Skröltandi gervitennur

Sigrún Stefánsdóttir

Ég horfði á sælgætismolann og sagði við sjálfa mig – ekki setja þetta upp í þig – en gerði það samt. Sekúndubroti síðar sat fylling úr jaxli pikkföst í molanum. Sjálfstraustið hrundi. Ég horfðist í augu við að ég yrði að panta tíma hjá tannlækni, nokkuð sem ég hef ekki gert síðan tannlæknirinn minn til áratuga fann upp á þeim skolla að fara á eftirlaun.

Ég þurfti að taka á mínum stóra til þess að panta tíma hjá nýjum tannlækni. Ungi maðurinn tók hlýlega á móti mér og fullvissaði mig um að það væri létt verk og löðurmannlegt að setja nýja fyllingu í stað þeirrar gömlu. Ég játaði fyrir honum að hafa ekki farið í tanneftirlit síðan gamli minn hætti og væri örugglega með allt niður um mig í þessum málum. Hann bauð mér nýjan tíma í hreinsun og eftirlit. Ég játaði fyrir honum tannlæknafóbíuna mína sem á rætur sínar að rekja til skólatannlækna í barnaskóla. Þeir drógu allt úr sem þeir komust yfir. Hann sagði að ég væri ekki sú eina sem ætti þessar minningar úr æsku. Í næsta tíma tók hann myndir, hældi ástandinu og staðfesti það sem gamli minn hafði sagt – þú ferð héðan með þínar eigin tennur. Svo kenndi hann mér að bursta ræturnar betur og gaf mér tíma að ári. Þegar ég kom út brosti ég út að eyrum og sjálfstraustsstuðullinn fauk upp í hæstu hæðir.

Ég sá auglýsingu um daginn um eitthvert fæðubótaefni ætlað öldruðum. Falleg, eldri kona var á auglýsingunni. Teiknaðar voru pílur sem beindust að andlitinu á henni til þess að undirstrika öll einkennin sem hún/við þyrftum að fylgjast með ef við borðuðum ekki umrætt fæðubótarefni. Án þess gætum við þjáðst af vannæringu. Ein pílan beindist að munninum. Einkenni vannæringar var að gervitennurnar færu að skrölta! Ég varð pirruð yfir þessari auglýsingu. Mér fannst hún ekki í takt við tímann. Ég þekki mér eldra fólk með gervitennur og man til dæmis ekki eftir mömmu minni öðru vísi en með gervitennur. Hún leið fyrir þær alla tíð. En með meiri vitund um tannheilsu og með nýrri tækni erum við fleiri og fleiri  í þeim hópi sem heldur eigin tönnum og keyptum rótarskotnum tönnum.

Sagan segir að það hafi gerst að unglingar hafi fengið nýja tennur í fermingargjöf. Ég veit ekki hvort þetta er rétt. Ég hef líka heyrt um konu ættaða af Vestfjörðum sem dó með allar sínar tennur. Eftir fermingu hafði hún farið yfir fjöll fótgangandi til Ísafjarðar til þess að láta gera við tönn. Hún notaði fermingarpeningana sína í þessa aðgerð. Ég man líka eftir 100 ára gömlum mann sem ég tók viðtal við sem fréttamaður RÚV. Hann sagði mér stoltur frá því að hann hefði fengið sér gervitennur nýverið af því að vinur hans í næsta herbergi hefði ákveðið að leggja í slíka aðgerð. Hann játaði að honum þættu þær óþægilegar. Hann sagðist því ekki nota þær á daginn en hann svæfi með þær til þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Mér þótti það góð lausn, enda er settið ekki gefins.

Þýskmenntaður tannlæknir í fjölskyldunni sagði einu sinni að Þjóðverjar settu stultu utan um síðustu tönnina í munninum frekar en að láta draga hana úr. Ég held að við gætum lært svolítið af þeim. Tennurnar okkar eru partur af því að geta nærst, liðið vel og brosað framan í barnabörnin og heiminn. Ég get staðfest það hér og nú að það er ekki mikið mál að fara til nýs tannlæknis þegar sá gamli ákveður að fara að spila golf í stað þess að bora. En því lengur sem við drögum heimsóknina því hærri verður þröskuldurinn sem við þurfum að stíga yfir.

Sigrún Stefánsdóttir júní 7, 2021 07:30