Orðin sjötug og nýtur lífsins!

Inga Jóna hefur hæfileika til að láta viðmælendur hlæja og hér fékk Joe Biden að njóta þess.

Inga Jóna Þórðardóttir hefur búið í Bandaríkjunum undanfarin rúm 6 ár með eiginmanni sínum Geir H. Haarde sem var þar sendiherra Íslands þar til fyrir tveimur árum. Þá tók hann sæti í stjórn Alþjóðabankans í tvö ár en nú eru þau komin heim.

Inga Jóna hafði ekki búið í útlöndum áður þótt hún hafi ferðast mikið en Geir stundaði nám í þremur háskólum í Bandaríkjunum þegar hann var yngri. Hann þekkti bandarískt samfélag því vel sem kom sér ágætlega þegar hann tók að sér sendiherrastarfið og þau hjónin  fluttu út. Bandarískir vinir Ingu og Geirs skildu ekkert í því af hverju þau ætluðu að flytja frá Bandaríkjunum, nú þegar þau væru komin á eftirlaunaaldur. „Ég sagði þeim að auðvitað myndum við flytja aftur heim, þangað sem hjarta okkar slær,“ segir Inga Jóna.

Viðburðaríkur tími í Bandaríkjunum

„Undanfarin rúm sex ár voru áhugaverðir tímar í Bandaríkjunum,“ segir Inga Jóna. „Geir afhenti Obama trúnaðarbréf sitt en hann var á forsetastóli fyrstu tvö árin okkar úti. Það var mjög fróðlegt að fylgjast með forsetakosningunum 2016 og stjórnartíð Trumps. Við náðum að fylgjast með tvennum forsetakosningum sem er spennandi fyrir áhugafólk um alþjóðleg stjórnmál. Mjög margt hefur verið að breytast í bandarísku samfélagi á undanförnum áratugum. Margir fóru til dæmis illa út úr fjármálahruninu, andstæðir pólar hafa orðið meira áberandi og margt það sem við hér heima teljum sjálfsögð réttindi eru hápólitísk deilumál. Það má segja að kjör Trumps hafi verið ákveðið afsprengi þessara breytinga.

Bandaríkin eru um margt mjög spennandi staður að búa í og starfa. Fjölbreytnin er gríðarleg og fylkin hvert með sínu móti. Mikil gerjun stöðugt í gangi og fróðlegt að fylgjast með fjölmiðlum og almennri umræðu. Samskipti Íslands við Bandaríkin eru og hafa í gegnum tíðina verið mjög mikil, ekki bara á sviði varnar- og utanríkismála heldur jafnframt á sviði viðskipta, mennta- og menningarmála. Washington er einstaklega falleg borg sem hefur þróast fallega á undanförnum áratugum, með fallegum byggingum og opnum grænum svæðum til að auðvelda útivist fólks.“

Hlutverk sendiherrahjóna

Inga Jóna og Geir í móttöku í Hvíta húsinu  sumarið 2015 en það var einmitt Obama sem tók við trúnaðarbréfinu af Geir.

„Það liggur í hlutarins eðli að starf sendiherra er að standa vörð um hagsmuni landsins okkar gagnvart gistiríkinu. Á sama tíma vinna sendiráðin mikilvægt landkynningarstarf,“ segir Inga Jóna. „Sendiherrann

talar máli lands síns og útskýrir fyrir öðrum hver staða þess er, fyrir hvað við stöndum og hvað við viljum. Stór hluti af því starfi er að hitta og ræða við fólk, bæði á heimili okkar og annars staðar. Það er mjög ánægjulegur hluti starfsins og þeir sem eru í þessu starfi verða að hafa gaman af að umgangast fólk. Hluti af mínum tíma fór auðvitað í utanumhaldið um heimilið og reksturinn á því öllu.“

„Geir var búinn að vera í ríkisstjórn í 11 ár áður er hann varð sendiherra en hann hafði verið fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og forsætisráðherra,“ segir Inga Jóna. „Ég hafði því góða reynslu af því hvernig er að vera maki manns í annasömum ábyrgðarstörfum, sem krefst að ákveðnu leyti þátttöku beggja. Fljótlega tók ég því ákvörðun um að vera ekki í föstu starfi. Ég þurfti að geta skipulagt minn eigin tíma og það hentaði mér því vel að taka að mér tímabundin verkefni. Ég hef aldrei litið á það sem sérstaka fórn og hef aldrei verið í vandræðum með að koma mér í áhugaverð verkefni. Að fara í nýtt hlutverk var því ekkert erfitt,“ segir Inga Jóna. Áður hafði hún m.a. verið borgarfulltrúi í átta ár en hún er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Bakaði margar pönnukökur

Með barnabörnum að skoða minnismerkið í Washington.

