Tannlausum Íslendingum fækkar

Tannheilsa eldri Íslendinga virðist fara batnandi samkvæmt því sem kemur fram í Talnabrunni Landlæknisembættisins. Þar kemur fram að tæplega 85 prósent Íslendinga á aldrinum 18 til 44 voru með allar eigin tennur á síðasta ári samanborið við rúmlega helming árið 1990. Þá kemur fram að tannlausum Íslendingum fækkar. Á síðasta ári voru 3,6 prósent Íslendinga á aldrinum 18 til 79 ára tannlausir samanborið við tæplega 26 prósent árið 1990. Í Talnabrunni segir að heilbrigði tanna skiptir miklu máli fyrir almenna heilsu og vellíðan en ákveðinn lágmarksfjöldi tanna í hvorum gómi, sem miðast við 10, tennur, tryggir alla jafna viðunandi tyggingarfærni og tjáningu. Þó að eigin tönnum fækki jafnan með hækkandi lífaldri þá fjölgar jafnt og þétt í hópi 65-79 ára Íslendinga sem eru með 10 eða fleiri tennur í hvorum gómi. Er hlutfallið nú tæplega 50 prósent samanborið við tæplega 20 prósent árið 2000. Ef hópurinn er stækkaður og áttræðum bætt við eru um 44 prósent Íslendinga 65 ára og eldri með 10 eða fleiri tennur í hvorum gómi. Á síðasta ári voru tæplega 17 prósent Íslendinga á aldrinum 65 til 79 ára tannlausir samanborið við 67 prósent árið 1990. Það vekur athygli að á meðan flestir fara til tannlæknis að minnsta kosti einu sinni á ári fóru aðeins um helmingur 67 ára og eldri til tannlæknis á síðasta ári. Þá var engin samningur um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannlæknaþjónustu eldra fólks en nú er búið að semja og greiða SÍ um 50 prósent af tannlæknakostnaði. Ekki þó tannplöntum og krónum það greiðir fólk að langstærstum hluta sjálft. Í Talnabrunni segir að kostnaður vegna tannlækninga eldra fólks sem dvelur á sjúkrastofnunum eða hjúkrunarheimilum verði greiddur að fullu af Sjúkratryggingum frá og með síðustu mánaðamótum. Því sé raunhæft að ábyrgð á tannlæknaþjónustu eldra fólks á hjúkrunarheimilum færist frá aðstandendum yfir á heimilin sjálf. Þegar haft sé í huga að fjölgun í hópi eldra fólks er langt umfram fjölgun landsmanna almennt og fleiri halda eigin tönnum lengur sé vaxandi viðhaldsþörf tanna staðreynd. Unnið verði áfram að heildrænni stefnu í tannheilbrigðismálum eldra fólks en það sé ljóst að með endurskoðun á greiðsluþátttökukerfinu hafi hornsteinn verið lagður sem jafnar aðgengi eldra fólks að nauðsynlegri tannlæknaþjónustu og stuðli að betri tannheilsu þegar aldurinn færist yfir. Sjá nánar hér.

Ritstjórn september 4, 2018 09:21