Eliza Reid fyrrum forsetafrú hefur ávallt haft mikinn áhuga á bókmenntum og skrifum. Hún stofnaði rithöfundabúðirnar, Iceland Writers Retreat, ásamt vinkonu sinni, Ericu Jacobs Green árið 2014 og þær hafa starfað óslitið síðan. Það vakti einnig mikla athygli þegar Eliza tók viðtöl við íslenskar konur og birti í bók Sprakkar. Nú hefur hún gefið út sína fyrstu skáldsögu, Diplómati deyr.
Þetta er glæpasaga með nokkuð kunnuglega sviðsmynd. Níu manns eru komin saman yfir kvöldverði á fyrsta flokks veitingastað í Vestmannaeyjum. Úti geysar óveður og hvorki skipum né flugvélum fært til Eyja. Agatha Christie skapaði svipaðar aðstæður í nokkrum sinna bóka meðal annars, And Then There Were None. Þetta fólk er hins vegar komið saman til að vera viðstatt opnun sýningar kanadískrar listakonu. Um er að ræða kanadíska sendiherrann, eiginkonu hans, vin hennar þekktan rithöfund, aðstoðarsendiherrann og eiginmann hennar, bæjarstjórann í Vestmannaeyjum, aðalvinnuveitanda bæjarins og konu hans, listakonuna og einnig kemur kokkurinn á veitingahúsinu við sögu
Aðstoðarsendiherrann er myrtur þetta kvöld og í kjölfarið fer Jane, eiginkona sendiherrans að rannsaka málið. Hún stendur í skugga manns síns og er að sumu leyti ósátt við það. Hlutskipti sem Eliza þekkir einnig því hún var að vissu leyti í þeirra stöðu í forsetatíð Guðna. Hér er einnig gefin innsýn inn í hinn diplómatíska heim og það kemur vel fram að saklaust erindi eins og listsýningaropnun getur snúist um margt annað en listina. Eliza er hér án efa á heimavelli því hún hefur tekið þátt í ótal opinberum kvöldverðum og verið viðstödd svipaðar samkomur. Henni tekst því vel að gera aðstæður trúverðugar. Jane er skemmtileg persóna og lausnin á gátunni snjöll.
Elizu lætur vel að skapa persónur og henni tekst vel að lýsa aðstæðum og skapa stemningu. Hún er því áhugaverður nýliði í íslenska glæpasagnahöfundahópnum. Það er einstaklega gaman hversu fjölbreyttur hann er og hugmyndaríkur og unnendur glæpasagna hljóta að fagna í hvert sinn sem nýr og snjall höfundur kemur fram á sjónarsviðið.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.