Sjálfsagt að eldast í sjónvarpi

Forsíðuviðtalið í fyrsta tölublaði tímaritsins MAN á nýju ári, er við Eddu Andrésdóttur fjölmiðlakonu og fréttaþul á Stöð tvö. Það er komið víða við í viðtalinu, rætt um lífið í Vestmannaeyjum, augnsjúkdóm sem Edda fékk nýlega og svo auðvitað um fjölmiðla. Hún hóf fjölmiðlaferil sinn 19 ára gömul og starfar enn á Stöð tvö, 45 árum síðar. Hún segir sjálfsagt að eldast í sjónvarpi. En vitnum aðeins við viðtalið við hana.

Edda segist fylgjast með erlendu fréttastöðvunum og læra margt af þeim og þegar umræðan berst að því að eldast í sjónvarpi þar sem æskudýrkunin hefur löngum verið við lýði bendir hún á kollega sína í Bandaríkjunum. „Sjáðu Lesley Stahl sem er á áttræðisaldri og Barböru Walters sem er á níræðisaldri. Christiane Amanpour nálgast sextugt og Diane Sawyer var 64 ára þegar hún tók að sér að vera aðalfréttalesari á sjónvarpsstöðinni ABC. Þessar konur eru öflugar og flottar fyrirmyndir. Það á að vera sjálfsagt mál að eldast í sjónvarpi. Á minni stöð er stöðugleiki í fjölbreytileikanum og mér finst að æskudýrkunin sé á undanhaldi. Ég myndi þó vilja sjá fleiri eldast í sjóvarpi. Með því að halda sama fólkinu skaparðu traust gagnvart áhorfandanum“. Aðspurð hvort það sé aldrei erfitt að bæta á sig árum í beinni svarar Edda:“Ef ég er ekki í toppformi á ég til að hugsa „æ, ég er orðin of gömul í þetta“, en svo segir kannski einhver eitthvað jákvætt og ég tek gleði mína á ný,“ segir Edda og hlær. „En maður verður sjálfur að þekkja sinn vitjunartíma, það gerir enginn fyrir mann. Það þýðir ekkert að spyrja aðra, þetta segja þér bara heili þinn og hjarta. Það hljómar kannski undarlega en ég er ekki komin þangað að mig langi til að hætta.

Edda segist enn hafa gaman af starfinu og gleðinni og ákafanum sem fylgir því.  Allt geti gerst í beinum útsendinum, en þegar dagsverkið sé gott og þá sé hún alltaf jafn stolt af því að vinna með fólkinu á Stöð tvö

Það er góð tilfinning sem fylgir því að skila fínni vinnu. Ef eitthvað klikkar verðum við að halda sjó. Það getur vel verið að þetta haldi manni ungum – að örva hugann og sálina – það og hlátur“, segir Edda sposk. „En mestu skiptir að vera sannur – að vera maður sjálfur. Kameran sér í gegnum mann ef maður reynir að vera eitthvað annað en maður er. Maður má ekki vera hræddur við kameruna, hún er manni hliðholl ef maður er almennilegaru“ segir Edda að lokum.

Ritstjórn janúar 5, 2017 13:49