Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur -Skelja-Palli varð Skjálfta-Palli

-dellukarl sem hefði alveg eins getað orðið tónlistarmaður

Öll eigum við að minnsta kosti tvær hliðar og sumir fleiri en ein þeirra verður oftast mest áberandi. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur er

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur með bassann á bakinu í Flatey á leið að spila á balli með Jóel, syni sínum, og Davíð Þór Jónssyni.

svo heppinn að hafa margar hliðar og setur fram þá sem hentar hverju sinni. Hann er fæddur 1947 og við Íslendingar höfum sannarlega notið sérþekkingar hans gegnum tíðina, ekki síst undanfarið við útskýringar á eldsumbrotunum á Reykjanesskaga en skjálftafræði er hans sérsvið. Páll er ,,hættur að vinna“ enda orðinn 75 ára en þegar náttúran hagar sér á óvæntan hátt, svona eins og þegar við hin skiljum ekkert og verðum bara óttaslegin, er leitað til vísindamanns eins og Páls og hann krufinn svara. Þeir, sem þekkja Pál, segja hann hafa þann eiginleika að eiga auðvelt með að draga rökréttar ályktanir, en alltaf byggðar á vísindalegum rökum. Er ekki ótrúleg ráðstöfun samfélagsins að senda mann með slíka sérþekkingu heim af vinnumarkaði, bara af því hann er búinn að ná vissum aldri?

En hvaðan kom viðurnefnið Skeljapalli?

Páll hefur safnað skeljum allt frá því hann var barn. Sonur hans segir hann enn ganga með poka í vasanum hvar sem hann er og safnar í hann skeljum sem honum þykja óvenjulegar. Í pokann fari líka fræ sem Páli þykja áhugaverð. Faðir hans sé ólæknandi dellukarl með mörg áhugamál.

Skeljadellan leiddi til kontrabassakaupa

Páll Einarsson jarðeðlisfræðngur með skeljasafnið sem hann útbjó 12 ára gamall en það hefur hangið uppi á vegg í Melaskóla frá 1963 þar sem hann var nemandi.

Eitt hefur leitt af öðru í lífi Páls en þegar hann var 11 ára gamall tók hann þátt í spurningakeppni í Ríkisútvarpinu og sérsvið hans var skeljar og allt sem þeim við kom. Á þeim tíma var verið að reisa verksmiðju á Akranesi þar sem sement var búið til úr skeljum úr Faxaflóa. ,,Forstjórinn, sem þar var þá, var gamall skólafélagi pabba míns frá Þýskalandi þar sem þeir höfðu verið í verkfræði. Hann vissi af mér og vissi að það var auðvitað mikið ævintýri fyrir ungan dreng, áhugasaman um skeljar, að fá að skoða framleiðsluna. Ég hafði farið upp á Akranes nokkrar ferðir og þessi maður bauð mér að taka að mér að búa til sýningargrip með skeljunum fyrir gesti sem sóttu mikið í að sjá þessa nýju verksmiðju. Þannig kom það til að ég var ráðinn í þetta verk og var í nokkra daga í algerri sælu að velta skeljum fyrir mér og búa til spjald með sýnishornum af skeljum sem voru hráefni verksmiðjunnar. Spjaldið var svo hengt þar upp og í leiðinni bjuggum við til fleiri svona spjöld. Eitt þeirra fór til dæmis í Melaskóla en ég var einmitt að útskrifast úr þeim skóla þá og færði þeim spjald í kveðjugjöf.“

Fyrsta launaávísunin fór í kontrabassa

Þegar Páll hafði lokið við að vinna spjaldið fyrir Sementsverksmiðjuna fékk hann launaávísun sem var miklu hærri en hann hafði átt von á. „Ég fór með þennan pening upp í hljóðfæraverslun Pauls Bernburg og með mér kom Ágúst Guðmundsson vinur minn því stjúpfaðir hans var Einar Waage, fyrsti bassaleikari í Sinfóníuhljómsveitinni. Við fórum þrír saman og Einar prófaði fyrir mig bassana sem þar fengust og mælti með einum. Og það er bassinn sem ég spila á enn i dag,“ segir Páll ánægður á svip. „Svona fléttast lífið saman á margvíslegan hátt en síðan eru liðin 63 ár.“

Tók þátt í tónlistaratriðinu í fyrstu sjónvarpsútsendingunni 1966

Páll segir að þegar upp er staðið séu sviðin tvö, tónlist og vísindi, náskyld því bæði reyni á frumkvæði og hugmyndaauðgi. „Það er

sameiginlegur sköpunarþráður í þeim báðum og þau eru hvetjandi hvort fyrir annað. Fyrir mig er tónlistin núna fyrst og fremst afslöppun og tilfinningaleg útrás,“ segir hann.

