Eitraðar pillur geta komið ýmsu af stað

Eitruð lítil pilla, byrjar með trukki. Kraftmikil tónlist Alanis Morissette hljómar og við mætum augliti til auglitis Mary Jane Healy, sitjandi í sófa í stofunni. Hún er að skrifa jólakveðju. Þetta hefur verið gott ár hjá Healy-fjölskyldunni, Frankie er skapandi og skemmtileg, Nick komst inn í Harvard og Steve gengur vel í vinnunni. En hér vantar eitthvað í heildarmyndina. Það er augljóst strax.

En sýningin fer frekar hægt af stað. Áhorfandinn veit ekki í byrjun alveg hvar hann er lentur. Er þetta klisjukennt leikverk um dæmigerða ameríska fjölskyldu? Fjölskyldufaðirinn vinnur sína 60 tíma á viku, móðirin er fullkomin húsmóðir og sinnir skyldum sínum af samviskusemi og börnin týnd hvort á sinn hátt. Smám saman ná persónurnar hins vegar að heilla og þótt vissulega sé þetta gömul saga og ný. Sundruð fjölskylda sem þráir að tengjast og finna nánd aftur þá eru hér nokkrir áhugaverðir fletir.

Mary Jane er að jafna sig eftir bílslys. Hún hefur verið kvalin og fengið verkjalyf hjá lækninum. Í jólakveðjunni lýsir hún hvernig jóga og aðrar óhefðbundnar lækningar hafa hjálpað henni en sú sjálfsblekking afhjúpast þegar hún stingur upp í sig tveimur töflum úr glasi. Þessar Oxycontin-töflur eru allt í lagi því hún er jú, að reyna að trappa sig niður.

Að reyna of mikið

Steve vinnur of mikið. Hann veit það en í hvert sinn sem hann hringir heim eða reynir að nálgast konu sína sendir hún honum eitraðar litlar pillur. Þær verða til þess að hann flýr í vinnuna. Þar er hann þó einhvers metinn og getur eitthvað gert rétt.

Frankie er ættleidd, hún er hefur brúnan hörundslit og Mary Jane er mikið í mun að henni finnist hún ekki öðruvísi á nokkurn hátt og kannski hefur það einmitt öfug áhrif. Í það minnsta eru þær mæðgur alltaf að rífast og hvorug skilur hina til fulls.

Nick, það eina sem Mary Jane hefur gert rétt, hefur fengið skólavist í Harvard. Hann hefur stefnt að því leynt og ljóst í tólf ár en þegar markinu er náð er hann flatur, finnur ekki neitt. Hann hefur hingað til haldið sig heima við þegar aðrir skemmta sér svo fer hann í partí og það á eftir að draga dilk á eftir sér.

Ungri stúlku, Stellu, vinkonu Frankie er nauðgað í partíinu og Healy-fjölskyldan þarf öll að endurskoða sjálf sig og lífsgildi sín vegna þess máls. Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikur Mary Jane og það er frábært að sjá hana á sviði aftur. Hún er mögnuð leikkona og frábær söngkona. Aldís Amah Hamilton leikur Frankie og skilar hlutverki sínu mjög vel. Hið sama má segja um Sigurð Ingvarsson sem leikur Nick og Val Frey Einarsson í hlutverki Steve.

Sæbjúgað tortímir sjálfu sér

Hins vegar er það Íris Tanja Flygenring sem stelur senunni nokkrum sinnum í hlutverki Jo. Hún túlkar einstaklega vel hvernig það er að vera unglingur og átta sig á að viðfang ástar þinnar leit samband ykkar ekki sömu augum. Að auki á hún þá línu í verkinu sem fangar innihald þess ótrúlega vel. Hún segir Frankie, vinkonu sinni, frá þeim varnarmekanisma sæbjúgans að skjóta innyflum sínum út um rassgatið ráðist einhver á það. Þar með tortímir það sjálfu sér og kannski eru menn iðulega á sömu vegferð. Kjósa að eyðileggja sjálfan sig fremur en að sýna eigin veikleika.

Í heildina er þetta kraftmikil, hrá og áhrifamikil sýning. Það er skýr sýn að baki leikstjórnar Álfrúnar Örnólfsdóttur og ljóshönnuðurinn, Pálmi Jónsson skapar undraveröld, einhvers konar millistig milli leikhúss og tónleika, nokkuð sem á ótrúlega vel við þessa sýningu. Hið sama má segja um dansana. Saga Sigurðardóttir nær að bæta alveg heilli vídd við verkið með mögnuðum hreyfingum og túlkunum. Því það slær hjarta í þessu verki, á yfirborðinu hefur það brynjað sig líkt og grímur, hettur, kuflar og slár Karenar Bríem búningahönnuðar undirstrika á skapandi og magnaðan hátt en undir niðri er það viðkvæmt, berskjaldað og fullt af þrá. Og svo má ekki gleyma snilldarlega útfærðri leikmynd Evu Signýjar Berger. Karl Olgeirsson tónlistarstjóri hefur skilning á þeim sársauka sem býr að baki lögum Morissette og kemur honum vel til skila.

Það eru tvær magnaðar konur sem komu saman í upphafi og unnu þennan söngleik. Þær Alanis Morissette og Diablo Cody. Alanis er kandadísk að uppruna, margverðlaunuð söngkona, lagasmiður, upptökustjóri og leikkona. Diablo Cody er auðvitað þekktust fyrir handritið að Juno, dásamlegri mynd um unglingsstúlku sem verður ófrísk og þarf að vinna úr sínum vandamálum og sjálfsævisögulegu skáldssöguna, Candy Girl: A Year in the Life of an Unlikely Stripper. Þegar plata Alanis, Jagged Little Pill, kom út árið 1995 náði hún strax að heilla stóran hóp fólks um allan heim. Áleitnir og tilfinningaþrungnir textar í bland við hömlulausa túlkun Alanis voru eitthvað alveg nýtt. Þetta var tónlist sem krafðist einhvers af áheyrendum. Það var svo árið 2019 að söngleikurinn var frumsýndur á Broadway og hlaut fimmtán tilnefningar til Tony-verðlauna og hreppti þau fyrir besta handritið.

Borgarleikhúsið tryggði sér sýningaréttinn og þar hefur verið unnið með glæsibrag úr mögnuðum efnivið. Kvöldstund með Alanis Morissette og listafólki Borgarleikhússins hreyfir við manni og skilur eftir sig minningu um heildstætt og magnað verk.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 24, 2024 07:00