Tók ákvörðun um að fylgja manninum sínum

Guðrún Harðardóttir er ein af íslensku konunum sem hafa fylgt eiginmanni sínum út í heim í þjónustu fyrir okkur Íslendinga. Það er auðvitað meira en að segja það vegna þess að þar með ráða makar, bæði konur

Guðrún og Stefán að fagna útkomu matreiðslubókarinnar sem Japanir gáfu út og Guðrún sá um. Máverkið á veggnum tóku þau með til Japan en það er af Guðrúnu.

og karlar og svo börn, ekki alveg ferðinni í lífinu á meðan á því stendur. Guðrún hefur létta lund og kaus að líta jákvæðum augum á þetta tækifæri sem henni bauðst frekar en einblína á það sem hún þurfti að fórna. “Auðvitað var sérstaklega erfitt að segja upp í vinnu sem ég var mjög ánægð í og fylgja Stefáni,” segir Guðrún. “En ég tók þessa ákvörðun sjálf og ætlaði mér að nýta tækifærin til hins ítrasta.”

Bandaríkin, Sovétríkin/Rússland og Japan

Áður en kallið kom hafði Guðrún starfað hjá RÚV með Rögnu Fossberg og segir að hún hafi hlakkað til á hverjum degi að mæta til vinnu. “Ég hafði verið að vinna með ótrúlega skemmtilegu og gefandi samstarfsfólki sem var mjög erfitt að kveðja.” Guðrún nam snyrtifræði fyrst og fór síðar til London og bætti við sig förðunarfræði. Hún nýtti sér það nám við störf hjá RÚV og líka í stóru leikhúsunum, auglýsingum og tónlistarmyndböndum.

Guðrún átti síðan eftir að dveljast með eiginmanni sínum, Stefáni Lárusi Stefánssyni í Bandaríkjunum, Frakklandi, Sovétríkjunum og Japan áður en þau komu heim en hann gegndi sendiherrastöðu og um tíma var Stefán forsetaritari í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar, eða á árunum 2000 til 2006 sem Guðrún segir að hafi verið sérlega skemmtilegur tími.

Matreiðslubókin tilbúin. Sjá má mynd af þeim hjónum á forsíðunni.skemmtilegur tími.

Á þessum tíma eignuðust þau tvo syni, Hörð Pál og Stefán Lárus sem fylgdu þeim. Það getur oft verið snúið að vera með börn í slíku starfi, sérstaklega þegar þurfti að finna skóla sem pössuðu frá landi til lands.

Guðrún hefur alltaf notið þess að fylgjast vel með þróun í alls konar hönnun, matarhefðum og híbýlum og kynnti sér þessi áhugamál sín á hverjum stað og kom ríkari heim. Þá reynslu nýtir Guðrún nú við hönnun á sérlega fallegum silfurmunum sem hún lærir í skartgripaskólanum Viva skart, www.vivaskart.is

Byrjaði í silfursmíðinni

Skartgripir sem Guðrún smíðaði í Viva Skart.

Þegar Guðrún kom heim frá Japan hvatti vinkona hennar, Svanborg Matthíasdóttir myndlistarmaður, hana til að koma á námskeið í skartgripaskólanum Viva Skart þar sem aðalmaðurinn er Vífill Valgeirsson og með honum er Leifur Jónsson gullsmiður. Þar var Svanborg á námskeiði með móður sinni og sagði Guðrúnu að hægt væri að fá útrás fyrir listræna hæfileika sem hún taldi Guðrúnu búa yfir en Svanborg er sjálf kennari við LHÍ.

“Á þessu námskeiði var samankomið fólk á aldrinum 16 ára til 85 ára. Þarna sá ég til dæmis fullorðna konu búa til allt skartið í íslenska þjóðbúninginn, ómetanlegt djásn. Þarna er fólk á öllum aldri að búa til persónulegar gjafir handa ástvinum og þegar öllu er á botninn hvolft hafa flestir einhverja listræna taug,” segir Guðrún. “Á þessum námskeiðum eru auk þess gífurlega færir kennarar sem leiðbeina okkur mjög vel.”