Gamlir félagar hittast í sjötugsafmæli eins þeirra. Ásgeir Sigurgestsson, Pétur Gunnarsson, Ágúst Guðmundsson og Páll. Þessir síungu menn sungu saman í drengjakór í Melaskóla.

Þegar Páll þurft að velja þegar kom að því að gera upp við sig við hvað hann vildi vinna til að sjá sér og sínum farborða valdi hann vísindin. En hann lagði tónlistina samt aldrei á hilluna heldur hefur hann þjónað tónlistargyðjunni með fram skjálftafræðunum alla tíð. Það vita til dæmis ekki allir að þessi maður tók þátt í fyrstu sjónvarpsútsendingunni á Íslandi 1966 þar sem hann spilaði á kontrabassa, þá 19 ára. Páll segir brosandi frá því að það hafi í raun verið hans gæfa að bassaleikarar hafi löngum átt það til að forfallast af ýmsum orsökum því hann hafi iðulega verið kallaður til með skömmum fyrirvara þegar bassaleikarinn í hljómsveitinni gat ekki mætt.

Hefðbundin klassísk menntun

Páll var í Tónlistarskólanum í Reykjavík í 10 ár og er með hefðbundna klassíska menntun á selló og fljótlega komu hljómfræði og tónsmíðar inn í námið. Þar var Einar Vigfússon sellóleikari aðalkennari Páls

og síðar Jón Þórarinsson tónskáld. Páll segist ekki hafa lagt fyrir sig að semja tónlist sjálfur en af því hann lærði útsetningar, hljómsetningar og raddsetningar þá leiddist hann mikið út í að útsetja tónlist fyrir aðra. Og þar sem hann gat lesið nótur varð hann fljótt bassaleikarinn sem þurfti ekki margar æfingar til að geta spilað með. Þannig kom það til dæmis til þegar trompetleikarinn frægi Art Farmer sótti landið heim. Páll segist hafa verið þriðji í röðinni þegar sá sem var beðinn um að spila með þessum fræga trompetleikara forfallaðist. „Þá naut ég þess að kunna að lesa nótur og að hafa verið varaskeifa víða. Það var tekin ein æfing og svo var talið í tónleika sem voru haldnir í Tjarnarbúð og heppnuðust mjög vel,“ segir Páll og minningin er greinilega góð.

Mynd sem Rúnar Gunnarsson tók á tónleikum Art Farmers 1965 í Tjarnarbúð og Páll með bassann.

Bassinn og jassinn

Á unglingsárum kynntist Páll jassinum í gegnum vin sinn Ágúst Guðmundsson kvikmyndagerðarmann. ,,Á heimili Ágústs var spilaður mikill jass og ég heillaðist af þeirri tónlistarstefnu,“ segir Páll. ,,Ég var mjög ungur fenginn til að spila með öðrum og spilaði til dæmis í eitt sumar á Keflavíkurflugvelli með hljómsveit Einars Loga. Í gegnum Einar datt ég svo inn í „jammsessíónir“ þar sem ég kynntist mönnum sem líka voru að stíga sín fyrstu skref eins og Þóri Baldurssyni og fleirum. Svo forfallaðist bassaleikarinn í hljómsveit Þjóðleikhússins og þá var ég drifinn þar upp á svið en þar var tónlistarstjóri Carl Billich. Svo vildi líka til að það voru forföll í bassaleik á Naustinu þar sem Carl Billich sá um tónlistina sumarið 1964. Þar voru með honum þessir fínu tónlistarmenn sem ég lærði mikið af. Þeir voru vel samæfðir og voru með allt á nótum. Bassanóturnar voru bara settar á púltið hjá mér og ég átti að spila þær og gerði það bara. Þetta var rosaleg lexía og síðan hef ég verið ágætur í að lesa nótur á bassa. Svona voru uppvaxtarárin og ég naut þess að spila með mörgum bestu tónlistarmönnum þess tíma.