„Ég lagði áherslu á að hafa íslenskan mat á boðstólum þegar við vorum með gesti og hafði góða tengingu við kaupmenn hér heima sem sendu mér ferskt íslenskt hráefni. Framboð af íslenskum mat hefur líka aukist í verslunum í Washington á undanförnum árum. Ég bakaði margar pönnukökur og notaði í eftirrétti,“ segir Inga Jóna og hlær. „Það var svo einfalt. Pönnukökur með ís og bláberjasósu eru góður íslenskur eftirréttur og vöktu alltaf hrifningu gesta okkar. Við lögðum mikinn metnað í að okkar veislur væru góð kynning fyrir Ísland og ég vona að  okkur hafi tekist það,“ segir Inga Jóna. „Sendiráðin eru flest með sinn eigin matreiðslumeistara en við höfum ekki lagt pening í það. Við vorum með okkar eigin ráðskonu, sem var góður kokkur og hún hjálpaði okkur mikið þegar þess þurfti. Auk þess fengum við íslenskan matreiðslumeistara sem bjó í borginni til að vinna með okkur. Einstaka sinnum komu menn að heiman ef mikið stóð til.“

Makaklúbbar

Eftir stríð voru stofnaðir alþjóðlegir klúbbar í Washington til að auðvelda mökum erlendra diplómata að kynnast samfélaginu. „Þar blandast saman fólk úr bandaríska þinginu, dómskerfinu, ráðuneytum, mennta- og menningarlífi og fjölmiðlum. Þetta er mjög fjölbreyttur hópur og ég þáði boð um inngöngu í einn slíkan klúbb. Sá klúbbur lagði líka áherslu á að bjóða karlkyns mökum aðild. Ég fann mig vel í þessu og tók virkan þátt, var m.a. forseti klúbbsins eitt árið. Þetta var góð reynsla og þarna eignuðumst við Geir marga góða vini.“

Maðurinn hennar Mary

Inga Jóna skálar við yngstu dótturina á sjötugsafmæli sínu.

„Tvisvar á ári eru svokallaðir „couples dinners“ og þá hittast allir meðlimir með mökum. Í fyrsta kvöldverðinum, sem boðið var til af finnska sendiherranum, kom Geir til mín og sagði: „Heyrðu Inga, hann er hér hann Anthony Kennedy hæstaréttardómari.“ Nú er það segi ég, hvar er hann? „Sjáðu, hann stendur þarna.“ Nú já, þú meinar manninn hennar Mary,“ segir Inga Jóna og skellihlær. „Fyrir mér var þetta maðurinn hennar Mary. Þetta er gott dæmi um hve auðvelt gat verið að kynnast áhrifafólki í borginni á vettvangi klúbbsins. Það skiptir auðvitað miklu máli í starfi sendiherra.“

„Í þessu klúbbastarfi eru pólitísk ágreiningsmál ekki rædd. Það verður að virða ákveðin mörk. Ég gerðist hins vegar félagi í öðrum klúbbi sem hafði verið stofnaður í minningu Eleanor Roosevelt og þar voru tekin til umræðu ýmis alþjóðamál og áhugaverðir fyrirlesarar fengnir. Það var mjög skemmtilegur hópur sem hittist einu sinni í mánuði. Margir úr hópi maka diplómata hafa starfað vítt og breitt um heiminn. Tækifæri til að ræða mál í trúnaði á lokuðum fundi var því kærkomið. Ég leiddi þann hóp eitt árið sem var mjög gefandi.“

Eru nú komin heim

Og hvað tekur nú við þegar þið eruð komin aftur heim? „Við erum að koma okkur aftur fyrir í húsinu okkar í Vesturbænum. Við eigum orðið stóra fjölskyldu sem fer stækkandi sem er svo dásamlegt,“ segir Inga Jóna. Þau eiga fimm börn samtals og fjórtán barnabörn og nýlega kom eitt langömmu- og afabarn í heiminn og allir búa hér á landi. „Þetta er sannarlega ríkidæmi og nóg að gera því auðvitað erum við innan handar þegar þarf að aðstoða í dagsins önn því nú hefur hægst um hjá okkur. Við vildum ekki minnka við okkur húsnæði þótt við séum komin á þennan stað í lífi okkar því við viljum hafa pláss fyrir allan hópinn okkar.

