Skynjar þú töfrana?

Kristín Linda – sálfræðingur hjá Huglind fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

 

Heilinn okkar er sérstaklega eftirtektarsamur, minnugur og vakandi fyrir því sem við þurfum að varast, því slæma sem hefur meitt okkur eða gæti gert það, verið hættulegt og valdið skaða. Þessi eiginleiki er hluti af mikilvægri sjálfsbjargarviðleitni mannkynsins.

Tilgangurinn er að við setjum ekki hendina á sjóðheita pönnu, stökkvum ekki fram af of háum kletti, borðum ekki skemmdan mat  og almennt forðumst ógnandi aðstæður, dýr og menn. Þetta er því afar dýrmæt og lífsnauðsynleg tækni sem er okkur ásköpuð. Ef þessi eiginleiki fær hins vegar að yfirtaka huga okkar sjáum við skrattann í hverju horni, verðum kvíðin, spennt og stressuð, sífellt með áhyggjur og neikvæða rörsýn, vör um okkur og pirruð með lág þolmörk. Þægindahringurinn verður of lítill og líf okkar skert vegna forðunar, minnkaðs áreitisþols og ofur varkárni, það er ekki spennandi.

Bjargráðið er að stýra athygli eigin skynfæra þannig að við virkilega í alvöru tökum eftir, upplifum og náum að nema og verða fyrir áhrifum af því sem er jákvætt, gott, fallegt, öruggt og yndislegt.

Athugum að það er ekki sjálfsagt að við séum að gera það nú þegar. Margt í samfélaginu er með þeim hætti að athygli okkar er beint aftur og aftur að því hættulega, ógnvænlega og slæma sem meiðir og skaðar. Nægir þar að nefna fréttir af glæpum, stríðsátökum, náttúruhamförum, sjúkdómum og dauða. Þess vegna er snjallt að virkilega ákveða að venja sig á, læra markvisst og þjálfa sig í að taka inn jafnt og þétt það góða, rétt eins og að koma því á í eigin lífi að drekka reglulega vatn. Hvernig væri að byrja á því að stýra eigin huga á þennan uppbyggjandi hátt einmitt núna í júní?

Við höfum þessi fimm skilningarvit, sjón, heyrn, lykt, bragð og snertiskyn, nýtum þau til að taka inn það góða sem lyftir og bætir.

Horfðu í kringum þig og leitaðu uppi það sem er fallegt, rauða tómata, náttúrulífsþætti í fjölmiðlum, holtasóleyjar sem varpa birtu á gráan mel. Hlustaðu á það sem gleður og byggir upp, bjartar og hrífandi bókmenntir, þína eigin völdu tónlist sem glitrar í sálinni og færir þér sælu og ýmist fjör eða kyrrð eftir því hvað þú velur hverju sinni. Skynjaðu mýkt, yl og skerpu með eigin snertiskyni, dýfðu hendinni í fossandi læk, snertu birkið og mosann, varlega. Komdu ilmi inn í líf þitt og bragðaðu markvisst á því sem gleður bragðlaukana, eitt jarðaber hér, dökkur súkkulaði biti þar, ferskt sítrónute, krassandi karrýkrás.

Njóttu þess að sem gleður og hrífur í sumar

Kristín Linda Jónsdóttir júní 19, 2024 08:48