Ræktar þú ást?

Kristín Linda Jónsdóttir hjá Huglind er sálfræðingur, fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

Einmitt, núna um hásumarið, eru flestir meira með sínum elskuðu en á öðrum tímum. Einfaldlega vegna þess að frí frá vinnu og skóla veldur því að meiri tími verður til samveru með þeim sem við búum með, okkar nánustu, þeim sem við elskum mest. Hvernig gengur það? Hvernig nýtum við tækifærið? Hvernig ræktum við ást, um hásumar og árið út í gegn?

Eitt er allavega vitað. Rannsóknir hinna virtu Gottmann sálfræðinga, hjónanna Dr. John Gottman og Dr. Julie Schwartz Gottman hafa sýnt svo ekki verður um villst að það að snúa sér að/turn towards hvort öðru er einkenni blómstrandi ástarsambanda. Svo í stuttu máli, viljir þú rækta kærleika, nánd, hlýju, gott samband og ást í sumar og um alla framtíð:

  • Snúðu þér þá að þeim sem þú annt ástinni þinni, oft, aftur og aftur. Þegar þú opnar augun að morgni, þegar þið mætist, þegar það er gaman þegar það er erfitt, þegar þið leggist til hvíldar þegar þið njótið ásta.
  • Snúðu þér að þeim sem þú elskar, þykir vænt um og vilt sinna og rækta. Hvort sem það er maki, barn, unglingur, uppkomið barn, ættingi, vinur, vinkona, eða einhver annar.
  • Sýndu þeim sem þú býrð með athygli með því að snúa þér að, bókstaflega. Ekki ganga framhjá, hunsa, sleppa að líta upp, yrða á eða heilsa.
  • Snúðu þér að, virkilega sjáðu og náðu augnsambandi og haltu því um stund.
  • Snúðu þér frá, símanum, bókinni, prjónunum, pottunum, sjónvarpinu og að þeim þú vilt rækta ástina með.
  • Snúðu þér að og heilsaðu, sýndu áhuga, gefðu athygli, augnsamband, ástúð og ef við á knús eða koss.
  • Það er líka hægt að snúa sér að og nota um leið orð. Jákvæð orð sem lýsa þakklæti, feginleik, fögnuði, umhyggu og ást.
  • Snúðu þér að og leggðu hönd á hönd, hönd á öxl, gefðu háa fimmu, eða klapp á bakið.
  • Snúðu þér að dýrmætustu manneskjunum í lífi þínu, í sumar og alla daga, ekki frá. Stýrðu hegðun þinni þannig að þú sýnir ástúð í verki.

snúa sér að í hversdeginum er dýrmætasti lykillinn að góðu ástarsambandi og góðri sambúð. Rannsóknir John og Julie snéru að pörum/hjónum en þetta á sannarlega líka við um önnur sambönd við fólkið sem þú elskar mest og vilt að finni það, viti það og njóti ástar þinnar einmitt núna um sumarbjartarnætur. Ekki hika, vendu þig á að rækta kærleikann, gefðu töfrandi þræði ástarinnar vængi sálar þinnar með því að snúa þér að og opna leiðina frá sál til sálar.

Kristín Linda Jónsdóttir júlí 14, 2024 07:00