Höfum hlutina þannig að við gætum þess vegna farið á morgun

Elín Sigrún Jónsdóttir veiktist vegna myglu á vinnustað sínum og neyddist til að hætta rétt fyrir sextugsafmæli sitt. Hún rekur í dag Búum vel, ráðgjöf á sviði fasteigna- og erfðamála. Nafnið er lýsandi vegna þess að það vísar til þess að við Íslendingar viljum leggja rækt við heimili okkar og skapa þar griðastað. Í því felst líka sú áskorun að við búum eins vel og við getum miðað við okkar aðstæður hverju sinni. En gefum Elínu Sigrúnu orðið.

„Markmið mitt með stofnun fyrirtækisins er að þjóna vel fólki á þriðja aldursskeiðinu og þar með að nýta reynslu mína, þekkingu og ástríðu. Í dag sinni ég því sem hefur verið hvað ánægjulegast og mikilvægast í mínu vinnulífi. Ég veiti ráðgjöf varðandi húsnæðismál, fjármál heimila, lífeyrismál og erfðamál. Ég hafði stýrt Útfararstofu kirkjugarðanna í sex ár,“ segir hún. „Ég áttaði mig ekki á að húsnæðið var illa myglað. Ég fékk heiftarlega og langvarandi berkjubólgu og glímdi við astma af völdum myglunnar. Ég lenti í alvarlegum öndunarerfiðleikum og var í níu mánuði að ná heilsu. Þetta var í febrúar, ég varð sextug í apríl og í september 2020 stofnaði ég fyrirtækið.“

Það er óhætt að segja að fyrsta Covid-árið hafi ekki verið tíðindalaust í lífi Elínar Sigrúnar. En hún er lærður lögfræðingur og hafði fjölbreytta reynslu á vinnumarkaði.

„Ég sinnti líka lögfræðiþjónustu hjá Útfararstofunni. Það var að norrænni fyrirmynd en þar er gjarnan slík þjónusta nátengd útfararþjónustu. En þegar ég var ráðin þar var ég valin úr sjötíu og fjögurra manna hópi en eftir að ég var orðin sextug var umsóknum mínum ekki svarað. Viðsnúningurinn var algjör og ég ætlaði ekki að trúa þessu. Þetta reyndist hins vegar algjör blessun því ég þurfti að hugsa allt upp á nýtt, hvað ég gæti, kynni og hver væri ástríða mín. Ég vildi gjarnan flétta saman það sem mér fannst ég vera góð í og gerði öðrum gott. Og eftir þessa yfirlegu varð til nýtt fyrirtæki, lögmannsstofa með nýstárlega nálgun og öðruvísi en almennt þekktist,“ segir hún.

Þroski og lífsreynsla

„Í starfi mínu fyrir Búum vel finn ég svo vel til þess hvers virði þroski og lífsreynsla er. Ég hlusta á fjölda fólks segja frá persónulegum málum, heldur hún áfram. „Fólk trúir mér fyrir vonum og vonbrigðum lífsins, sársaukaefnum og gleði yfir samskiptum og/eða samskiptaleysi við sína nánustu. Við ræðum mál og metum stöðuna. Í samskiptunum finn ég vel hversu dýrmætt það er að vera ekki þrítug og óreynd. Lífsreynslan veitir mér betri skilning á þörfum fólks, löngunum og möguleikum. Og það er hagnýtt að hafa þjónað fólki í fasteignahugleiðingum, í sorg og í greiðsluvanda.

Ég sinni m.a. fasteignaráðgjöf. Þegar ég var nýútskrifuð var mitt fyrsta starf hjá fasteignasölunni Eignamiðlun. Þá var mitt hlutverk að leysa fyrir hönd fasteignasölunnar allan ágreining sem kom upp milli kaupenda og seljenda. Þá var kerfið þannig að fólk greiddi kaupsamningsgreiðslur fyrsta árið eftir að það keypti og stundum komu í ljós ýmsir gallar á fasteigninni á þeim tíma. Fólk reyndi því að fá afslátt af síðustu greiðslu. Mitt hlutverk var að tala á milli og leita lausna.

Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á fasteignamálum og fasteignamarkaðinum almennt. Ég fór síðan í almenna lögmennsku, varð því næst lögmaður BYKO og þaðan fór ég til starfa í félagsmálaráðuneytinu í tíð Jóhönnu Sigurðardóttir. Ég skrifaði meðal annars mörg frumvörp tengd húsnæðismálum. Ég stofnaði og varð fyrsti framkvæmdastjóri Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna (undanfari Umboðsmanns skuldara). Það var samstarfsverkefni 28 stofnana og fyrirtækja í þágu skuldsettra heimila undir forystu félagsmálaráðuneytis. Ég stýrði henni í fjögur ár og þaðan fór ég til dómstólanna, var framkvæmdastjóri dómstólaráðs í ellefu ár og að lokum réði ég mig til Útfararstofunnar.

Fjármál heimila, húsnæðismál, lífeyrismál og erfðamál er það sem ég tengi saman í mínu fyrirtæki. Mér finnst ég vera með algjör draumaverkefni í dag. Ég ákvað þegar ég áttaði mig á að umsóknum mínum yrði ekki svarað að ég yrði að snúa upp á þessa aldursfordóma. Ég fór í göngutúr og hugsaði um hvað ég gæti gert. Ég ákvað að stofna eigin fyrirtæki. Þangað til hafði ég verið launþegi en þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

Sinnir mikið erfðamálum

Flestir sem komnir eru á þennan aldur eru farnir að líta til eftirlaunaáranna og ekki síður að skoða erfðamálin. Hvað finnst þér algengast að fólk hafi áhyggjur af hvað það varðar?

„Mín verkefni eru þríþætt, ráðgjöf við sölu og kaup fasteigna, þjónusta og ráðgjöf við einkaskipti dánarbúa og loks ráðgjöf um erfðamálin, gerð erfðaskráa og kaupmála. Þá hafa æ fleiri stofnanir og hreyfingar beðið mig um að halda fyrirlestra um erfðamál. Öll tengjast þessi verkefni á einn og annan hátt“, segir Elín Sigrún.

„Ég hjálpa mörgum erfingjum að ganga frá einkaskiptum á dánarbúum, selja þær fasteignir sem eru í búinu og greiða út arfinn. Þar fyrir utan aðstoða ég fólk við að ganga frá sinni eigin erfðaskrá og geri kaupmála þegar það á við. Mjög algengt er að þeir sem eru í öðru eða þriðja hjónabandi vilji gera erfðaskrá til að tryggja að geta setið í óskiptu búi komi til andláts maka. Ef börnin eru ekki öll sameiginleg þarf fólk að gera erfðaskrá til að vera öruggt um þann rétt. Þarna er ákveðið ójafnræði milli hjóna sem eiga sín börn saman og hinna sem eiga börn fyrir. Ef börnin eru öll sameiginleg eru þau ekkert spurð ef annað foreldri þeirra vill sitja í óskiptu búi en sé það ekki svo verða hin börnin öll að samþykkja ef ekki liggur fyrir erfðaskrá.

Það er mjög algengt að þessi stóri hópur sé að tryggja þennan rétt. Þeir sem hafa skilið þekkja líka á eigin skinni hversu erfitt er að þurfa að samþykkja að arfurinn sem þau höfðu nýlega fengið frá mömmu og pabba skiptist við skilnað. Sá hópur vill tryggja að arfurinn sem börn þeirra fá verði séreign. Við búum í samfélagi þar sem helmingur allra hjónabanda endar með skilnaði svo sá hópur er stór. Síðan er mjög algengt að þeir sem ekki eiga skylduerfingja, maka eða börn, vilji gera erfðaskrá og einnig er til að fólk vilji sjá til þess að barnabörn eða félag sem þeim er kært njóti arfs. Það er ákveðin framfærsluhugsun í erfðalögunum, enda eru þau 60+, að grunni til frá árinu 1962.

Í dag er ekki óalgengt að þau sem eru komin á efri ár en ætla að ganga í hjónaband vilji tryggja ákveðna séreign og gera kaupmála. Parið á kannski hvort sinn barnahópinn og eignir og vilja hafa allt skýrt og á hreinu. Svo er algengt að fólk sem hefur nýlega komið að dánarbússkiptum foreldra sinna og hefur upplifað brotalamir vill koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig og vill því ganga frá erfðaskrá.“

Elín Sigrún með manni sínum, séra Sigurði Árna Þórðarsyni

Yfirleitt ríkir sátt um arfinn

Við heyrum oft sagt frá erfðamálum þar sem allt fer í háaloft milli fjölskyldumeðlima. Stundum er búið að lofa einhverjum tilteknum munum en ekki finnst neitt skriflegt um það. Þetta getur endað með að systkini hætti að talast við og þaðan af verra. Verður þitt hlutverk þá að vera nokkurs konar sáttasemjari eða sálusorgari?

