Reyndustu fréttaþulir landsins ná sjötugsaldri

Bogi Ágústsson er orðinn sjötugur og er í viðtali við LEB blaðið 2022, blað Landssambands eldri borgara, um þau tímamót. Í blaðinu er líka rætt við Eddu Andrésdóttur sem verður sjötug á þessu ári, en þau Bogi og Edda hafa verið áratugum saman verið helstu sjónvarpsfréttaþulir landsins.  Í viðtölunum við þau er meðal annars fjallað um aldurinn og Bogi er spurður að því  hvað taki við þegar hann ákveður að hætta að vinna.

Reglur ríkisins eru að fastráðningu lýkur við sjötugt en stundum heldur fólk áfram að vinna sem verktakar í einhverjum afmörkuðum verkefnum. Ég mun gera það. Við höfum gert samning til eins árs um áframhaldandi vinnu mína. Ég mun lesa fréttir og gera þætti fyrir útvarp. Mér hefur fundist mjög gaman í vinnunni og þetta er óskaplega skemmtilegur vinnustaður og ég get alveg hugsað mér að halda áfram þó ég minnki kannski eitthvað við mig.

Konan mín er líka hætt að vinna og við eigum sjö barnabörn. Fjögur þeirra búa í grennd við okkur og þeim hefur hún sinnt mjög mikið. Ég er ekki eins virkur afi og konan mín er virk amma en kannski hef ég aðeins meiri tíma til þess núna. Ég hef ekki áhyggur af því að mér muni leiðast. Mér finnst óskaplega gaman að lesa, hlusta á tónlist og undarlegt en satt þá hef ég haft gaman af því undanfarið að fara í líkamsrækt.

Í lok viðalsins er Bogi spurður hvort hann muni einhvern tíma minnka það að fylgjast með?

Það kann að vera. Ég fór einu sinni í frí þegar ég var fréttastjóri. Við fórum til Mallorka í lítinn bæ. Þetta var 1996 og þar var ekki sjónvarp né útvarp á staðnum en hægt að fá ensk og þýsk blöð sem ég stillti mig um. Ég notaði bara símann til að fylgjast með úrslitum í KR leikjum, og eins lengi og ég get mun ég fara á KR leiki. Ég þakka fyrir hvern dag sem heilsan er góð því það getur breyst hratt. Ég á vini og ættingja þar sem hlutirnir hafa breyst á örskammri stundu.

Edda Andrésdóttir sem verður sjötug á árinu er fyrst í viðtalinu spurð að því hvort hún hafi áform um að vinna  áfram efir afmælið.

Já, ég verð sjötug í árslok og hef rætt þau tímamót við vinnuveitendur mína en ég hef sjálf bryddað uppá þeirri umræðu og finn ekki annað en að mér sé í sjálfsvald sett hvað ég geri.  Það er alla vega engin pressa í þá átt að ég hætti, nema síður væri. En mér hefur flogið í hug að það gæti verið spennandi að breyta til á þessum tímamótum og fara í dagskrárgerð í stað þess að halda áfram að lesa fréttir og ég finn ekki annað en a sú leið sé opin. En svo getur vel verið að eitthvað allt annað gerist í lífinu og leiði mann inn á aðrar brautir. En eins og ég segi, ég finn ekki á mínum vinnuveitendum að talan 70 skipti nokkru máli í þessu sambandi og það er skrambi góð tilfinning.

Það er erfitt að trúa því að þú sért á sjötugasta aldursári Hvernig leggst það í þig spyr blaðamaðurinn.

Það leggst bara vel í mig. Það er alltaf eitthvað spennandi við tímamót, svona eins og eitthvað nýtt gæti farið að henda. Svo lengi sem maður heldur heilsu og fólkinu manns farnast vel er þetta allt saman gott og blessað og forréttindi að fá að eldast. Moðuramma mín í Vestmannaeyjum varð næstum 105 ára og nú rennur upp fyrir mér að hún átti eftir að lifa í næstum 35 ár þegar hún var á mínum aldri. Mamma hefur erft genin hennar. Hún er 95 ára og býr í sinni eigin íbúð á 4.hæð þar sem er engin lyfta og gengur upp og niður stigana á hverjum degi.

Eðli málsins samkvæmt man hún lengra aftur en við hin, er glögg og skýr og fjölskyldan leitar oft til hennar með eitt og annað í lífinu. Þegar ég lít til þessara kvenna – og ef ég skyldi nú vera svo heppin að hafa erft eitthvað af genum þeirra í þessum efnum getur lífið framundan ekki sýnst annað en gott.

Þau Bogi og Edda eru að sjálfsögðu spurð um fjölmiðlaferilinn í viðtölunum og fyrir þá sem vilja lesa meira í LEB blaðinu, má smella hér.

Blað Landssambandsins kemur út á hverju vori og þar er að finna áhugaverðar greinar um ýmis málefni.

Ritstjórn júní 14, 2022 07:00