„Röddin getur laðað að en líka hrint frá“

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir, tal- og raddmeinafræðingur, hefur varið starfsævinni í að vekja athygli fólks á því að raddheilsa er mikilvægur hluti almenns heilsufars og er enn að þótt hún sé komin á eftirlaunaaldur. Henni finnst hún stundum eins og rödd hrópandans í eyðimörkinni því fæstir gera sér grein fyrir að röddin getur brugðist og hávaðinn í umhverfi okkar hefur víðtæk áhrif á bæði rödd, líkama og sál.

„Við erum alltaf að komast betur og betur að því hvernig þekkingarleysið á rödd sem hljóði og sem heilsumáli veldur skaða,“ segir hún. „Ég verð ekki ánægð fyrr en mér tekst að koma röddinni undir lýðheilsumál. Ég hlustaði á virtan breskan prófessor taka saman niðurstöður fimmtán ára rannsókna í Bretlandi sem sýna að við erum síður en svo að fara inn á betri veg. Það er allt of mikill hávaði í umhverfi barna. Ég hef mestar áhyggjur hér af raddheilsu kennara sem er bágborin hjá mörgum þeirra. Ég veit til að mynda um íþróttakennara sem er svo illa komið fyrir að hann getur ekki lengur átt venjulegar samræður við fjölskyldu sína. Röddin leyfir það ekki. Aðstæður á vinnustaðnum voru þannig að röddin brást. Hann mun líklega aldrei ná sér til fulls.

Rödd sem slík er bara hljóð. Alla jafna förum við ekki með bílinn í viðgerð vegna þess að hljóðið er bilað heldur vegna þess að hljóðið segir þér að eitthvað sé að vélinni. Tal og rödd er afrakstur af líkamsstarfsemi en þá starfsemi veit fólk lítið um. Hætti fólk hins vegar að geta tjáð sig er það komið í einangrun sem félagsverur. Ef hávaðinn er jafnmikill og mælist víða, bæði hér og erlendis, er hann meiri en svo að röddin geti borist í gegnum hann. Þá hindrar hann að börn geti þroskað með sér mál. Börnin heyra ekki í kennurum sínum og hvernig getur barn sem ekki heyrir greinilega mál lært að tala? Annað er líka að börn verða að læra að hlusta til að geta lært mál og til að þekkingarlöngun vakni. Allt að 90% barna er daglega á leikskóla og nú á að taka þau inn enn yngri og þá dvelja þau í þessu umhverfi allt máltökuskeiðið.

Við festumst í ákveðnum blekkingarvef vegna þess að við heyrum svo vel til sjálfra okkar. Við vitum ekki hvernig röddin fer í aðra og hvort hún yfirleitt berst. Ég tel mikinn skort vera á því sem ég vil kalla raddmenningu. Hvergi hef ég séð gögn sem benda til að það sé nauðsynlegt málþroska að öskra. Hvers vegna ættu börn frekar að öskra en fullorðnir? Öskur geta skemmt raddböndin og einstaklingurinn verður hás. Fyrir utan að öskur eru afskaplega þreytandi, bjóða þau upp á meiri hávaða því það er í eðli okkar að hækka röddina til að yfirgnæfa háreysti. Svo koma börnin heim eftir leikskólann með röddina uppspennta því þau hafa talað þeim rómi allan daginn. Ég get ekki undirstrikað nægilega að rödd er heilsufarsmál.“

Hávaðinn vandi sem vefur utan á sig

Hugsanlega bregður mörgum við að heyra þetta en líklega eru fáir sem ekki geta tekið undir með Valdísi Ingibjörgu að skarkalinn allt í kringum okkur er iðulega yfirþyrmandi. Hún er þegar búin að rekja að hér er á ferð lýðheilsuvandamál en kannast hún við eða þekkir einhverjar rannsóknir sem sýna hvaða áhrif þetta hefur á fólk andlega? „Já, þótt það sé reyndar komið yfir á verksvið geðlækna,“ segir hún. „Hávaðinn er skemmandi fyrir bókstaflega alla líkamsstarfsemi. Hann er hættulegur rödd, heyrn og fólk sefur verr þar sem hávaði ríkir. Hann er fyrirbæri sem vefur utan á sig. Ef barn nær ekki tökum á máli á máltökuskeiði gæti það verið skýring á t.d. vankunnáttu í að skilja mál, vankunnáttu í lestri og vangetu til að móta hugsun sína í orð. Þar finnum við tengingu. Ef börn eru á leikskóla eða skóla heyra þau ekki almennilega í kennaranum vegna þess að mörg talhljóð bókstaflega drukkna í hávaðanum. Kennarinn er ómeðvitaður um þetta því hann heyrir svo ágætlega í sjálfum sér.