Opnaði snyrtistofu á Ítalíu

Þegar Íslendingar fóru að flykkjast á sólarstrendur á áttunda áratugnum  notuðu Guðrún og vinkona hennar tækifærið og opnuðu snyrti- og hárgreiðslustofu í Lignano á Ítalíu. “Það hefur sennilega alltaf blundað í mér ævintýramanneskja,” segir Guðrún og segir að það hafi eflaust hjálpað sér við að taka ákvörðunina á

Skartgripir sem Guðrún hefur smíðað, m.a. til gjafa.

sínum tíma að fylgja Stefáni Lárusi á ferðum hans fyrir Utanríkisþjónustuna.

“Á Ítalíu fékk ég að kynnast ítalskri menningu og hef síðan verið mikill aðdáandi þess lands.” En þegar Guðrún er spurð hvaða staðar, sem hún hafi dvalið á, hún sakni mest hikar hún ekki og segir að Rússland hafi heillað hana mest. “Við vorum þar á mjög áhugaverðum tíma þegar allt var að taka breytingum. Sovétríkin hrundu til grunna og Rússland varð arftaki þess. Guðrún og Stefán Lárus komu til Sovétríkjanna í júlí 1990. Byltingin varð í ágúst 1991 og þá reis Rússland upp úr þeim rústum.

Menningin og öll listin sem þar er að finna er ómæld.”

Guðrún og Sttefán með Martha Stewart sem kom tll Japan í tilefni útkomu bókar sinnar.

Japan

Guðrún og Stefán Lárus voru í Japan á árunum 2008 – 2013. Stefán var í Japan þegar risajarðskjálftinn varð 2011 sem var 9.0 á richter og Fukushima kjarnorkuslysið og fór hvergi. Þegar ró komst á hélt lífið áfram og Guðrún kynntist félagsskap sem var hópur sendiráðskvenna frá öllum heimshornum. “Við hittumst einu sinni í viku og lærðum málun og skiptumst svo á að kynna rétti frá heimalandinu í hádeginu. Þetta var nákvæmlega á mínu áhugasviði og ég kynntist hlutum sem ég hefði aldrei kynnst annars.”

Vinna maka þeirra sem starfa í Utanríkisþjónustunni er töluverð en þeim er ekki frjálst að stunda launaða vinnu í landi sem þeir dvelja. “Mín vinna fólst aðallega í að taka á móti gestum og kynna íslenskar hefðir. Ég eldaði matinn sem við buðum gestum okkar upp á. Japönunum þótti mjög merkilegt að ég skyldi búa þetta allt til sjálf þótt í stærri veislum fengjum við kokka. “Í framhaldi komu starfsmenn bókaútgáfu nokkurrar og báðu mig um að taka þátt í útgáfu íslenskrar matreiðslubókar sem ég gerði og hafði mikið gaman af.” Þar kynnti Guðrún m.a. íslenska fiskinn og hefðirnar og eldaði allan matinn fyrir myndatökurnar. Bókin var fyrsta matreiðslubókin með íslenskri matargerð sem gefin hafði verið út á japönsku og varð strax grundvallarrit um íslenska matargerð þar og seldist mjög vel. Þetta reyndist verða mikil landkynning fyrir Ísland.

Ómetanlegt að fá foreldrana í heimsókn

Foreldrar Guðrúnar, Hörður Pálsson bakarameistari á Akranesi og Inga Sigurðardóttir, fóru með henni til Japan og dvöldu í heilan mánuð. “Þetta var ómetanlegur tími. Bæði fyrir mig og foreldra mína,“ Segir Guðrún. “Kynslóðin á eftir okkur hugsar öðruvísi og hefðin að konan fylgi manni sínum er ekki svo sjálfsögð. Ég setti kostina og gallana á vogarskálar og fann út að það var þess virði. Ég lærði mjög margt og þurfti að geta ráðið við allar aðstæður sem ég var sett í. Til dæmis þegar ég var sett til borðs með Japanskeisara og þurfti að halda uppi samræðum við hann í gegnum túlk. Við komumst til dæmis að því að við ættum sama afmælisdag í því spjalli eða 23. desember, en það var þess vegna hátíðardagur þar í landi,” segir Guðrún.

 

Sólveig Baldurdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

—–

 

Ritstjórn október 16, 2020 07:56