Finnst samfélagið hafa svikið sig

„Reynsla er eitthvert besta eldsneytið fyrir hugarflug“, segir Sveinn Einarsson leikstjóri sem nú er rúmlega áttræður.  Það er stefna hans að nota reynslu og þekkingu fólks þegar hann setur upp verk. Honum finnst hins vegar vera lítill áhugi á því í samfélaginu að gera það. „Við lifum svo miklar samfélagsbreytingar“, segir hann. „Bæði mæður og ömmur eru úti að vinna og stórfjölskyldan sem áður veitti eldri kynslóðinni hlutverk, virðingu og daglegt samneyti við aðra, er horfin með þeirri innviðaskipan sem nú er“.

Sveinn Einarsson

Sveinn Einarsson

Vorum forvitin um eldri kynslóðina

„Við vorum látin lesa bókina Um ellina eftir Cicero í menntaskóla“, heldur hann áfram. „Við lásum hana sem fagurfræðirit fullt af visku, frekar en að okkur fyndist efnið koma okkur við.  Ég verð þó að segja, ef ég ber saman mína kynlóð og kynslóðina sem nú er að vaxa úr grasi, að við vorum forvitnari um það sem eldri kynslóðin hafði gert en unga fólkið er í dag. Við litum á hana sem viskubrunn og vildum reyna að skilja hvernig það sem áður gerðist, var hluti af því sem var að gerast á okkar tímum“.

Allir eiga að vera ungir og fallegir

Þetta finnst Sveini hafa breyst mikið og finnst mikil æskudýrkun í fjölmiðlum. „Það er verið að búa til lífsstíl. Allir eiga að vera ungir og fallegir og svo eru stöku greinar um einhverja sem eru lagðir í einelti, eða eru of feitir og svoleiðis. Það eiga allir að lifa eftir eins konar lífstílsreglustiku, sem gerir alla eins. Unga fólkið hefur miklu meira fé handa á milli en við höfðum. Það hefur meiri möguleika á að skemmta sér og meiri kaupgetu. Á þetta er spilað í fjölmiðlum“.

Má gamalt fólk hafa skoðanir?

Sveinn segir að í fjölmiðlum sé ekki rætt við þá sem hafi lagt mest af mörkum til leiklistarinnar, heldur við nýútskrifað fólk um það sem það ætlar að gera. Öfugt við það sem áður var. „Þetta er hluti af því sem gerir unga fólkið sjálfhverft, þannig að það hefur ekki áhuga á eldri kynslóðum. Ég gagnrýni stundum það sem menn eru að hefja upp til skýjanna, enda hef ég séð mikið af listum og menningu í heiminum á löngum tíma. Ef einhver svarar „Æ þú ert orðinn gamall“, þá langar mig mest að berja hann í klessu. En ég er auðvitað vel upp alinn og geri það ekki! En af hverju mega þeir sem eru orðnir gamlir ekki hafa skoðanir?“ spyr Sveinn.

Nota ekki reynslu og þekkingu

„Maður tekur eftir því að samfélagið á í vandræðum með okkur“, segir hann. „Við erum orðin svo mörg, það var ekki reiknað með því að læknar myndu halda lífinu í okkur svona lengi. En samfélagið hefur ekki vit á að nota þá reynslu og þekkingu sem við búum yfir. Þess vegna verður eldra fólk útundan, það verður „málaflokkur“ eins og við erum stundum kölluð. Ég sé suma jafnaldra mína, það sækir að þeim þunglyndi þegar þeir sjá að þeir eru ekki lengur með í samfélaginu, að samfélagið er búið að losa sig við þennan málaflokk“, segir Sveinn. „Eldri kynslóðin er gríðarlegur varasjóður og það þarf að finna aðferðir til að nýta betur krafta fólks sem lifir lengur og við betri heilsu en áður“.

Allt hækkar nema tekjurnar

„Nú eru menn að fá kjarabætur og þá er ekki hlustað á eldra fólk. Það eru ýmsir að skrifa um þessi mál, en ég held að ráðamenn lesi það ekki einu sinni“, segir Sveinn. „Mér er fullkunnugt um að mörgum af minni kynslóð, og þá tala ég um þann hóp sem ég þekki og tilheyri, finnst samfélagið hafa svikið sig. Það á erfitt fjárhagslega en reynir að leyna því. Það hjálpar að vísu að þetta fólk kann að fara með peninga“, segir Sveinn og er mikið niðri fyrir. „En það hækkar allt, fasteignagjöldin, orkan, hitinn og tryggingarnar. Við borgum en fáum ekki hærri tekjur.  Fjármálin eru þó ekki það eina sem þarf að hafa áhyggjur af á efri árum, andleg líðan skiptir ekki síður máli“.

 

 

 

 

 

Ritstjórn september 30, 2015 14:40