Undanfarin ár hafa sjálfsævisögulegar skáldsögur eða skáldævisögur, notið mikilla vinsælda. Bækur um erfiða lífsreynslu, baráttu og oftast sigur verða alltaf forvitnilegar fyrir lesendur, einkum vegna þeirrar skírskotunar sem þær hafa til okkar eigin lífs, eigin upplifana. Þær vekja von í brjósti okkar um að við getum sigrast á okkar vanda og aðdáun á sögupersónunum sem hafa gengið í gegnum svo margt, staðið af sér storminn og orðið sterkari og betri manneskjur. Gallinn er hins vegar sá að margir efast um sannleiksgildi þessara sagna og segja þar fleiri skáldleg tilþrif en sannreynanlegar staðreyndir.

Raynor Winn eða Sally Walker, höfundur bókarinnar, The Salt Path.
Þegar stíga fram á ritvöllinn einstaklingar og lýsa áföllum, sorgum og sigrum lífs síns verður að hafa þann fyrirvara að enginn er góður dómari í eigin sök. Minningar geta líka skolast til sérstaklega þegar hugsað er aftur til bernskunnar og hafa ber í huga að þótt börn séu saklaus í eðli sínu og hafi ekki þroska til að takast á við allt það sem hinir fullorðnu leggja oft á þau eru þau samt aðilar að samskiptum og geta haft afgerandi áhrif á hvernig þau þróast. Aðrir benda hins vegar á að allir eigi rétt á að segja sögu sína og þótt ýmsilegt sé látið ósagt eða beinlínis skáldað sé ekki þar með sagt að enginn sannleikur felist í skáldævisögunni. Nýjasta dæmið um þetta er The Salt Path eftir Raynor Winn en það er skáldanafn Sally Walker.
Bókin fékk metsölu þegar hún kom út árið 2018 og í fyrra var gerð kvikmynd eftir henni með þeim Gillian Anderson og Jason Isacs í aðalhlutverkum. Í bókinni og myndinni er sögð saga af hjónunum Raynor og Moth sem leggja af stað í göngu eftir gamalli þjóðleið, Saltslóðinni eða The South West Coast Path. Hann liggur meðfram suðvesturströnd Englands en þegar ferðin hefst hafa þau misst allt sitt. Þau lögðu fram hlutafjárloforð í fyrirtæki í eigu æskuvinar Moths en reksturinn fór á hausinn. Vinurinn krefst þess að þau greiði upphæðina sem þau lofuðu og lögsækir þau þegar þau segjast ekki geta staðið við það. Það verður til þess að húsið þeirra, draumaheimilið, var selt ofan af þeim og allar eigur teknar upp í skuldina. Til að bæta gráu ofan á svart greinist Moth með ólæknandi sjúkdóm, corticobasal degeneration eða CBD. Þetta er sjúkdómur skyldur MS og MND, en CBD veldur hrörnun á heilaberkinum og manneskjan missir smám saman stjórn á hreyfingum og hugsun sinni. Það er því sorgmætt og brotið fólk sem leggur upp í gönguna. Þau mæta síðan náttúrunni í allri sinni grimmd, miskunn og fegurð og sækja styrk í hverja upplifun. Bókin var tilnefnd til Wainwright-bókmenntaverðlaunanna, Costa-bókaverðlaunanna og RSL Christopher Bland-verðlaunanna.
Fjársvik og upploginn sjúkdómur
Nýlega birtist hins vegar grein í The Observer þar sem fullyrt var að margt hefði verið látið ósagt í bók Raynor eða Sallyjar og sumt beinlínis logið. Til að mynda hafi Raynor misst fyrirtæki sitt eftir að hafa stolið um það bil 64.000 pundum frá vinnuveitanda sínum en hún starfaði við bókhald hjá fasteignafyrirtæki í Wales. Í fyrstu hélt vinnuveitandinn að aðeins væri um það bil 9000 pund að ræða og gaf Raynor eða Sally tækifæri á að greiða það til baka og falla frá ákæru. Þegar hann og kona hans fóru síðan að skoða bókhaldið betur kom í ljós að hún hafði stolið frá þeim öll árin sem hún vann hjá þeim og heildarupphæðin mun hærri. Hann kærði hana þá en þegar lögreglan kom til að sækja hana til yfirheyrslu voru hún og maður hennar, Tim, horfin. Þau leituðu til fjarskyldra ættingja Tims og fengu að láni 100.000 pund hjá þeim til að gera upp skuldina við vinnveitandann. Lánið var tekið með veði í húsinu þeirra, Tims og Sallyjar. Þegar fyrirtæki ættingjanna sem þau fengu lánið hjá fór á hausinn tóku skiptastjórar við búinu og þar með láninu og það var þá sem húsið var selt til að gera upp við kröfuhafa í þrotabúið.