Páll var svo fenginn til að spila í Jasskvartett Reykjavíkur sem kom reglulega fram í Tjarnarbúð þar sem með honum spiluðu Þórarinn Ólafsson, Alfreð Alfreðsson og Örn Ármannsson. Páll var ekkert að tala sérstaklega um jassspilamennskuna við foreldra sína sem voru meira fyrir klassíska tónlist en jass sem þótti tilheyra ,,óæðri“ tónlist. Svo vildi til að faðir Páls var að vinna með dönskum verkfræðingi sem hér var staddur og sá var mikill jassáhugamaður. Hann spurði föður Páls hvort hann vissi ekki um einhven stað þar sem væri hægt að hlusta á íslenska jassspilara. Faðir hans hringdi þá í vin sem sagði honum að prófa Tjarnarbúð. Þar væri stundum spilaður jass. Hann fór þá með þann danska í Tjarnarbúð og vart mátti á milli sjá hvor varð meira hissa Páll eða faðir hans þegar þeir horfðust í augu þar sem Pall sat uppi á sviði með Jasskvartettinum. Sá danski varð yfir sig hrifinn en skildi ekkert í því af hverju faðir Páls varð svona undrandi að sjá son sinn í hljómsveitinni.

Mynd frá æfingu Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna þar sem Páll var í hópi stofnenda.

Spilaði með Savanna-Tríóinu og Heimi og Jónasi

Páll hafði verið að spila með með ,,Heimi og Jónasi“ sem undirleikari í nokkurn tíma en þeir þrír voru skólafélagar úr MR. Þegar Sjónvarpið hóf útsendingar var Savanna-Tríóið fengið til að gera skemmtiþátt  enda voru þeir skemmtikraftar Íslands númer eitt um þær mundir. Þeirra fasti bassaleikari forfallaðist þegar leið að fyrsta útsendingarkvöldinu og var þá gripið til varaskeifunnar,“ segir Páll og brosir. Þar með hann lentur í þessari fyrstu sjónvarpsútsendingu á Íslandi.  Heimir og Jónas voru skömmu síðar fengnir til að spila í tveimur þáttum í sjónvarpi, einn um Sigfús Halldórsson og hinn um Davíð Stefánsson. Og af því Páll kunni að raddsetja sá hann um þá hlið, m.a. í fræga lagi Heimis, Hótel Jörð, og mörgum fleirum. ,,Öll þessi reynsla kveikti með mér mikið tónlistarbál sem hefur ekki slokknað síðan,“ segir Páll.

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna

Mynd af æfingu fyrir Berlínarferð Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna 2008 og Páll fremst fyrir miðju með sellóið.

Páll er einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna sem stofnuð var fyrir 32 árum og hefur verið formaður þar frá upphafi. Hann spilaði með háskólahljómsveitinni í Göttingen þar sem hann var að læra og það sama var þegar hann fór síðar til Bankaríkjanna í háskóla. Svo Páll hefur spilað á hljóðfæri sín, bassa eða selló, alls staðar sem hann hefur verið. Hann var samtals í átta ár erlendis við nám en kom heim á sumrin og var þá fenginn í ýmis verkefni, meðal annars að útsetja lög og æfa fyrir leiksýninguna „Þið munið hann Jörund“ þar sem Þrjú á palli gegndu mikilvægu hlutverki.

Þurfti að velja

Þegar Páll var tvítugur þurfti hann að ákveða hvað hann ætlaði að verða þegar hann yrði stór og segir að það hafi eiginlega verið of margt sem kom til greina. ,,Ég hafði verið að fikta við líffræði lengi en það fag heillaði mig snemma því ég er svona dellukarl,“ segir Páll og hlær. ,,Það var því spurning um hvort ég færi í líffræði eða eðlisfræði og valdi eðlisfræðina. Þar fyrir ofan var tónlistin og þá hvort ég ætlaði að verða sellóleikari eða bassaleikari eða jafnvel útsetjari. Ég hafði sem sagt fiktað í þessu öllu og hélt því bara áfram. Svo var ég kominn með fjölskyldu ungur svo það réði auðvitað heilmiklu. Ég valdi því öryggið fram yfir annað. Óvissan sem fylgdi tónlistarlífinu eins og það var þá var ekki vænlegt veganesti fyrir fjölskyldumann.“

Páll á þrjá syni og tveir þeirra hafa lagt stund á tónlist. Annar þeirra heitir Jóel Pálsson en hann er einn af öflugustu saxófónleikurum landsins og hinn heitir Magnús og hefur verið mikið í tónlist og er enn að mótast. Elstur er Einar og er arkitekt en starfar með Jóel í fyrirtæki hans Farmers Market.

