Skerðing „krónu á móti krónu“ gæti verið mannréttindabrot

Starfslokaaldur er lögbundinn í ýmsum löndum, en það eru líka lönd sem hafa engan lögbundinn starfslokaaldur.  Það er ekki talið brot á rammatilskipun ESB um bann við mismunun á vinnumarkaði að miða starfslok við ákveðinn aldur.  En það er almennt talinn stór þáttur til réttlætingar lögbundnum starfslokaaldri að viðkomandi séu tryggð eftirlaun sem duga til framfærslu.  Þetta kom fram í fyrirlestri sem Margrét Steinarsdóttir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands hélt í síðustu viku í Félagi eldri borgara í Reykajvík.

Þarf að breyta krónu á móti krónu skerðingunni

Margrét telur líklegt að það þurfi að breyta því fyrirkomulagi sem hér tíðkast, að skerða tekjur fólks „krónu á móti krónu“, eins og það er kallað í daglegu tali. Hún segir að Íslendingar eigi aðild að alþjóðasamningi um efnahagsleg-, félagsleg- og menningarleg réttindi, en þar skuldbindi ríki sig til þess að gæta sérstaklega að viðkvæmum hópum og tryggja að allir geti lifað mannsæmandi lífi. . Með samningnum er bókun,sem við höfum að vísu ekki fullgilt hér, en hún gerir borgurum aðildarríkja kleift að kæra meint brot á samningnum til nefndar sem starfar á grundvelli hans. Ef Ísland hefði fullgilt þessa bókun og einhver yrði til þess að kæra krónu á móti krónu fyrirkomulagið til nefndarinnar, þá gæti niðurstaðan orðið sú að ríkið teldist hafa brotið gegn samningnum.

Geta ekki lifað á lífeyrinum

Eftir hrunið hafi kjör eldra fólks og öryrkja verið skert, en ákvæði samningsins um að þegar slíkt sé nauðsynlegt, beri að hafa samband við þá sem skerðingin bitnar á og greina frá því hvenær skerðingin verði tekin tilbaka, hafi ekki verið notað hér.  Margrét segir að hvort sem um sé að ræða eldra fólk eða öryrkja, þurfi menn lífeyri sem þeir geti lifað af. En þeir landsmenn sem ekki hafi réttindi úr lífeyrissjóðum geti ekki lifað á lífeyrinum sem þeir fái frá hinu opinbera.  Skerðingin „króna á móti krónu“, dæmi svo alla til að lifa við sömu lélegu kjörin, þótt þeir hafi áunnið sér  einhver lífeyrisréttindi í gegnum vinnu sína um starfsævina. „Það er mín skoðun að það þurfi að endurskoða þetta“, segir hún.

 

 

 

 

Ritstjórn júní 15, 2016 12:53