Reyndar kemur ýmislegt fleira áhugavert varðandi fjármál hjónanna er gengu Saltslóðina fram en Chloe Hadjimatheou rannsóknarblaðamaður og höfundur greinarinnar í The Observer fullyrðir einnig að Tim eða Moth eins og hann er kallaður í bókinni, þjáist alls ekki af CBD. Það sé hrein og klár lygi. Undir venjulegum kringumstæðum eru lífslíkur fólks með þennan sjúkdóm um það bil sex til átta ár eftir greiningu en nú eru liðin átján ár frá greiningu Moths og enn hefur hann engin sjáanleg einkenni. Þau hjónin hafa hins vegar fullyrt að gangan þeirra langa eftir Saltslóðinni hafi gefið honum endurnýjaðan lífsþrótt og lífsvilja. Þau gengu ríflega 1000 km. Eins og vænta mátti voru þessar uppljóstranir ekki til gleðja lesendur bókarinnar og margir þeirra telja sig hafa verið illilega blekkta. Raynor Winn er hins vegar langt frá því sú eina sem græðst hefur fé á góðri sögu sem ekki endilega er sönn.
Gefur son sinn þrettán ára gamlan
Höfundar skáldævisagna segjast gjarnan stíga fram og segja sögu sína til að hjálpa öðrum og lesendur segjast margir hverjir hafa orðið fyrir djúpstæðum og varanlegum áhrifum við lestur bóka þeirra. Tökum til að mynda Running with Scissors eftir Augusten Burrough. Samkvæmt honum gerir móðir hans geðlækni sinn að forráðamanni sonar síns þegar hann er þrettán ára. Faðir hans var alkóhólisti sem drakk stanslaust þegar hann var heima. Hann skipti sér sjaldan af syni sínum og þegar hann gerði það var það til að beita hann ofbeldi. Heimili geðlæknisins reynist heldur ekki öruggt skjól því þar er drengurinn misnotaður af sjúklingi sem einnig er ættleiddur af lækninum. Mjög svo frjálslegar umgengnisreglur ríkja á heimilinu og sóðaskapurinn þar er yfirgengilegur. Augusten heitir réttu nafni Christopher Robin Robison og Turcotte-fjölskyldan sem hann nefnir Finch í bókinni höfðaði mál gegn honum eftir að bækur hans komu út. Þau sögðu lýsingar hans á lífi þeirra langt frá sannleikanum og að lokum gerðu útgefendur hans sátt í málinu.
Hann var kallaður „Þetta“, eftir David Pelzer vakti gríðarlega athygli þegar hún kom út í Bandaríkjunum og var umtöluð þegar hún var gefin út hér árið 2001. Enginn af þeim sem sagt er frá í bókum David Pelzers hefur stigið fram og mótmælt skrifum hans. Ekki er heldur nokkur vafi á að hann var beittur miklu harðræði í uppvexti sínum því þegar hann var tekinn af móður sinni tólf ára gamall segir kennari hans að mál hans hafi verið þriðja versta mál sinnar tegundar í Kaliforníufylki frá því farið var að halda skýrslur um slíkt. En margir sérfræðingar hafa bent á að ef ofbeldið hafi verið jafnlátlaust og hann lýsir sé ekki nokkur leið að hann hafi lifað það af. Það hljóti að hafa komið hlé einhvern tíma á þessu átta ára tímabili. Geðlæknar hafa sömuleiðis lýst efasemdum um að barn geti þolað það sem hann lýsir án þess að brotna gersamlega og missa geðheilsuna. Margir hafa einnig bent á að engin skýring er gefin á því hvers vegna móðirin tekur David einan fyrir en hún á fjóra aðra drengi.

