Friðrik Karlsson tónlistarmaður

Ástríða er lykillinn að árangri

Friðrik Karlsson tónlistarmaður er einn af þeim sem hefur unnið talsvert á bak við tjöldin á meðan aðrir hafa verið meira áberandi. Hann hefur samt komið ótrúlega víða við en flestir kenna þennan gítarleikara við hljómsveitina Mezzoforte. Friðrik bjó í 16 ár í London þar sem hann var að vinna með þeim sem voru sannarlega í efsta laginu í breskum tónlistarheimi.

Óhætt er að segja að flug Friðriks hafi hafist fyrir alvöru þegar hljómsveitin Mezzoforte fór til London að taka upp plötuna Garden party 1983 en þá var hann 23 ára gamall. Þar kynntist hann upptökustjóra sem fékk hann í fleiri verkefni og það endaði með því að Friðrik flutti með fjölskylduna til London þar sem þau bjuggu í 16 ár.

Á þeim tíma spilaði Friðrik í leikhúsum, inn á plötur fjölda tónlistarmanna eins og Kate Bush þegar hún kom aftur fram eftir langt hlé. Svo spilaði hann í mörg ár í þáttum hjá Simon Cowell eins og Ex factor og Britain“s got talent og líka í söngleikjum Andrew Lloyd Webber svo nokkuð sé nefnt. Friðrik segir að tækifærin sem hann fékk á þessum tíma hafi verið ómetanleg því allir draumar hans á tónlistarsviðinu hafi í raun ræst. ,,Ég fékk tækifæri til að spila með stjörnum sem ég hélt að væru langt fyrir ofan mig en var allt í einu orðinn jafningi þeirra á tónlistarsviðinu. Þessu fylgdi auðvitað mikil pressa sem fékk mig til að leita leiða til slökunar,“ segir Friðrik. Ásamt tónlistarstörfum í London fór Friðrik því snemma að semja slökunartónlist í leit sinni að jafnvægi. ,,Ég fór í jógatíma 1998 og þótti tónlistin í tímanum svo leiðinleg að ég ákvað að gera bara mína eigin slökunartónlist,“ segir Friðrik og brosir. Þetta vatt upp á og nú er hann búinn að gefa út 40 slíka diska sem eru spilaðir í 100 löndum í alls konar bakgrunnskerfum. Þetta er bæði hugleiðslutónlist og líka hraðari tónlist sem spiluð er í líkamsræktarstöðvum, kaffihúsum, Bláa lóninu og Sky lagoon svo nokkuð sé nefnt. Og nú síðast heyrist tónlist Friðriks í Lyfju apótekunum um allt land. ,,Á tímum covid jókst hlustun á slökunartónlist mikið svo ég hef haft mikið að gera,“ segir Friðrik hæstánægður. Hægt er að heyra slökunartónlist hans á streymisveitunum Spotify og Apple music.

Friðrik lærði innhverfa íhugun 1987 þegar þau fræði voru að byrja að ryðja sér til rúms á Íslandi. Hann hefur lagt stund á margs konar andlega vinnu eins og NLP sem er þýðing á neuro linguistic programming eða undirmeðvitundarfræði. ,,Það eru fræði sem hjálpa manni að ráða bót á gömlum hegðunarmynstrum. Ég fór í tíma hjá ráðgjafa úti í Bretlandi og þótti þetta mjög praktísk fræði þar sem manni er kennt að uppræta alls konar vond mynstur. Hegðunarmynstrin eru í undirmeðvitundinni og í ljós kemur að sumt af því sem við höfum lært sem börn er að elta okkur langt fram á fullorðinsár. Þetta er hægt að uppræta með mikilli vinnu sem borgar sig auðvitað. Óttatilfinningu má oft rekja til áfalla í æsku og þá er jafnvel hægt að fara inn í þá tilfinningu og breyta henni. Mér þykja þessi fræði geysilega spennandi og þau virka fyrir mig. Það var til dæmis ekki eðlilegt að finna fyrir gífurlega miklu stressi þótt ég væri mjög vel undirbúinn. Það passaði ekki og þá þurfti ég að fara inn á við og finna ástæðurnar fyrir stressinu og mér tókst það með mikilli vinnu.“

