Sumarlegt kartöflusalat

Kartöflusalat er alltaf vinsælt með grillmatnum og mjög gott er að búa það til með fyrirvara og láta bragðið samlagast. Hér er hugmynd að einu nýstárlegu og sumarlegu kartöflusalati sem hefur verið margreynt með grillmáltíðum. Þessi uppskrift er hugsuð fyrir 6.

1 kg kartöflur

3 tsk. gróft sinnep

2 msk. balsamedik

4 msk. olía

1 tsk. nýmalaður svartur pipar

 

1 lítill hreinn rjómaostur

1 dós hrein jógúrt

1 tsk. maldonsalt

3 sellerístilkar, skornir í þunnar sneiðar

3-4 msk. graslaukur, smátt skorinn eða klipptur

Afhýðið kartöflurnar ef vill en það er óþarfi ef þær eru nýjar. Skerið þær í hæfilega bita og sjóðið í 10-12 mínútur. Hellið vatninu af og setjið kartöflurnar í skál. Hrærið saman sinnepi, ediki, olíu og pipar og dreifið vel yfir heitar kartöflurnar. Veltið þeim varlega í leginum og látið kólna alveg í skálinni. Hrærið rjómaostinn og jógúrtinni saman ásamt saltinu. Bætið selleríi og graslauk saman við og blandið sósunni síðan varlega saman við kaldar kartöflurnar. Látið salatið bíða í a.m.k. 30 mínútur í ísskáp áður en það er borið fram.

 

Ritstjórn júní 3, 2022 07:00