Styrkur vegna tannplanta hækkar

Samkvæmt nýjum samningi Tannlæknafélags Íslands og Sjúkratrygginga hækkar styrkur vegna tveggja tannplantna úr 60 þúsund krónum á hverju tólf mánaða tímabili í 80 þúsund krónur.  Það sama gildir um tannkrónur. Endurgreiðsla vegna tannplanta/króna er því ekki hluti af nýja samningnum. Tannplantar og krónur eru mjög dýr aðgerð og ekki er óalgengt að fólk sem fær tannplanta í efri góm svo dæmi sé tekið greiði allt að þrjár milljónir króna fyrir það hér á landi. Hins vegar ef fólk er tannlaust og með lausa góma getur það fengið smellugóma og þá getur það sótt um að endurgreiðslan sem það fær vegna lausu gómanna gangi upp í smellugóma. Þá eru settir fjórir til sex tannplantar í hvorn góm og gómarnir skrúfaðir fastir. „Við hefðum svo gjarnan viljað að það yrði sett inn í samninginn að fólk fengi endurgreiðslu vegna tannplanta en það náðist ekki,“ segir Elín Sigurgeirsdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands. Hún segir að það muni hins vegar talsvert um það fyrir fólk að geta sett endurgreiðsluna sem það á rétt á  vegna lausra tanngóma upp í dýrari meðferð eins smellugómarnir eru.

Samningurinn tekur gildi 1. september næstkomandi. Í tilkynningu sem Sjúkratryggingar Íslands hafa sent frá sér segir að fyrir hvern og einn verði almenn greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna kostnaðar við tannlækningar samkvæmt samningnum 50 prósent af umsömdu verði. Í ákveðnum tilvikum svo sem vegna slysa og sjúkdóma geti hún orðið hærri , en mögulega lægri í öðrum tilvikum, svo sem vegna tannplanta og krónugerðar. Vegna öryrkja og aldraðra sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum verður hún 100 prósent af umsömdu verði.

Sjá nánar hér

Sjá ennfremur

Fleiri fá endurgreitt vegna tannlækninga erlendis

Tannlækningar á 50-70 prósent lægra verði í Búdapest.

Ritstjórn ágúst 28, 2018 07:39