Flekakenningin og sérstaða Íslands

Páll með Karli Grönvold við tjald í Gjástykki 1977.

Þegar Páll var um tvítugt var nýbúið að stofna Jarðfræðafélag Íslands og Surtseyjargosi var nýlokið. Áhugi hans hneigðist því fljótt í þá átt og Páll endaði með að fara í eðlisfræðinám til Þýskalands strax eftir stúdentspróf. ,,Þá hafði ég verið í sumarvinnu 1967 við að lóðsa prófessor frá Bandaríkjunum upp um fjöll þar sem hann var að rannsaka flekakenninguna sem var nýkomin á flug. Þessi maður, Robert Decker, var prófessor í New Hampshire og kom hingað til að gera fyrstu mælingar á landreki og var með nýjustu tækni með sér. „Ég var svo heppinn að komast í sumarvinnu með þessum manni og hann hafði gríðarlega mikil áhrif á mig. Það var verið að gera beinar mælingar með nýjustu tækni og þarna var hægt að sanna kenningarnar sem sögðu að flekarnir væru að færast í sundur. Það hafði ekki verið hægt að mæla það fyrr því flekaskil af þessu tagi eru víðast hvar á sjávarbotni en á Íslandi var hægt að mæla þetta á landi. Þessar mælingar voru svo endurteknar aftur og aftur með þessari nýju tækni. Flekakenningin bylti jarðvísindunum þannig að ekki stóð steinn yfir steini. Nú vitum við með mjög nákvæmum mælingum að flekarekið hér á landi er nákvæmlega 19 mm á ári. Surtsey var kveikjan að því að menn áttuðu sig á því hvað Ísland var í raun einstakt. Svona flekaskil eru víðar á jörðunni en yfirleitt í miðju úthafi. Það gerir Ísland auðvitað mjög sérstakt og allar mælingar vekja alltaf mikla athygli.“ Páll segir að kynni hans af prófessorum sem komu frá Bandaríkjunum hafði orðið til þess að hann flutti sig um set frá Þýskalandi til New York þar sem hann lagði stund á skjálftafræði í 5 ár.

Forréttindi að hafa vinnu við áhugamálið

Páll segir að það hafi verið mikil forréttindi að hafa haft vinnu við það sem hann hefur haft brennandi áhuga á. Hann hefur kennt við HÍ frá 1975 eða allt þar til nú. Páll segir að það sé búið að vera erfitt að fá fólk til kennslu í fagi hans svo þeir hafi ekki sleppt honum alveg strax. ,,Í svona vinnu, þar sem við höfum verið að safna gögnum og upplýsingum og skilja hlutina sífellt betur, er eiginlega kjánaskapur að segja fólki bara að hætta að vinna. Það þarf að koma þessari reynslu áleiðis og það hef ég verið að gera, bæði með kennslu og greinaskrifum. ,,Það var tekin sú stefna fyrir allmörgum árum hér í Háskólanum að ef menn vilja vinna áfram er þeim veitt aðstaða. Ég hef því vinnustöð enn þá í Öskju og tek þátt í samvinnuverkefnum, t.d. með fyrrverandi nemendum mínum sem eru á kafi í áhugaverðum verkefnum. Þar get ég lagt eitthvað af mörkum og þeir græða vonandi eitthvað af.“

Hlutverk skjálftafræðinga er eins og hlutverk fæðingarlæknis

Páll segir að áhugamál hans sem skjálftafræðings sé ekki að horfa í eldinn heldur að fylgjast með því sem jarðskorpan er að gera. „Ég er búinn að rannsaka jarðskjálfta á Reykjanesskaga meira en flestir svo það sem hefur verið að að gerast þar undanfarið heyrir meira undir mín fræði en eldfjallafræðingarnir fjalla um það sem kemur upp úr gosinu. Mitt hlutverk hefur verið svona eins og hlutverk fæðingarlæknis. Það er ekki um að ala barnið upp heldur fylgjast með á meðgöngunni.“

