Svo börnin fari ekki í hár saman útaf arfinum

Fullorðin systkini safnast inní fundarherbergi á lögmannsstofu og deila bitur um arfinn eftir foreldra sína. „Aldrei datt mér í hug að þetta myndi gerast í okkar fjölskyldu“, segir eitt þeirra með tárin í augunum. Þetta er nokkuð sem bandaríski lögmaðurinn P. Mark Accettura hefur oft orðið vitni að. Hann hefur horft á svo margar fjölskyldur splundrast vegna erfðamála, að hann skrifaði bók sem heitir Blóð&Peningar og fjallar um það hvernig hægt er að komast hjá fjölskylduerjum vegna erfðamála. Það hafa fleiri skrifað bækur um þetta efni, meðal annars Lori Sackler, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Morgan Stanley Wealth Management.  Hún segir að margir foreldrar eigi erfitt með að ræða um fjármál við börnin sín, en það sé mjög mikilvægt að taka þá umræðu. Hún segir upplagt að ræða við þau, við starfslok, þegar huga þarf að úrræðum þegar heilsan fer að bila og þegar menn fara að hugsa um hvernig þeir ætli að ráðstafa eignum sínum.

Þau segja að þó að svo virðist sem peningar orsaki erfðadeilur, snúist þær um miklu fleiri þætti. Peningarnir eru notaðir sem mælikvarði á hver er mikilvægur, þegar kemur að væntumþykju milli barna og foreldra, viðurkenningu og bara frumstæðri hvöt fyrir að bjarga sér.

Þau Sackler og Accettura gefa ráð um hvernig hægt er að forðast fjölskylduerjur vegna erfðamála.

Ráðstöfun eigna.  Gerðu áætlun um hvernig þú hyggst ráðstafa eignum þínum og segðu börnunum frá því helsta. Haltu fjölskyldufund til að fara yfir það sem getur haft áhrif á uppkomnu börnin þín, svo sem eins og að það standi til að láta barnabörnin erfa peninga til að þau geti menntað sig. Ekki fara of mikið út í smáatriðin segir Sackler „ Ráðstöfun eigna er ekki lýðræðislegt ferli. Börnin þín þurfa ekki að samþykkja allt og það er óþarfi að valda deilum á meðan fólk er enn á lífi“, segir Accetura.

Skiptu eignunum jafnt. Ekki falla í þá freistni að láta barninu sem á í vanda í lífinu, eftir meira en hinum. Börnunum sem hefur vegnað betur, getur þótt það einhvers konar refsing og það getur valdið gremju meðal systkinanna. „Erfðaskrá sem leggur á um jafna skiptingu veldur síður deilum, segir Sackler. Accettura tekur undir þetta „Þó eitt systkinið fá bara einum dollara minna en hitt, getur það valdið vanlíðan“, segir hann.

Útnefndu umsjónarmann.  Þú verður að hafa pottþétt rök fyrir því að fela þetta einu barnanna, en ekki öðru.  Kannski vegna þess að það er elst, eða þá örðu barni þar sem það er færara í lögfræði og fjármálum en hin. Það má alveg hugsa sér að umsjónarmanninum sé greitt fyrir þetta. „Þetta getur verið mikil vinna og ef umsjónarmaðurinn vill fá greitt, á hann það áreiðanlega skilið“, segir Sackler. Accettura leggur til að foreldrarnir fái öllum börnunum eitthvert hlutverk í erfðaskránni. Einn getur verið umsjónarmaður en aðrir aðstoðað hann við ákveðna hluti.

Deildu út verðmætum. Þetta getur snúist til dæmis um skartgripi. Jafnvel ódýra skartgripi. Trúlofunarhringurinn hennar ömmu getur orðið deiluefni, því honum tengjast miklar tilfinningar. „Ræðið þetta í fjölskyldunni og komið upp aðferð til að velja, þannig að allir séu með“, segir Sackler.

Hafið skýrt hvað eru gjafir og hvað er lán.  Ef foreldrar hafa gefið uppkomnum börnum peninga, ættu þeir að útlista það í erfðaskránni, hvað er gjöf og hvað er lán. Ef  þetta var lán, á það þá að falla niður eða á að endurgreiða það dánarbúinu? Ef þetta er ekki ljóst getur það valdið ágreiningi.

En mergur málsins er sá, að ef hlutirnir eru skipulagðir vel fyrirfram eru meiri líkur á að friður haldist í fjölskyldunni.

 

Ritstjórn apríl 7, 2017 14:15