Syndum út í 2021 af fullum krafti og skiljum 2020 eftir

Sundlaugar skipa stóran sess í íþróttasögu okkar Íslendinga og sumar þeirra eru mikil mannvirki. Laugardalslaugin við Sundlaugaveg í Reykjavík var byggð 1968 og eftir að sú laug ver reist varð sundkennsla mun almennari en áður. Þeir, sem nú eru komnir á miðjan aldur og ólust upp í Reykjavík, lærðu því flestir ungir að synda. Þegar aldurinn færist yfir er sundið talið besta líkamsræktin fyrir okkur því hreyfing í vatni fer mjög vel með líkamann og álagsmeiðsl mjög fátíð. En þegar nýta á sundið sem líkamsrækt lenda margir í vandræðum. Skriðsundið vefst fyrir mörgum því kunnáttunni hefur ekki verið haldið við og bringusundið getur verið erfitt fyrir bakið. En hvernig eigum við að byrja?

Mínútur eða metrar

Gott er að hafa í huga að vænlegast er að byggja líkamann rólega upp og kannski best að byrja með það markmið að upplifa galdurinn í vatninu. Viðnámið í vatninu er töluvert og öll hreyfing í því er góð fyrir vöðvana. Og eftir því sem við hreyfum okkur meira því betra. Flestar sundlaugar eru 25 metrar á lengd og víðast er hægt að sjá á klukku úr lauginni. Gott er fyrir byrjanda að synda 200 metra í fyrstu ferð eða 8 ferðir. Bæta svo við ferðum í hverri sundferð þangað til vegalengdin er orðin 500 metrar eða 20 ferðir. Þolið eykst ótrúlega hratt ef þessum takti er haldið minnst þrisvar í viku. Eftir nokkurn tíma verða daglegar sundferðir svo orðnar að þörf. Með því að hlusta á líkamann lærist fljótt í hvaða takti manni þykir best að synda.

Skriðsund, baksund eða bringusund

Allir stærstu vöðvahópar líkamans vinna jafn mikið í algengustu sundaðferðunum. Best er að byrja á að nota þá aðferð sem maður ræður best við en gott er að geta skipt um sundaðferð ef hægt er. Reglubundin sundþjálfun er mikilvæg og jafnvel þótt maður komist ekki nema einu sinni í viku í sund er það betra en ekki neitt. En hafa þarf hugfast að maður getur ekki stytt sér leið við að byggja upp þol og vöðvastyrk. En það er sannarlega þess virði að halda þjálfunina út.

Aldrei of seint að byrja

Sýnt hefur verið fram á að reglubundin hreyfing sé besta fjárfestingin þegar kemur að heilsunni.  Mjög margir byrja seint á ævinni að hugsa um heilsuna en mikilvægt er að vita  að aldrei er of seint að byrja. Í flestum sundlaugum er boðið upp á gufubað og/eða heita potta sem tilvalið er að nýta sér. Vöðvarnir mýkjast í pottinum og svo er mjög gott að teygja þá í gufubaðinu á eftir. Á þann hátt verða vöðvarnir vel búnir undir næstu æfingu. Flestir finna fljótlega hversu mikil vellíðan felst í vatninu og það eitt og sér er nægilega mikil hvatning til að halda áfram.

Sundflokkur á Ólympíuleikana 1936

Einungis 28 árum eftir að steingerðu sundlaugarnar í Reykjavík voru reistar var sundfærni Íslendinga orðin svo mikil að þeir áttu erindi á Ólympíuleikana í Berlín ´36. Sundkennsla varð strax almenn og haldið uppi allan ársins hring í hituðum laugunum. Áður höfðu sundkappar þreytt langsund í sjó og má til gamans nefna að ungfrú Ásta Jónsdóttir synti frá Viðey til Reykjavíkur á 1 klukkustund og 55 og hálfri mínútu 1928.

Sundlaugar tóku að byggjast

Austurbæjarskólinn á Skólavörðuholti tók til starfa 1930 en hann var í fremstu röð skólahúsa í Evrópu með sundlaug þar sem nemendur þess skóla og annarra lærðu að synda. Það var til mikilla framfara fyrir alla skólaæsku í Reykjavík að fá þessa laug til sundnáms.

Svo liðu ekki mörg ár þar til Sundhöllin við Barónsstíg var byggð og vígð en það var 23. mars 1937. Sú sundlaug varð mikill hvati til sundiðkunar í Reykjavík.

UMFR aðeins fyrir pilta 1906

Ungmennafélag Reykjavíkur var stofnað í október 1906 og varð þá öflugasta félag sinnar tegundar á landinu. Félagslíf í UMFR var blómlegt og voru iðkaðar þar ýmsar íþróttagreinar eins og skíðaíþrótt, sund, skautahlaup, glíma, skák og fimleikar. Þetta félag var eingöngu fyrir pilta en stúlkur stofnuðu Ungmennafélagið Iðunni 1908 þar sem voru stundaðar íþróttir og fimleikar. Gott samstarf var með þessum félögum.

Sjósund álitið herða líkamann

Ungmennafélagið stóð fyrir sjósundi við Skerjafjörð. Álitið var að það myndi herða líkamann en á þeim árum var berklaveikin útbreidd í landinu. Útivera í fersku og köldu lofti var talin vera góð til varnar gegn þeim banvæna sjúkdómi.

Ósæmilegt að konur sæjust í sundbol

Reistur var skáli, nefndur Grettir, í landi Skildinganess og var víkin sem skálinn stóð við nefnd Skálavík og þar var hlaðin bryggja. Skálinn var vígður með hátíð 1909 en fram að því þótti ósæmilegt að konur létu sjá sig í sundbol. Við sundkennslu í sundlaugunum fengu þær laugina fyrir sig einar.

Við vígslu sundskálans Grettis fór fram fyrsta kappsundið sem nefna má því nafni. Fjórar stúlkur sýndu sund við vígsluhátíðina og það þóttu mikil tíðindi.

Á næstu árum hélt UMFR sundmót og á nýársdag þreyttu karlmenn kappsund í Reykjavíkurhöfn. Sú keppni fór fram í nokkur ár og nefndist Nýárssundið. 1910 þreyttu konur kappsund í Skerjafirði sem var fyrsta íþróttakeppni kvenna hér á landi.

Svo óheppilega hagaði til í Skerjafirði að grútarbræðsla Þormóðsstaða var skammt frá Skálavíkinni og fljótlega  dofnaði yfir sundiðkun á þeim slóðum.

“Þeir sem stóðu á laugarbakkanum og kenndu og þjálfuðu af elju, þrautseigju og dugnaði náðu langt. Þeir tókust á við fordóma, svartsýni og hinn vonlausa tíðaranda. Þrátt fyrir erfiðleika „stóðu þeir sinn póst“ og margir sigrar unnust.”

Heimildir: Saga Reykjavíkur, e. Guðjón Friðriksson, Doktor.is

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn janúar 6, 2021 09:19