Þótti vöðvarnir ekki smart

Lóló þjálfar og kennir sund alla daga.

Matthildur Rósenkranz Guðmundsdóttir, betur þekkt sem Lóló, vissi þegar hún var 7 ára gömul að hún vildi verða íþróttakennari þegar hún yrði stór. Hún man eins og gerst hafi í gær þegar hún fór í fyrsta íþróttatímann í Austurbæjarskólanum. Henni fannst eins og lykjust upp fyrir henni leyndardómar íþróttanna og hún hefur helgað sig líkamsræktinni síðan. Hún fór fljótlega að æfa sund og var komin í landslið Íslands í sundi 14 ára gömul. Hún keppti stíft allt þar til hún fór í íþróttakennaraskólann á Laugarvatni þegar hún var tvítug. Þá segist hún reyndar hafa verið orðin mjög vöðvuð af sundinu, sem henni þótti ekki mjög smart þá, þó viðhorfið sé annað í dag. Þá var hún á viðkvæmum aldri og útlitið farið að skipta meira máli enda tóku við tískusýningastörf sem hún sinnti til fjölda ára. Lóló lauk þar með keppnisferli sínum en segist sannarlega búa að því alla ævi að hafa æft sund því það sé eitt besta alhliða æfingakerfið sem við getum nýtt okkur.

Þjálfar fólk á öllum aldri

Lóló starfaði í nokkur ár sem flugfreyja og var í verslunarrekstri um tíma, rak tískuverslunina Plaza sem margir munar eftir, en líkamsræktin var alltaf ofarlega í huga hennar. Fljótlega fór hún að þjálfa fólk í einkatímum og stjórna líka  tímum í pilates tækni. Sundið hefur samt átt hug hennar alla tíð. Hún hefur boðið upp á ungbarnasund og hefur verið með ótal sundnámskeið fyrir fullorðna þar sem skriðsundið er tekið fyrir. „Okkur voru nefnilega ekki kenndar aðrar aðferðir en bringu-
og baksund og svo björgunarsund. Það var eins og gert væri ráð fyrir að við gætum bjargað okkur með því að busla nógu mikið en staðreyndin er sú að skriðsundið krefst mikillar tækni. Það verður enginn góður skriðsundsmaður nema fá leiðsögn en þá er björninn unninn og gamanið hefst fyrir alvöru,“ segir Lóló og er ansi kát þegar hún er minnt á að hún eigi fyrsta Íslandsmetið sem sett var í Laugardalslauginni alls fyrir löngu. Það setti hún í 100 m baksundi á vígslumóti laugarinnar sem var landskeppni við Danmörku.

Hreyfing er undirstaða vellíðunar

Lóló segir að sér henti einstaklega vel að vinna með fólki og eigi mjög gott með að sýna fólki fram á aðferðir til að líða betur. „Það er svo sérkennilegt að enn eru margir steinhissa á að þeir finni fyrir vöðvaverkjum og stirðleika í liðum en tengi það alls ekki hreyfingarleysi,“ segir Lóló. „En það er aldrei of seint að byrja. Starf mitt alla daga felst í því að fá fólk til að átta sig á að það þarf að gera hreyfinguna að lífsstíl til þess að við getum viðhaldið vellíðan. Það gerir ekkert gagn að taka skorpur og liggja svo í sófanum á milli. Markmiðið er alltaf að ná betri líðan og það gefur mér mikla gleði  að sjá fólk fara þægilega þreytt af æfingu með tilhlökkun  til næstu æfingar.”

Tekur lífinu fagnandi.

Svefn – næring – hreyfing

Lóló leggur mikla áherslu á að jafnvægi þurfi að vera á þessum þremur mikilvægu þáttum, svefni, næringu og hreyfingu, til að okkur geti liði vel. “Kúrar virkar alls ekki!“ segir hún og leggur mikla áherslu á orð sín. Hjá Lóló er sama fólkið gjarnan ár eftir ár  og hún segist fá gríðarlega mikið út úr því að sjá þegar vellíðan og árangur skilar sér hjá fólki við þjálfunina en
Lóló er einkaþjálfari í World Class í Laugum. „Við getum nefnilega haft svo mikið með það að gera sjálf hvernig okkur líður” segir hún.

Miðaldra

„Ef við gætum ekki að okkur er framundan tímabil stirðnunar og aumra liða þegar miðjum aldri er náð,“ segir Lóló sem er sjálf orðin 67 ára og býr að því núna að hafa hugsað vel um heilsuna. „Ég ráðlegg fólki alltaf að fara ekki of geyst af stað. Það er þessi sæta þreytutilfinning sem er svo góð. Við ættum alltaf að hafa í huga að leggjast aldrei á koddann á kvöldin án þess að hafa hreyft okkur eitthvað markvisst. Til að byrja með eru göngutúrar góðir og fljótlega fer fólk að vilja meiri hreyfingu af því það finnur góðu tilfinninguna sem fylgir hreyfingunni þótt hún sé ekki mikil.“ Lóló er með sundnámskeið fyrir fullorðna í Laugardalslaug og þaðan fara þakklátir viðskiptavinir hennar því í vatninu segir hún að sé mikið  ævintýri.
Tónlistin í blóðinu

Lóló er dóttir Guðmundar R. Einarssonar tónlistarmanns og Höllu Kristinsdóttur. Hún segist hafa verið alin upp við mikla tónlist og farið mikið á tónleika alla tíð, en ekki sinnt tónlistarnámi. Hún á tvo syni og fjögur barnabörn og segir að hún hafi alveg komið hreyfigenunum áfram því allt hennar fólk hafi áttað sig á mikilvægi hreyfingarinnar. Synirnir heita Orri, sem er ljósahönnuður og verkefnastjóri í Hörpu og Sindri sem er viðskiptafræðingur, en hann framleiðir útiíþróttafatnaðinn Frostwear.

Lífsstíls- og dekurferðir

Lóló er búin að fara tvær ferðir sem fararstjóri fyrir Úrval Útsýn til Spánar þar sem lögð er áhersla á göngur, slökun, teygjur, sund og pilates þjálfun og hún segir að þessar ferðir séu krydd í tilveruna hjá sér. Þar er dvalið á 5 stjörnu heilsu-spa hóteli. „Ég er að fara í eina slíka ferð nú í október og hlakka mikið til. Þá förum við upp í hlíðarnar við Alicante þar sem er líka stutt niður á strönd. Við byrjum æfingar eftir frábæran morgunmat og tökum daginn skipulega með þægilega hreyfingu sem meginþema og allir fara sælir heim,“ segir þessi lífsglaða kona!

Ritstjórn ágúst 18, 2017 15:32