Er rödd þín í lagi?

Fjórtándi apríl er alheimsdagur raddar. Það blandast engum hugur um fagurfræðilegt gildi hennar – hvernig hún hljómar í söng, upplestri og leiklist en öðru máli gegnir um hvernig hún er metin sem forsenda lífsgæða og atvinnuöryggis. Í raun er rödd forsenda þess að geta rekið þjóðfélag. Röddin er hins vegar ekki viðurkennd sem atvinnutæki heldur er hún óvarin og ótryggð. Rödd er skynjun og skynjun bilar ekki. „Biluð“ rödd bendir þó til þess að eitthvað sé að í því flókna samspili vöðva sem myndar hana.

Röddin er afrakstur líkamsstarfsemi sem getur brugðist eins og hver önnur líkamsstarfssemi. En vegna þess að raddmyndun fer fram án þess að við verðum vör við hana hættir fólki til að ganga fram af raddmyndunarkerfinu með tilheyrandi afleiðingum. Þær eru þekktar sem raddveilur en alltof margir mislesa þær sem ofnæmiseinkenni t.d. raddbrestir, hástemmd rödd, eintóna rödd, langvarandi hæsi, raddþreyta við raddnotkun, minnkaður raddstyrkur og kökktilfinning í hálsi þ.e.a.s. eins og einhver fyrirstaða sé í hálsinum sem fólk losnar ekki við.

En hvað getur komið þessu ferli af stað. Þekkingarleysi fyrst og fremst – að kunna ekki á eigin raddfæri og vera ómeðvitaður um hvað þetta vöðvakerfi þolir. Hver myndi sparka berfættur í vegg? Sjálfsagt enginn og hvers vegna ekki? Jú það er vont. Þarna liggur meinið. Það er hægt að ganga fram af röddinni án þess að verða var við það t.d með því að öskra. Eina sem bendir til þess að búið væri að ganga fram af raddkerfinu yrði hæsi og jafnvel raddmissir.

Ég minntist á þjóðfélagslega nauðsyn raddar. Hvar væri þingmaður án raddar? Eða kennari? Vegna þess hve röddin er nauðsynleg er þekkingar- og andvaraleysi um raddheilsu í raun fáránlegt og þar hafa jafnt skólakerfi, heilbrigðiskerfi og stjórnvöld brugðist.

Kæri lesandi hvað veistu um rödd og raddheilsu þ.e.a.s. líkamskerfið sem myndar röddina og hvernig þú átt að passa hana? Við erum í raun að tala um heilsufar og rétt eins og fótbrot og annað sem varðar heilsufar, á raddheilsa að heyra undir lýðheilsu. Það gerir hún þó ekki og því þarf að breyta.

Valdís Ingibjörg Jónsdóttir skrifar

Ritstjórn apríl 14, 2024 07:00