Roger Waters kvænist fimmta sinni 78 ára

Roger Waters, einn af stofnmeðlimum rokksveitarinnar Pink Floyd, hefur kvænst unnustu sinni, Kamilah Chavis, sem er 43 ára. Waters er 78 ára og því 35 ára aldursmunur á brúðhjónunum.

Waters tilkynnti þetta sjálfur á samfélagsmiðlum og birti myndir úr brúðkaupinu, sem fór fram í New York á dögunum. Rokkstjarnan segir þar m.a. að þau Chavis hafi verið saman í um fimm ár. „Loksins einhver til að halda í,“ segir hann og kveðst hamingjusamur.

Chavis er fimmta eiginkona Waters. Hann var kvæntur ensku leirlistakonunni Judy Trim frá 1968 til 1975, Carolyne Christie frá 1976 til 1992, en hún er af breskum aðalsættum. Þá var hann kvæntur leikkonunni Priscilla Phillips frá 1993 til 2001 og leik- og kvikmyndagerðarkonunni Laurie Durning 2012 til 2015.

Auðæfi Waters eru metin á 310 milljónir dala, eða yfir 40 milljarða íslenskra króna.

Waters á hús við eina dýrustu götu heims, 6. breiðgötu í New York, en það er 7.000 fermetrar að stærð. Hann keypti það á yfir 15 milljónir Bandaríkjadala (2 milljarða íslenskra króna) árið 2007 og þar búa þau hjónin.

Waters hefur löngum verið aðgerðasinni og talist hallast til vinstri í pólitík. Hann hefur reitt marga til reiði í New York fyrir stuðning sinn við réttindabaráttu Palestínumanna, en hann lagði m.a. til að Ísraelsmenn yrðu beittir viðskiptaþvingunum.

Waters hætti í Pink Floyd árið 1985 og tapaði málsókn um að halda nafni sveitarinnar tveimur árum síðar. Hann hefur flutt mörg klassísk lög af frægustu plötum sveitarinnar, „Dark Side of the Moon“ og „The Wall“, bæði á eigin tónleikum og einnig í samvinnu við aðra söngvara hljómsveitarinnar, Dave Gilmour og Nick Mason, m.a. á stórtónleikum árin 2005 og 2011.

Waters hélt tónleika í Egilshöll í Reykjavík sumarið 2006.

Ritstjórn október 15, 2021 15:45