„Eins og í þessu tiltekna dæmi er reynt að fara ýmsar leiðir, eins og að draga um hlutina,“ segir hún. „Yfirleitt er bara sátt. Kannski er meira talað um ágreininginn og við heyrum meira af honum en þegar allt gengur vel. Í þeim búum sem ég hef verið með hefur stundum verið ágreiningur milli systkina og þá hef ég leyst það þannig að einn merkir með ákveðnum lit það sem hann óskar eftir og svo kemur næsti og merkir með öðrum lit og ef eitthvað skarast er reynt að leysa úr því.“

Það fylgir því líka að eldast að vilja minnka skyldur og ábyrgð og ein leið er að minnka fasteignina og umsvif í kringum hana.

„Mikilvægur þáttur í minni þjónustu er einmitt að ráðleggja og greina óskir varðandi fasteignir. Þegar fólk er búið að búa í þrjátíu til fjörutíu ár í sömu húseign þekkir það ekki fasteignamarkaðinn og treystir sér jafnvel ekki út á hann. Ég hef aðstoðað fjölda ánægðra viðskiptavina við að undirbúa sölu og aðstoða við leit að heppilegri eign. Það er gefandi og skemmtileg vinna sem oft tekur nokkurn tíma. Það geta verið nokkrar vörður á þeirri leið og ég hvet mína viðskiptavini til að vinna þá vinnu í rólegheitum og með yfirvegun. Það er ekki óalgengt að ferlið taki allt að ári frá fyrstu heimsókn. Þá er fólkið búið að gera sér grein fyrir því að það sé komið að breytingu. Ég heimsæki fólk yfirleit til að sjá hvernig fólk býr, hver stíllinn er og skilja hvernig draumur fólks er um nýja húsnæðið. Í hvaða hverfi, jarðhæð eða útsýni, hve stórt, þjónustuíbúð eða hjúkrunarheimili? Allt eru þetta spurningar sem farið er yfir í ljósi þarfa hvers og eins. Þetta er afar persónuleg og gefandi þjónusta.

Það eru ekki allir sem geta reitt sig á aðstoð barna eða annarra nákominna. Algengt er að nokkur eða jafnvel öll börnin búi erlendis. Því er fólki þörf á aukinni aðstoð. Þeir fasteignasalar sem ég hef samið við gera sér grein fyrir að auka verði þjónustu við eldra fólk. Því eru fasteignasölurnar tilbúnar til að greiða mér fyrir þjónustuna með hluta af þeim sölulaunum sem seljandi greiðir ella. Þetta eru fasteignasölur sem hafa mikinn þjónustumetnað. Eignamiðlun hefur nú auglýst samstarf okkar sem sérþjónustu fyrir 60+ og er það vel. Ég hef þjónað fjölda ánægðra viðskiptavina. Eignamiðlun kallar þessa þjónustuleið einfaldlega Búum vel. Ég fylgi fólki í gegnum allt ferlið, held í höndina á því, allt frá því stefnan er tekin og þar til kaupsamningur er undirritaður.“

Fékk ekki að fara í djáknanám

Þarftu ekki að vera svolítill sálusorgari í þér eða sálfræðingur til að vinna svona starf og kemur kannski reynslan úr Útfararstofunni þér til góða í þessari þjónustu?

„Jú, stundum er það þannig,“ segir Elín Sigrún og brosir. „Þegar ég var búin að vera nokkur ár í lögmennsku fann ég að mig langaði að fara í djáknanám. Ég hafði samband við guðfræðideildina en svarið þar var að fyrst ég væri hvorki með kennarapróf né hjúkrunarfræðingur ætti ég ekki erindi í það nám. En ég hef oft hugsað um að ég nýt þess að fá að styðja fólk og veita ráðgjöf á tímamótum. Ég bryddaði upp á mörgum nýungum þegar ég vann hjá Útfararstofu kirkjugarðanna, meðal annars bauð ég fólki upp á samtal um hver þeirra hinsti vilji væri, hvernig það vildi hafa útförina sína. Það voru merkileg samtöl. Að vera í ráðgjafastarfi kennir manni að hlusta. Ég er líka lærður markþjálfi og þar lærir maður að hlusta markvisst og spyrja opinna spurninga til að finna hver raunverulegur vilji viðkomandi er.

