Tengdar greinar

Soffía Auður Birgisdóttir fræðimaður

Þegar Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur flutti til Hafnar í Hornafirði fyrir 14 árum var ekki sami uppgangur þar og  hefur verið síðustu árin. „Þegar við fluttum var fullt af eignum á sölu. Með árunum hefur Höfn blómstrað og nú er mikill húsnæðisskortur í bænum þó búið sé að byggja mikið. Það er lítið til sölu og  erfitt að fá leiguíbúðir“, segir hún í samtali við Lifðu núna. Soffía Auður var að kenna íslenskar bókmenntir við Háskóla Íslands, þegar henni og Þorvarði Árnasyni, eiginmanni hennar, bauðst starf við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði.

„Við ákváðum að prófa í 2 ár alla vega. Ég sagði ekki upp starfinu í Háskólanum heldur minnkaði starfshlutfall, dreifði kennslunni og fór á milli. Það varð fljótt ljóst að það gekk ekki upp til lengdar og þegar við ákváðum að vera áfram hér, sagði ég upp starfinu í Háskólanum“, segir Soffía Auður, sem starfar nú sem fræðimaður við Rannsóknarsetrið og segir það draumastarf fyrir grúskara eins og sig.

Hún segist ekki hafa í hyggju að flytja frá Höfn. „Tvö af börnunum okkar fluttu með okkur til Hafnar. Þau eru 25 og 22ja ára gömul, hafa fest hér rætur og vilja vera hér. Ég á líka tvo syni, annar býr í Stokkhólmi en hinn í Reykjavík. Mér finnst ekkert mál að fara til Reykjavíkur. Það er miklu styttra frá Höfn til Reykjavíkur en frá Reykjavík til Hafnar!“ bætir hún við.

Rannsóknarsetrið er eitt níu Rannsóknarsetra Háskólans á landinu, en starfsemin er aðlöguð  aðstæðum á staðnum þar sem þau eru. Þannig hefur Rannsóknarsetrið á Höfn stundað umhverfisrannsóknir, jöklarannsóknir og ferðamálarannsóknir auk rannsókna á bókmenntum og  listum. Soffía Auður sem hafði haft áhuga á rithöfundinum Þórbergi Þórðarsyni, tók til við að rannsaka verk hans af fullum krafti eftir að hún flutti austur og þótti gott að vera í nábýli við Þórbergssetrið í Suðursveit, sem hún átti afar gott samstarf við. Bók Soffíu Auðar um skrif  Þórbergs Þórðarsonar Ég skapa og þess vegna er ég kom út árið 2015 og er byggt á doktorsritgerð hennar.

Það verður ekki annað sagt, en starf Soffíu Auðar og Þorvarðar á Höfn í Hornafirði hafi vakið verðskuldaða athygli og sannað að það þarf ekki endilega að sitja á skrifstofu í Reykjavík, til að stunda skapandi rannsóknir. Fyrir þremur árum hélt Rannsóknarsetrið  til dæmis ráðstefnu undir heitinu Jöklar í bókmenntum, listinni of lífinu.  Soffía og Þorvarður hafa sinnt margvíslegum akademískum störfum, flutt fyrirlestra, verið gestakennarar við aðrar stofnanir og leiðbeint nemendum á Höfn sem eru í fjarnámi við háskóla. „Næsta verkefni mitt er að vera andmælandi við doktorsvörn í Háskóla Íslands í ágúst“, segir Soffía.

Við Rannsóknarsetrið á Höfn eru einungis tvær fastar stöður, en með því að afla sértekna hefur setrinu tekist að vinna að ákveðnum verkefnum og þegar mest var, voru fimm manns starfandi þar.

Auður Soffía varð sextug síðast liðið haust og  gaf út greinasafn í tilefni af því sem heitir Maddama kerling fröken frú. Þar er fjallað um kvenlýsingar í  íslenskum nútímabókmenntum. Í bókinni eru 31 grein, fræðigreinar og ítarlegir ritdómar sem Soffía Auður hefur skrifað. Greinarnar eru aðallega um kvenlýsingar í bókum, en einnig um höfundarverk kvenrithöfunda. Karlar hafa einnig lýst konum í bókum sínum og nokkrar greinanna fjalla um bækur karlhöfunda.

Grúskarinn Soffía Auður lætur ekki deigan síga og er núna með nýtt verkefni í pípunum, sem fjallar um sex dætur Sveinbjarnar Egilssonar. „Það eru ekki margir sem vita um þær en Sveinbjörn átti 6 dætur og 3 syni sem voru þekktari, til dæmis Benedikt Gröndal“, segir hún og bætir við að hún hafi verið að skoða sögu þessara systra og til dæmis birt grein um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur. Það hafi verið slúðrað um það á sínum tíma að hún hefði verið rangt kyngreind, hún hefði í raun verið karlmaður. Það er ekki mikið til af heimildum um systurnar, en þær áttu frægan föður og frægan bróður. Jón Árnason þjóðsagnasafnari var heimiliskennari hjá Sveinbirni í 12 ár og í fórum hans má finna fróðleik um þær systur.

„Það má líka taka fram að aðalástæðan fyrir því að ég er hérna, er að lífið er dásamlegt hér, fögur náttúra og mikil rólegheit“, segir Soffía Auður. „Ég held að það sé best geymda leyndarmál á Íslandi hvað það er gott að búa úti á landi. Það er synd að fólk sem er að basla í Reykjavík skuli ekki sjá það. Fasteignamat er allt annað hér. Dóttir mín sem er 25 ára og  sambýliskona hennar keyptu sér fimm herbergja einbýlishús hér á verði tveggja herbergja íbúðar í Reykjavík.  Hún er deildarstjóri á leikskóla og tók leikskólakennaranám í fjarnámi. Hún prófaði að fara til Reykjavíkur í nám, en hélt það ekki út nema þrjár vikur, henni leiddist svo í borginni“.

Milli 1700 og 1800 manns búa á Höfn í Hornafirði, en um 2500 manns ef nærsveitirnar eru taldar með. Þar er að sögn Soffíu Auðar gott mannlíf, góðir skólar, menning, listir, frábær sundlaug og öflugt íþróttalíf. „Sindri er kominn í fyrstu deild í körfubolta“, segir hún stolt, en yngsti sonur hennar spilar með liðinu. „Höfn er blómstrandi bær. Það er stutt í stórkostlega náttúru og endalaust hægt að uppgötva eitthvað nýtt og nýtt. Bærinn er um þessar mundir fullur af innlendum ferðamönnum og hér eru fjölmörg veitingahús. Ég segi að við státum af mörgum bestu veitingahúsum landsins“, segir Soffía Auður að lokum.

Ritstjórn júlí 22, 2020 07:14