Sund – allra meina bót

Íslensk sundlaugamenning er einstök á heimsvísu, svo sérstæð að rætt hefur verið um að setja hana lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf. Það væri ekki amaleg viðbót við þau íslensku menningar- og minjafyrirbæri sem þar eru fyrir. Bókin Sund eftir Katrínu Snorradóttur og Valdimar Tr. Hafstein er frábærlega vel unnin og skemmtileg úttekt á þessum mikilvæga þætti í lífi Íslendinga og hversu viðamiklu hlutverki sundlaugarnar gegna.

Höfundar eru bæði þjóðfræðingar og hafa því næmt auga fyrir því sérstæða og umfjöllunin um þær umgengnisreglur sem þróast hafa í búningsklefunum, á sundlaugarbakkanum og í heita pottinum eru í senn skondnar, áhugaverðar og fróðlegar. Aðstæður í sundlaugum eru nefnilega mjög einstakar og ekki sjálfgefið að öllum líði vel eða séu ófeimnir undir þeim kringumstæðum. Einmitt það kallar á skýrar óskráðar reglur um hvar, hvernig og hvenær heilsast er, kvaðst, spjallað og spekúlerað.

Heiti potturinn er auðvitað velþekkt menningarfyrirbæri þegar og ekki ósjaldan vísað til þess sem rætt er í heita pottinum á morgnana þegar kemur að pólitískum álitaefnum, hneykslismálum og bæjarfréttum. Þar myndast vinátta sem iðulega nær ekki út fyrir pottinn en getur einnig verið upphaf að öðru og meira.

Sundkennsla barna er sömuleiðis merkileg og miklvæg í sögulegu samhengi. Það er eiginlega með ólíkindum að hálft prósent landsmanna hafi verið synd um aldamótin 1900 einkum þegar haft er í huga hvað sjórinn og sjósókn hafa alltaf verið stór hluti af lífinu hér. En með sundlaugamenningunni kom líka sundkennslan og í dag eru nánast allir Íslendingar syndir og við höfum siglt fram úr öðrum þjóðum hvað þetta varðar.

Bókin Sund er skreytt fjölmörgum myndum sem sýna sundlaugarnar frá ýmsum hliðum og margar eru bæði spennandi, lýsandi og einstæðar í sögulegu samhengi. Ótalmargt fleira, athyglisvert, skemmtilegt og íhugunarvert er að finna í þessari frumlegu og vel skrifuðu bók. Í Bandaríkjunum urðu sundlaugar til að mynda til að færa þjóðfélagshópa fjær hver öðrum en hér færir hún fólk saman. Í íslenskum sundlaugum mætast ráðamenn, þekktir einstaklingar, hvunndagshetjur, unglingar og börn. Allir eiga rétt á sínu rými í sundinu og öllum getur liðið vel svamlandi í heita vatninu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 26, 2024 07:00