisvert og fróðlegt kom fram í þessum líflegu samræðum en að lokum komust þátttakendur að þeirri niðurstöðu að allir aldurshópar upplifðu samfélagslegan þrýsting en við gætum aðeins stjórnað okkur sjálfum, breytt okkur sjálfum og þroskast. Mikilvægt væri að staldra við og muna að fyrir framan þig er ævinlega manneskja með hjarta hvort sem viðkomandi er barn, fullorðinn eða roskinn. Þegar viðmælendur hafa áhuga og eru tilbúnir til að hlusta verður samtalið lifandi og virkt.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 28, 2024 07:00