Þórunn Guðnadóttir flutti fyrir nokkrum árum á Selfoss ásamt eiginmanni sínum Páli Einari Jónssyni, sem er lögblindur. Hann hefur átt við heilsubrest að stríða og Þórunn gekk í að útvega honum þá þjónustu sem hann þarfnast og veitt er í sveitarfélaginu Árborg. Hún ákvað að deila reynslu sinni af að sækja þessa þjónustu, með eldri borgurum og skrifaði lista, yfir það sem þurfti að gera í hennar tilfelli, þegar fólk eldist og heilsan bilar. Við birtum hann hér með hennar leyfi.
- Sækja um leigðuíbúð hjá sveitarfélaginu Árborg, helst ekki seinna en um sjötugt, það getur tekið 10 ár að komast þar inn. Hægt er að hætta við, ef maður er ekki tilbúin þegar íbúð býðst.
- Sækja um öryggishnapp til Sjúkratrygginga. Læknisvottorð
- Sækja um að hitta sjúkraþjálfara og fá hann heim til að kanna aðstæður og panta hjálpartæki. Getur verið handfang í sturtuklefa, stuðningssúla við rúm, bleyjur, göngugrind og fleira. Lítið sem ekkert sem notandinn greiðir. Læknisvottorð.
- Sækja um P merki í bílinn hjá Sýslumanni, til að geta notað bílastæði fyrir fatlaða. Læknisvottorð.
- Sækja um aðstoð hjá sveitarfélaginu Árborg til að fá heimilishjálp við þrif á húsnæði, aðstoð hnjúkrunarfræðings við böðun og lyfjagjöf, ofl. ef með þarf. Læknisvottorð.
- Sækja um stuðning til Tryggingastofnunar til að kaupa bíl. Læknisvottorð.
- Sækja um Dagdvöl í Árbliki eða Vinaminni. Getur tekið mánuði eða ár að komast þar að.
- Óska eftir heimsóknarvini hjá Rauða krossinum. Heimsóknarvinur kemur í heimsókn, fer í gönguferðir, bíltúra eða á kaffihús. Ekki þörf á Læknisvottorði.
Þórunn segir það hafa tekið sig margar vikur að komast í gegnum þetta allt. Það hafi enginn frætt hana um hvað gera skyldi og hún áttaði sig í byrjun ekki á því að fara inn á heimasíðu Árborgar. Þar sé hins vegar að finna greinargóðar upplýsingar um þjónustuna við eldri borgara.
Hún segist hafa þurft að útvega fimm læknisvottorð, það hafi ekki verið hægt að nota eitt og sama læknisvottorðið á hverjum stað. Hún hafi því farið fimm sinnum til læknis til að útvega þau, og hafi þurft að bíða jafnvel upp í mánuð eftir að komast að hjá lækninum. Hver stofnun geri sínar kröfur um læknisvottorð og læknirinn þurfi að útfylla sérstakt eyðublað með hliðsjón af kröfum viðkomandi stofnunar. Þórunn hælir hins vegar heilsugæslunni á Selfossi og segir hægt að komast þar að samdægurs, með því að hringja og panta tíma milli klukkan 8 og 9 að morgni. Þar sé einnig hægt að endurnýja lyfin með því að hringja í ákveðið símanúmer á heilsugæslunni á sama tíma á morgnana, eða milli klukkan 8 og 9.
Hún segir það hafa verið einfaldast að útvega P-merkið á bílinn, því bjargaði Sýslumaðurinn í Árnessýslu samdægurs og það gekk líka fljótt fyrir sig að fá öryggishnapp frá Securitas, sem Páll er með um úlnliðinn.
Það er útlit fyrir að Páll komist í dagdvölina í næsta mánuði, en hann er búinn að bíða eftir því í 6 mánuði. Þá hefur Þórunn sótt um hvíldarinnlögn fyrir Pál, en það væri hvíld bæði fyrir hann og fyrir hana. „Þetta er orðin löng og erfið ganga“, segir hún.
Upplýsingabanki Lifðu núna hefur að geyma yfirlit yfir þjónustu við eldra fólk á Íslandi. Smellið hér.