Friðrik breytti alveg um lífsstíl við það að missa heilsuna fyrir nokkrum árum. ,,Mitt vandamál var að ég hafði frá fimmtán ára aldri hagað lífi mínu þannig að slæm líkamsstaða við spilamennsku og vondur lífsstíll endaði með sliti í baki sem orsakaði mikla verki. Ég var hættur að geta beygt mig niður eða lyft nokkru af því ég var alltaf að forðast verki. Afleiðingin var að líkaminn rýrnaði og ég fitnaði fyrir utan að vera farinn að bryðja verkjapillur. Ég lenti með öðrum orðum í vítahringnum sem svo margir kannast við. Ég leitaði þá leiða út úr vandanum og auðvitað var hjálpin þarna. Ég fór meðal annars á Háls- og bakdeildina í Stykkishólmi þar sem ég fékk mjög mikla hjálp. Á þeim tíma var ég meira að segja kominn á þunglyndislyf af því ég vissi ekki hvað var að gerast. Á því var líka tekið og í framhaldi fann ég góðan einkaþjálfara sem ég hitti reglulega. Hann hjálpaði mér að byggja vöðvana upp aftur og breyta um lífsstíl. Eftir á að hyggja  reynist þetta bakvandamál mitt hafa verið blessun en ekki bölvun því ég er í mun betra formi núna en fyrir tíu árum,“ segir Friðrik ánægður. ,,Ég er ákveðinn í að halda mér í þessu formi áfram en það þýðir að ég geri æfingar á hverjum einasta degi og líður miklu betur.“ Friðrik hefur meira að segja hækkað um rúman sentimetra af því að nú réttir hann úr bakinu og veit að leiðin til bata er ekki að leggja sig, minnka hreyfingar og taka pillu. Leiðin fyrir hann var að hreyfa sig út úr vandanum.

Friðrik fór alla leið í lífsstílsbreytingunni og tók áfengi og tóbak út úr lífi sínu. Sambýliskona hans, Laufey Birkisdóttir snyrtifræðingur, gerði slíkt hið sama. ,,Áður verðlaunaði ég mig alltaf með því að detta í það eftir góða vinnutörn en núna dugar góður kaffibolli,“ segir Friðrik og brosir. ,,Síðan eru liðin fimm ár og ég sé núna hvað áfengið bjó til mörg vandamál í líf mínu þótt ég hafi ekki fengið neina skilgreiningu með áfengisneysluna. Ég ákvað bara að prófa nýjan lífsstíl og sé ekki efir því.“

Allt sem Friðrik er að gera núna er afrakstur þess sem hann hefur gert um ævina. Hann segist hafa notið þess ríkulega að vinna með tónlistarfólkinu í London en nú er hann búinn að vera að spila fyrir aðra frá því hann var 15 ára og finnur að ástríða hans liggur annars staðar. Hann átti sér alltaf draum um að geta starfað alþjóðlega og sá draumur rættist en nú vill hann haga lífi sínu eftir eigin höfði.

,,Ég held að ástríða sé forsenda þess að okkur gangi vel í lífinu,“ segir Friðrik. ,,Þegar ég lenti í þessu bakvandamáli var ástríða mín heilsan og þá náði ég að ráða við það vamdamál. Það er svo mikilvægt að fá verðlaun fyrir vinnuna hver sem hún er og betri líðan voru stærstu verðlaunin þá. Það er alveg sama hversu mikla peninga fólk fær í hendurnar ef ástríðuna vantar og nú ligggur ástríða mín í vinnunni við að semja, selja og markaðssetja slökunartólist. Mér líður mjög vel með það á þessum tímapunkti.“

Þegar Friðrik er spurður hvort hann sjái fyrir sér starfslok rifjar hann upp sögu frá því fyrir nokkrum árum:

,,Til mín kom einu sinni tryggingasölumaður í London sem vildi selja mér starfslokatryggingu. Hann var búinn að stilla pappírunum upp og var að fylla þá út þegar hann spyr mig: ,,Hvenær ætlarðu svo að hætta að vinna.“ Ég sagðist nú ekkert vita um það, líklega verði það bara þegar ég geti ekki lengur spilað á hljóðfærið og finni ekki lengur ástríðuna.  ,,Já, og hvenær verður það?“ heldur hann áfram að spyrja. Við komumst aldrei lengra með þá tryggingu,“ segir Friðrik og hlær og er enn á fullri fart að gera það sem honum þykir skemmtilegast.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 11, 2022 07:00