Eldgos og jarðskjálftar

„Rétt um það leyti sem ég kom frá námi 1975 byrjuðu umbrot í Kröflu sem stóðu í 9 ár og tóku athygli og starfskrafta jarðvísindamanna. Síðan þá hafa orðið um tuttugu gos á landinu sem ég hef haft tækifæri

til að rannsaka, auk annarra atburða í jarðskorpunni sem ekki eru síður merkilegir, gangainnskot og jarðskjálftar. Nú er hafin atburðarás á flekaskilunum á Reykjanesskaga sem enn sér ekki fyrir endann á. Sagan hófst með skjálftahrinu undir Fagradalsfjalli í desember 2019. Í janúar 2020 hófst síðan kvikuinnskot nálægt Þorbirni við Grindavík. Innskotin þar urðu þrjú og síðar á árinu kom svipað innskot vestan Krýsuvíkur. Þessu fylgdi talsverð skjálftavirkni. Í febrúar 2021 hófst svo gangainnskot við Fagradalsfjall sem náði til yfirborðs 19. mars með litlu gosi. Gosið stóð í sex mánuði, hætti 18. september. Aftur kom gangainnskot um jólin en það náði ekki upp úr jarðskorpunni. Jarðskorpan hefur verið fremur róleg það sem af er ári, en það er þó ljóst að þessari sögu er ekki lokið,“ segir Páll.

Gangainnskot meiri ógn en eldgos

Og hvað ætli sé fram undan í umbrotunum á Reykjanesi? Páll segir að gangainnskot á Reykjanesskaga geti mögulega ógnað mikilvægum innviðum höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, hvort sem þau leiði til eldgoss eða ekki. Hann bætir við að slík gangainnskot gætu haft mikil áhrif á kerfi sem fæða vatnsveitur, hitaveitur og jarðvarmavirkjanir. Versta sviðsmynd sé að einhver þeirra gætu mögulega spillst til frambúðar ef innskotið yrði á slæmum stað.

Brautryðjendurnir sendir heim

„Þeir sem eru núna að fara á eftirlaun er allt fólkið sem tók þátt í að gera Háskóla Íslands að raunverulegum rannsóknarháskóla,“ segir Páll. „Fram að því hafði skólinn verið embættismannaskóli sem var samruni laga-, lækna- og prestaskólans. Það var svo 1968 sem Raunvísindadeild varð til og hægt var að leggja stund á nám í raunvísindum hér á landi. Þá verður gríðarlegur vöxtur hér og það er einmitt sá hópur sem búið er að vera að senda heim síðustu 10 árin. Þetta eru brautryðjendurnir og hafa allan tímann verið með það veganesti og höfðu aldrei miklar áhyggjur af því hvort launin væru svo voðalega há. Nú, þegar verið er að endurnýja starfsliðið, er aftur á móti að koma inn ungt fólk sem heldur að það sé að koma hingað inn í vel launaða prófessorsstöðu en verður fyrir vonbrigðum. Þetta unga fólk hefur val um störf þar sem launin eru talsvert hærri svo Háskólinn stendur frammi fyrir gríðarlega stóru vandamáli. Brautryðjendaandinn ríkir eðlilega ekki lengur og við verðum að gera ráðstafanir til að hingað ráðist alltaf besta fólkið. Hér eru ákveðin kynslóðaskipti að verða en gömlu prófessorarnir eru samt enn hér. Það skemmtilegasta sem þeir gera er að fást við rannsóknir og eru fullir af hugmyndum og vilja. Þetta er fólkið sem er búið að losa undan öllum stjórnunarskyldum en er enn á kafi í vísindunum,“ segir Skjálfta-Palli eða var það Skelja-Palli eða kannski tónlistarmaðurinn Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur?

Með bassann sem Páll keypti fyrir fystu launin 12 ára gamall. Sami bassi og hann spilaði á 1968 með Heimi og Jónasi og gerir enn.

 

Af plötuumslagi með Heimi og Jónasi 1968 þar sem Páll útsetti öll lögin.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 18, 2022 07:00