James Frey þurfti að játa í viðtali við Opruh WInfrey að margt í bók hans A Million Little Pieces væri stórlega ýkt og annað hreinn skáldskapur.
James Frey skrifaði um eiturlyfja- og áfengisfíkn og hvernig hann náði tökum á vanda sínum í Hazelden-meðferðarstöðinni í bókinni, A Million Little Pieces. Bókin var gríðarlega áhrifamikil, ekki hvað síst atriði þar sem James segir frá því hvernig hann, sjálfur veikur á svellinu, fer í inn í eiturlyfjabæli og sækir vinkonu sína sem hafði fallið og kemur henni í meðferð aftur. Rannsóknarblaðamaður hóf að kanna þá sögu og þar kom í ljós að ekkert var hæft í henni. James Frey varð einnig að játa í þætti hjá Opruh Winfrey að hafa fært í stílinn og skreytt mjög frásögn af tannviðgerð sem hann fór í skömmu eftir að hann kom til Hazelden og að hafa ýkt dvöl sína í fangelsi. Hann sagði sér til betrunar að þannig hafi hann upplifað þessa hluti og vinkonu hans hafi verið svona lýst til að leyna því hver hún væri og hlífa aðstandendum hennar. James afsakaði sig með því að hann hafi lagt handritið fram sem skáldsögu en útgefendur hans talið hann á að auglýsa bókina sem sjálfsævisögu þegar þeir komust að því að hann hefði að nokkru leyti byggt á eigin reynslu.
Sannleikurinn er sagna bestur
Íslendingar eru svo sem ekki óvanir umræðum af þessu tagi. Ævisaga Ruthar Reginalds vakti mikla athygli almennings en móðir hennar og stjúpi hótuðu málsókn, sögðu þar vikið á margvíslegan hátt frá sannleikanum. Sævar Þór Jónsson hefur svo sagt frá því í viðtölum að hann er útskúfaður úr fjölskyldu sinni eftir að Barnið í garðinum kom út og fékk ekki að mæta í jarðarför föður síns en fjölskylda hans vill meina að hann hafi ekki sagt satt og rétt frá.
En skiptir það máli þegar upp er staðið hvort sannleikanum er fylgt nákvæmlega eða einhvers staðar hægt að benda á missagnir? Nú þegar skiptast menn í tvö horn hvað varðar The Salt Path, sumir segja óumdeilt að hjónin hafi í kjölfar mikilla erfiðleika lagt á sig yfir 1000 km göngu og lært margt af þeirri þrekraun. Talsmenn hjónanna og útgefendur hafa borið til baka ásakanir um að sjúkdómurinn sé upploginn og segja Tim eða Moth vissulega vera haldinn honum. Á það er einnig bent að hver einstaklingur upplifir hlutina á sinn hátt og enginn einn sannleikur er til í neinu máli. Þeir benda á að með hjálp áhrifamikilla bóka sé okkur gert kleift að standa í sporum annarra og upplifa sársauka þeirra. Það geri okkur umburðarlyndari, skilningsríkari og betri manneskjur. Og vissulega er það svo en ef sannleikurinn er mjög fegraður, upploginn eða ýktur stórlega erum við þá ekki að sóa samúð okkar á einhvern sem ekki á hana skilið? Hver og einn verður líklega að gera það upp við sig sjálfur hvort svo er. Við höfum öll tilhneigingu til að fegra okkar hlut í öllum málum og þegja yfir því sem kemur okkur illa og margir hafa bent á að þannig sé það einnig í svokölluðum sjálfsævisögum. Þar sé ýmsu ritstýrt, skautað hratt framhjá margvíslegum atvikum og þagað yfir öðrum. Þetta vitum við vissulega en samt sækjumst við eftir að heyra og lesa sögur annarra og taka úr þeim það sem nýtist okkur best.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.