Ég er mjög þakklát fyrir að geta notið lífsins, ekki síst menningarlífsins hér heima því það er svo mikið um að vera. Það er líka gaman að sjá gróskuna í atvinnulífinu. Nýjar hugmyndir og kraftmiklir einstaklingar að skapa nýtt. Svo hlakka ég mikið til að fylgjast með öllu frábæra listafólkinu okkar. Ég lít björtum augum til framtíðarinnar og hlakka til að takast á við þau viðfangsefni sem lífið býður upp á.“

Sérðu breytingar á íslensku samfélagi?

Yngsta barnabarnið tekur á móti ömmu heima á Íslandi en covid kom í veg fyrir að hann gæti heimsótt hana út.

„Ég er alsæl yfir að vera komin heim og vil hvergi annars staðar vera þótt árin í Washington hafi verið skemmtileg og viðburðarík. Aðstöðumunur fólks hér á landi og þarna úti er mikill. Eitt af því sem ég tek eftir er orðræða sumra, þar sem mætti halda að hér væri hræðilegt ástand á meðan kannanir segja allt annað. Við erum svo heppin að eiga þetta frábæra land og ómetanlegar auðlindir. Ég var að sjá niðurstöður úr könnun sem gerð var í OECD-ríkjum á tekjumun þegnanna. Í þessari stóru könnun var niðurstaðan sú að hér á landi er hvað minnstur tekjumunur. Hér er misskiptingin sem sagt hvað minnst, á því er enginn vafi því tölurnar tala sínu máli,“ segir Inga Jóna sem nú getur borið saman ástandið hér og í Bandaríkjunum.

Breyting á orðanotkun

Önnur breyting sem Inga Jóna sér er orðanotkun í íslenskunni. Hún var formaður útvarpsráðs í mörg ár og nú heyrir hún breytingu á orðanotkun í útvarpi sem henni þykir sérkennileg. „Nú tilheyri ég ekki lengur mönnum, af því að ég er kona. Mér brá í brún í fyrra þegar verið var að kjósa mann ársins, sem áralöng hefð er fyrir. Þegar kom að því að greina frá niðurstöðu var allt í einu farið að tala um manneskju ársins – ástæðan var sú að kona hafði verið valin! Við erum svo heppin að hafa í okkar máli samheiti yfir alla. Fólk er orðið hrætt við að nota þetta fallega íslenska orð – maður, nema um karlmenn. Þessi breyting er ekki innlegg í jafnréttisbaráttuna. Og alveg nýlega heyrði ég splunkunýtt orð, stjórnarmanneskja. Ég hef sjálf verið stjórnarmaður í mörgum félögum, formaður í sumum og mér finnst þetta öfugþróun. Vilja menn til dæmis tala um markmanneskju í kvennaboltanum?“

Skipulagsmálin

Inga Jóna segist undrast stöðu skipulagsmála í Reykjavík. „Þétting byggðar er sjaldnast afturkræf og mér sýnist menn fara offari og gera sig seka um skammtímahugsun,“ segir Inga Jóna og segist auðvitað ekki hafa hætt að fylgjast með stjórnmálunum hér heima þótt hún hafi búið erlendis í nokkur ár. Þétting byggðar getur verið hagkvæm en hún má ekki breytast í öfgastefnu. Eitt ótrúlegasta dæmið sem ég hef séð er þegar kom fram tillaga um að setja niður leikskóla á Hagatorgi! Það virðast vera lítil takmörk fyrir hvað fólki dettur í hug. En vonandi verða borgarbúar vel vakandi og láta til sín taka.“

Horfir nú fram á skemmtileg ár

„Auðvitað byggist lífið mikið á því hvaða augum við lítum tilveruna og hvert viðhorf okkar er,“ segir Inga Jóna. „Ég finn bara fyrir tilhlökkun gagnvart hinum svokölluðu efri árum,“ segir þessi hressa kona sem er komin heim eftir að hafa þjónað íslenskri þjóð í Bandaríkjunum undanfarin sex ár með eiginmanni sínum og horfir nú fram á skemmtilega tíma.

 

Inga Jóna með barnabarnahópinn sinn 2016 við skírn Hafþórs, yngsta barnabarnsins þá.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn nóvember 12, 2021 07:00