Ég veit vegna minna rannsókna að kennarar hafa ekki verið nægilega vakandi yfir að vita hvernig heyrnarstatus barnanna sem þeir hafa í bekk er. Ef hann í ofanálag er slæmur er rétt hægt að ímynda sér hvernig snjóboltinn stækkar. Ef þú getur ekki tjáð þig þannig að þú skiljist og getur ekki skilið það sem er til umræðu hlýtur þú að vera komin í vanda í skóla.

Doktorsritgerðin mín var um magnarakerfi í skólastofu. Vissulega má margt að því finna og kannski er það enn ekki nægilega þróað til þessara nota. Til að magnarakerfi virki þarf hljóðvistin í kennslurýminu að vera fyllilega góð. Að auki verður kennarinn að kunna að nota þetta. Niðurstöður mínar í þessari ritgerð eru sláandi. Meirihluti barnanna tók fram að þau heyrðu miklu betur þegar magnarakerfi var notað. Sögðu: „Ég heyrði það sem kennarinn sagði.“ Fyrir utan það fer skemmd rödd illa í fólk. Kennararöddinni hættir til að festast hátt uppi vegna þess að vöðvaspennan í raddkerfinu er orðin það mikil og það er ekki notalegt að hlusta á slíka rödd. Í raun er röddin eins og hvert annað tæki sem annaðhvort laðar að eða hrindir frá. Merking orðanna liggur í raddblænum þess vegna er svo slæmt þegar hann fer.“

Hvað gerist þegar raddblærinn tapast?

Valdís Ingibjörg hallar sér fram og segir undurblíðum rómi: „Farðu til fjandans, elskan.“ Og blaðamaður finnur að svo fallega er beiðnin sett fram að hann væri tilbúinn til að skjótast í neðra með mestu ánægju og varla hægt að koma skilaboðunum betur til skila.

„Orð geta misst marks. Ef réttur raddblær fylgir ekki er merkingin dottin úr orðnu. Þessu áttar fólk sig ekki á, skilur ekki hvernig það getur stuðað eða laðað að með sinni rödd,“ heldur hún áfram. „Talmál og ritmál er tvennt ólíkt. Röddin er tónbrigði með hraða, hljóðum og takti, þetta er músíkin í eyrum okkar. Eins og setningin sem ég sagði áðan sem missti algerlega marks af því að ég notaði snarvitlausan raddblæ. Þegar röddin er orðin skemmd er þessi hæfileiki tekinn frá henni. Það er ákveðið valdboð sem býr í raddbeitingu.“

En hvað er til ráða? „Að auka þekkingu,“ segir Valdís Ingibjörg með þungri áherslu. „Auka fræðslu meðal barna og fullorðinna. Bæta raddmenningu. Fólk þarf að læra af hverju það á að nota inniröddina. Það er ekki nóg að nota innirödd inni. Má maður þá öskra og góla sér til skaða utandyra? Allir þurfa að skilja hvaða ástæður liggja að baki. Þetta er ákveðinn skortur á menningu bæði hvað snertir rödd og umgengni við hluti. Skark og skurk í stólum, borðum og fleiru skapar allt hávaða og svo höfum við þessa tilhneigingu að hækka okkur upp yfir hávaðann. Best er að byrja strax að fræða í leikskóla og auðvitað á fólk alls staðar að hafa þekkingu á röddinni einnig sem atvinnu- og samskiptatæki.“

Fjöldi fólks á atvinnuöryggi sitt undir röddinni og nægir að nefna sálfræðinga, fréttamenn, íþróttaþjálfara, kennara, leiðsögumenn, lögmenn og þingmenn. Valdís Ingibjörg bendir á að enn hafi röddin ekki verið viðurkennd sem atvinnutæki og nýtur því engrar verndar. Hún segir að þó séu til nokkurs konar dekurraddir. Það séu raddir leikara og söngvara sem verja hana með öllum tiltækum ráðum. Engu sé líkara en þegar þetta tæki okkar sé notað til skemmtunar verði það verðmætara en þegar það er notað í öðrum tilgangi. Hún nefnir einnig að það sé vel þekkt að röddin veikist með aldrinum. Það kemur brestur í hana eldra fólk talar stundum lægra en þeir sem yngri eru. Raddir þeirra heyrast þess vegna síður gegnum síbyljuna og skarkalann sem fylgir daglegu lífi.

„Kannski er komin tími til að við viðurkennum að röddin er það veikur miðill að hún gæti þurft magnarakerfi sér til stuðnings. Fólk heldur að röddin berist ósjálfrátt en það gerir hún ekki. Hún hefur sín takmörk. Flestir tala til þeirra sem standa næst en hinir sem eru til dæmis aftast í skólastofunni eru komnir út úr hlustunarvíddinni og ekki bætir úr skák ef einhver hávaði er til staðar. Skyldi hér vera komin skýringin á ýmsum námsörðugleikum?“ segir þessi magnaða hugsjónakona að lokum og röddin er mild en hér er talað af festu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 10, 2024 07:00