Skyldi hann snjóa í paradís?

Snjór í paradís titill sem gefur fyrirheit um að eitthvað fallegt fylgi, enginn hríðarbylur og organdi rokrass heldur hundslappadrífa með stórum svífandi kornum sem vart hafa tíma til að setjast áður en þau bráðna en geta skapað tóm vandræði þegar þeim kyngir niður og þau hlaðast upp. Það er þannig sem Ólafur Jóhann Ólafasson býr okkur undir sögurnar átta í nýjustu bók sinni. Hann vekur ímyndunaraflið og lesandinn væntir þess að hans bíði eitthvað spennandi og fallegt. Og Ólafur Jóhann svíkur ekki.

Sögurnar er einstaklega vel uppbyggðar. Þær fjalla um tengsl og nánd í mannlegum samskiptum. Allt það sem við geymum innra með okkur vegna þess að við þorum ekki að treysta öðrum fyrir því af ótta við að þá glatist hluti af töfrum þess. Tvær sögur eru eftirminnilegastar. Sú fyrsta gerist í Tókýó og Ólafi tekst að skapa einstaklega áhugavert andrúmsloft trega og eftirsjár en jafnframt vonar og einhvers staðar undir niðri er að fæðast nýr sproti.

Svo er áhrifamikil saga af manni sem tekst ferð á hendur til bera kennsl á og sækja lík sonar síns. Sá hefur glímt við fíknisjúkdóm og maðurinn fer einn því hann getur ekki hugsað sér að svipta konuna sína voninni um að heyra frá unga manninum. Þessi mynd sem þarna er dregin upp af foreldrum í ómögulegum aðstæðum er skerandi sorgleg. Það er enginn kostur góður og hér þurfum við að spyrja okkur hvort sannleikurinn sé ætíð sagna bestur og hvort það sé betra að vita eða eiga veika von. Þetta er fádæma góð bók og sérlega vel skrifuð.

Ritstjórn desember 11, 2023 07:00