Ég legg ríka áherslu á að veita persónulega þjónustu. Viðskiptavinum mínum býð ég til viðtals í Hafnarhvol, Tryggvagötu 11 og það hentar flestum vel. En í sumum tilvikum heimsæki ég viðskiptavini mína, hvort sem er heima, á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun. Það geri ég vegna þess að flestum líður best að ræða stóru málin heima eða í sínu umhverfi og leiðarljósið er ævinlega að fólk búi eins vel og kostur er á hverju sinni og að sátt ríki um ráðstöfun mála.“

Eru einhver sérstök tilvik eða dæmi um hvernig þín þjónusta hefur nýst sem sitja í þér eða eru þér eftirminnilegri en önnur?

„Þau eru orðin ansi mörg. Ég finn til þess að ég á mörg raunhæf dæmi þegar ég sinni fræðslu um erfðamálin, sem ég geri gjarnan fyrir félagasamtök og stofnanir og dæmin gera fræðsluna meira lifandi. Ég finn líka að það er mikilvægt að hafa verið báðum megin við borðið. Ég hef tekið að mér nokkur skilnaðarmál og þekki því hversu mikill sársaukinn getur verið þegar fólk hefur ekki gert neinar ráðstafanir til að verja eitthvað sem skiptir það miklu.“

Elín Sigrún með sonum sínum en hún eignaðist tvíburana 45 ára gömul.

Hefur gert sinn hinsta vilja skýran

Nú ertu sjálf farin að nálgast þennan hefðbundna eftirlaunaaldur. Ertu sjálf búin að gera allar ráðstafanir og ertu með allt þitt á hreinu?

„Það vill nú svo skemmtilega til að þegar ég var hjá Útfararstofunni og bauð fólki upp á að ræða sinn hinsta vilja að annar sonur minn sá auglýsingu þess efnis, ég held að hann hafi verið þrettán ára. Þá sagði hann: „Mamma ert þú búin að ganga frá þínum hinsta vilja?“ Ég er svo gæfusöm að hafa eignast tvíburadrengi þegar ég var fjörutíu og fimm ára og þótt ég sé sextíu og þriggja ára í dag eru þeir bara átján ára menntaskóladrengir. Ég svaraði nei og þá sagði hann: „Mamma það þýðir ekkert að auglýsa þessa þjónustu ef þú ert ekki búin að gera þetta sjálf.“

Næst þegar ég kom í vinnuna ákvað ég í samráði við samstarfsmenn mína að ganga frá því að minn hinsti vilji væri skýr. Ég hef líka gert drengjunum mínum grein fyrir því að þegar ég fell frá verður arfurinn eftir mig þeirra séreign. Þannig að já ég hef gert það og ég reyni sannarlega að praktísera það sem ég predika. Ég endurskoða reglulega mín erfðamál og ég hvet aðra til að gera það líka. Það breytist svo margt í lífinu og við eigum ekki að líta svo á að þetta sé allt meitlað í stein.

Fólk þarf að vera meðvitað um stöðu sína. Er það gift eða í sambúð, hverjar eru eignir og skuldir? Ég hef líka hvatt jafnaldra mína til að skoða eftirlaun sín og lífeyrisréttindi almennt. Það er m.a. mikilvægt að skoða möguleika á að skipta lífeyri ef rétturinn er misjafn. Það er algeng staða meðal eldri kynslóðarinnar í dag að karlmaðurinn njóti hærri eftirlauna en konan. Ef hann þarf svo að fara inn á hjúkrunarheimili neyðast þau til að halda tvö heimili. Hans tekjur renna þá að stærstum hluta til dvalarheimilisins og hún hefur sáralítið til að reka heimilið. Já, það er að mörgu að huga og ég hvet fólk til að hugsa þetta þannig að hlutirnir séu einfaldlega eins og þeir vildu hafa þá ef þeir færu á morgun. Þannig vil ég hugsa mín mál,“ segir Elín Sigrún að lokum.

Ritstjórn nóvember 21, 2023 07:00