Í Hannesarholti er ávallt eitthvað að gerast en þessa vikuna er þar óvenjulega fjölbreytt og spennandi dagskrá. Á fimmtudagskvöld, þann 2o febrúar, býður Níels Thibaud Girerd áhugasömum upp á Pöbbkviss. Spurt verður um dægurmál, sögu, landafræði, stærðfræði, íþróttir en markmiðið er fyrst og fremst að hafa gaman og skapa stemningu. Barinn verður opinn og frítt inn. Níels gerði nýlega stórskemmtilega útvarpsþætti um kappann, Napóleon, sem kom frá Korsíku og sá og sigraði bæði Frakkland og Jósefínu. Það má því leiða getum að því að hugsanlega verði eitthvað spurt út í líf þessa fyrrum keisara. Spurningakeppnin hefst klukkan 20 og um að gera að nota tímann og rifja upp allt sem maður veit um Napóleon áður en menn mæta í Hannesarholt.
Á laugardag 21. febrúar kl. 11.30-12.30 verður svo BÓKVIT þar sem nokkrir rithöfundar lesa úr verkum sínum og varla hægt að óska sér betri byrjunar á helginni og að mæta í Hannesarholt og hlusta á skemmtilegan skáldskap. Bókmennt hefur verið sinnt með ýmsum hætti í Hannesarholti í gegnum tíðina og í vistarverum hússins er allnokkur bókakostur, sem gestum býðst að glugga í og njóta á meðan þeir dvelja í húsinu. Síðastliðið haust bauð Hannesarholt rithöfundum að lesa úr bókum sínum fyrir gesti á laugardögum kl.11.30 – 12.30 og nú verðum áframhald á því.

Harpa Þorvalds
Eftirfarandi rithöfundar lesa úr bókum sínum laugardaginn 22. febrúar kl.11.30-12.30.
Ásdís Ingólfsdóttir – Viðkomustaðir
Guðrún Margrét Pálsdóttir – Guð er raunverulegur
Ingunn Ásdísardóttir – Jötnar hundvísir, Norræn goðafræði í nýju ljósi
Þórunn Sigurðardóttir – Kurteisleg kvæði og dýrlegar diktanir, Bókmenntagreinar og handritamenning á sautjándu öld
Á sunnudag, 22. febrúar, stýrir Harpa Þorvalds Syngjum saman í Hannesarholti kl.14:00
Harpa er verkefnastjóri list- og menningartengdra verkefna á Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar og stýrir þar á meðal verkefninu Syngjandi skóli og stendur fyrir árlegum samsöng í öllum leik- og grunnskólum landsins á Degi íslenskrar tónlistar. Áður starfaði hún sem tónmenntakennari og kórstjóri við Laugarnesskóla í Reykjavík. Auk þess hefur Harpa stjórnað vikulegum söngstundum á Hrafnistu frá árinu 2018, haldið utan um viðburðinn Syngjum saman í Hannesarholti á árum áður og er sjálfstætt starfandi tónlistarkona og meðlimur í hljómsveitinni Brek. Textar birtast á tjaldi svo allir geta sungið með. Allar kynslóðir velkomnar. Frítt inn.
Ásta Bára Pétursdóttir opnar málverkasýningu sína í Hannesarholti laugardaginn 22.febrúar kl.14. Sýningin er sölusýning og nefnist Núna er tími til að hafa gaman.
Ásta Bára er búsett á Akureyri og hefur unnið í myndlist frá því hún útskrifaðist af Fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2009. Hún hefur haldið 7 einkasýningar og tekið þátt i fjölda samsýninga. Flest málverkin eru unnin með akryl á striga eða á pappír. Innblásturinn í verkum Ástu Báru er aðalega mannlíf líðandi stundar.
Viðfangsefni málverkana er hið daglega líf fólks og athafnir þess, sem og einstaka köttur. Þessar athafnir fólks eru óendanleg uppspretta myndefnis sem gaman er að leika sér með, s.s. með því að teygja og toga líkama á málverkunum eins og hentar hverri mynd. Tvöfalt andlit gæti t.d. verið vísun í margt, eins og hvað við sem manneskjur erum uppteknar af öllu í umhverfi okkar að stundum gleymist persónan sem við erum svo sannarlega með þá stundina. Litagleði og kímni einkenna jafnframt myndirnar sem eru málaðar til að gleðjast og njóta þess að fara með ímyndunaraflið í ferðalag.
Sýningin er opin á opnunatímum Hannesarholts, alla daga nema sunnudaga og mánudaga kl.11.30-16 og stendur til 10.mars.