Stolt af því að verða brátt sjötug

Fegurð er óháð aldri.

Eldri fyrirsætum fer fjölgandi. Ein þeirra er fyrirsætan, næringarfræðingurinn og frumkvöðullinn Maye Musk sem fékk þann heiður að prýða eina af forsíðum tískuritsins CoverGirl á síðasta ári. Hún er engin nýgræðingur í faginu en hún hefur starfað sem fyrirsæta í hálfa öld. Auk þess státar hún af tveimur mastersgráðum. Maye er 69 ára, þriggja barna móðir og amma tíu barna. „Hverjum datt í hug að ég ætti eftir að ná þessum áfanga eftir að hafa árum saman dáðst að fyrirsætum CoverGirl. Maður á aldrei að gefast upp. Ég er þakklát fyrir fá að bætast í hóp þeirra margbreytilegu kvenna sem hafa fengið að sitja fyrir hjá blaðinu. Fegurð er óháð aldri,“ segir Maye Musk á Instagram.

Tískuiðnaðurinn er að breytast og aldrei hafa jafnmargar eldri konur tekið þátt í tískuvikunni í New York eða verið á forsíðum blaða eins og á síðasta ári, segir í New York Times. Í samtali við blaðið segir Maye að sjálfsöryggið vaxi með aldrinum. „Ég er ekki að reyna að fela aldur minn og segjast vera fimmtug. Ég er stolt af sjálfri mér og því að ég skuli brátt verða 70 ára,“segir hún en þeim áfanga nær hún í apríl.

Maye segist löngu hætt að lita á sér hárið. Hún hafi verið dökkhærð á yngri árum svo hafi hún farið að grána. Fyrst í stað hafi hún látið lita hárið en fyrir tíu árum hafi hún hætt því. Hún hafi litað hárið mjög ljóst og klippt það stutt. Síðan hafi hún einfaldlega leyft gráa litnum að taka yfir og í dag sé hún ánægð með sitt gráa hár.

 

Ritstjórn janúar 9, 2018 09:02