Tengdar greinar

Táknmyndir minninganna þegar minnka á við sig

,,Ég naut þeirra forréttinda að vinna við aðhlynningu eldra fólks á menntaskólaárunum og fann þá út hvað sá hópur getur kennt okkur, sem yngri erum, gífurlega mikið,“ segir Sigríður Nanna Gunnarsdóttir sem nýverið stofnaði fyrirtækið Hyggja – innbúsþjónusta. Sigríður er upphaflega menntaður menningar- og listfræðingur en allt frá því að hún kynntist því að starfa með eldra fólki sem ung manneskja hefur hugur hennar leitað þangað ítrekað aftur. ,,Helsta fyrirmynd mín var hún amma mín sem kenndi mér að maður geti orðið það sem maður vill, að maður eigi að nýta tólin sem maður hafi og þá séu manni allir vegir færir,“ segir Sigríður.

Hyggja – innbúsþjónusta

Sigríður Nanna segist hafa óbilandi áhuga á lífi fólks og sögu þess, hönnun og skipulagi og fór að hugsa hvernig hún gæti sameinað þetta þrennt. ,,Ég hef sjálf flutt oftar en ég kæri mig um að muna allt frá því ég var barn og nýti þá reynslu núna,“ segir hún. Hún nefndi fyrirtæki sitt Hyggja – innbúsþjónusta en á pappírunum hjá skattinum heitir það flutningaþjónusta. Hyggja býður upp á alhliða þjónustu, sorteringu, pökkun, búslóðaflutning og flutningsþrif, aðstoð við endursölu og svo að auki frágang dánarbúa.

Gullkista af fróðleik

Ég minnist skemmtilegs atviks þegar ég var 17 ára á vakt á dvalarheimili þar sem ég var að vinna. Þar kynntist ég til dæmis Jóni E. Guðmundssyni myndlistarmanni og meistara í leikbrúðugerð en í samtali við hann og fleiri heimilismenn varð til grunnurinn að listasöguáhuga mínum sem ég menntaði mig síðar í. Einn daginn varð kokkurinn síðan fyrirvaralaust veikur en í matinn áttu að vera svið. Ég þurfti að taka að mér að elda matinn þennan dag en ég hafði staðið nokkar vaktir með kokkinum í eldhúsinu en hafði annars enga reynslu af matargerð. Mamma hafði verið á næturvakt svo ég gat ekki hringt í hana og amma var ekki viðlátin. Þá voru góð ráð dýr en allt í einu áttaði ég mig á að allir heimilismennirnir kynnu líklega að elda þennan mat. Ég bankaði þá að dyr nokkurra og auðvitað var í hópnum maður sem hafði verið kokkur á sjó alla tíð og allmargar húsmæður. Mér til bjargar komu þrjár manneskjur sem kunnu allt sem ég þurfti að kunna í matargerð og útkoman varð dýrindis sviðamáltíð fyrir þrjátíu manns. Nú kann ég að sjóða svið fyrir utan allt hitt sem þetta fólk kenndi mér og nýtist mér enn í dag.“

Hyggja, hugur, umhyggja

Fyrirtækið sem Sigríður Nanna hefur nú stofnað á sér fyrirmynd í öðrum löndum þar sem slík fyrirtæki hafa verið starfrækt árum saman og skapast hefur um þau rík hefð. Þau eru nefnd ,,estate sales“ þar sem fólk með fagþekkingu kemur heim til þeirra sem hyggjast selja og minnka við sig og allt er skoðað og metið. Síðan er það, sem fólk ætlar ekki að taka með sér á nýjan stað, selt. Þetta segist Sigríður Nanna vera sannfærð um að sé líka þörf fyrir á Íslandi. ,,Ég myndi sjálf ekki vilja að hver sem er kæmi inn á heimili mitt og færi að vasast í eigum mínum. Það er auðvitað mjög viðkvæmt fyrir marga og ég hef fullan skilning á því en ég veit að reynsla mín af því að vinna með fólki  mun nýtast mér þannig að allir njóti góðs af.“

Traust, sveigjanleiki og virðing

Þjónustan sem Hyggja býður upp á er allt frá því að pakka og selja og svo að flytja á nýjan stað. ,,Nafnið valdi ég af því það tengist orðnu umhyggja, það tengist líka áætlunum, það er að hafa í hyggju að…, og svo er þetta orðið hugur sem tengist heimilinu. Markhópurinn minn er mjög skýr þótt ég geti auðvitað líka tekið að mér verkefni fyrir yngra fólk sem hefur ekki tíma. En minn hópur er fyrst og fremst þeir sem eru að hugsa um að minnka við sig og ég veit að ég mun hafa mikið gaman af að aðstoða þann hóp. Það er auðvitað viðkvæmt þegar fólk er að hugsa um að flytja úr húsi þar sem börnin hafa alist upp í og dýrmætar minningar hafa orðið til. Það er mjög skýrt í huga mínum að þessi hópur þurfi fyrst og fremst traust, sveigjanleika og virðingu. Þau þurfa að geta treyst þeim sem kemur til að aðstoða, það þýðir ekki að bretta upp ermar og kýla hlutina í gegn og það þarf að bera virðingu fyrir lífi þeirra og eigum.“

Táknmyndir minninganna

Sigríður Nanna getur nýtt menntun sína vel við að koma auga á verðmæti í innbúi fólks. ,,Ég hef sjálf fallið í gildruna að safna að mér hlutum sem er ekki þess virði að geyma en líka borið gæfu til að geyma það sem hefur enn gildi fyrir mig, áratugum síðar. Það sama á við um flesta en margir þurfa aðstoð við að koma auga á verðmætin. Það geta verið tilfinningaleg verðmæti ekki síður en efnisleg og það á sannarlega ekki alltaf við að láta hluti frá sér. Þó erum við flest því marki brennd að geyma ýmislegt von úr viti sem við höfum enga þörf fyrir. Það er dótið sem fyllir geymslurnar en við lítum jafnvel ekki á árum saman,“ segir Sigríður Nanna sem heldur nú út í nýtt ár full bjartsýni um að þörf sé fyrir þjónustuna sem hún býður upp á.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 11, 2023 07:00