Þurfum ekki að hafa brúnar og skakkar tennur þegar við eldumst

Erna Rún Einarsdóttir, lektor í tann- og munngervalækningum.

Erna Rún Einarsdóttir er lektor í tann- og munngervalækningum við Háskóla Íslands. Lifðu núna leitaði til hennar eftir upplýsingum um það sem gerist óhjákvæmilega með aldrinum varðandi tennur og hvað er til ráða.

“Tannslit á sér óhjákvæmilega stað með aldrinum af því tennur eru í stöðugri notkun,” segir Erna. “Eðlilegt slit á sér stað en munnhirða og góðar matarvenjur skipta mjög miklu máli til að við verðum ekki fyrir skertum lífsgæðum, munnþurrkur er einnig umtalsvert vandamál sem fylgir gjarnan lyfjanotkun, sem er jú algengari meðal fólks yfir miðjum aldri. Hann breytir aðstæðum í munni á þá leið að aukin hætta er á tannskemmdum.” bætir Erna við.

Hér áður fyrr segir Erna að ekki hafi verið lögð nógu mikil áhersla á að halda tönnunum hreinum og það hafi bara verið af því fólk vissi ekki betur. Nú sé öldin önnur og nú sjái tannlæknar oft fullorðið fólk með enga viðgerða tönn. “Fólk sem nú er komið yfir miðjan aldur horfist oft í augu við vandamál í munni sem geta skert lífgæði verulega en það er ekki bara af skorti á tannhirðu. „Slík vandamál koma fram hjá mjög mörgum þegar árunum fjölgar. Og það er eðlilegt en góðu fréttirnar eru að í dag getum við ráðið bót á mjög mörgum vandamálum í munni,” segir Erna

Eðlilegt slit

Erna nefnir sem dæmi að með tímanum geti tennur slitnað mishratt í sama munni. “Þegar slitið er komið í gegnum glerunginn er komið inn í mýkri tannvef sem er tannbeinið. Við þessu eru til mörg ráð,” segir Erna sem gefur okkur, sem komin eru á miðjan aldur og yfir, sannarlega von. En kostnaðurinn getur verið mikill og margir hafa freistast til að leita til útlanda til að fá lausnir á vandamálum sínum. “Auðvitað er víða fólk sem kann vel til verka og margir fá bót meina sinna en þó sjá tannlæknar hér því miður dæmi þar sem gerðar hafa verið óþarfa aðgerðir sem endast svo ekki þegar upp er staðið. Þá getur kostnaðurinn orðið mun meiri en til stóð í upphafi. Í þeim tilfellum hefði verið betur heima setið en af stað farið.” Erna leyfði okkur að birta myndir af dæmigerðum aðgerðum sem hún hefur séð um. Hún leggur áherslu á að hafa þurfi hugfast að best sé að vera í reglulegu eftirliti því tannvandamál séu oft einkennalaus og oft sé komið í óefni þegar bera fer á bólgum og verkjum. Fólk yfir miðjum aldri sé oft með mikið viðgerðar tennur og því með meiri vandamál en sá sem er með heilar tennur.

Umfangsmikil tannvandamál

Þegar tannvandamál eru orðin umfangsmikil segir Erna að nauðsynlegt sé að greina ástandið vel með ítarlegri skoðun og röntgenrannsóknum. Hún segir að meðferðaráætlun sé alltaf einstaklingsmiðuð og sérsmíðuð fyrir hvern og einn. „Þá er metið hvort tennur eru orðnar ónýtar eða hvort hægt sé að lægfæra eldri tennur með fyrirsjáanlegum hætti. Stundum er fólk með tannholdssjúkdóm sem þarf að meðhöndla áður en haldið er í frekari meðferð. Frekari meðferð gæti til dæmis falist í tannréttingu og stundum þurfi að setja krónur.

Samanburður á gómum

Erna segir að þegar fólk hafi tapað tönnunum sínum þá sé hefðbundin meðferð við því gervigómar.

Gervitennur eru laus tanngervi sem sitja á slímhúð munns sem í gamla daga var kallað “falskar tennur”. Erna segir að gervitennur geti valdið óþægindum og haft neikvæð áhrif á daglegt líf eins og los og hreyfingar við tal og tyggingu og særindi í slímhúð en við því séu líka ráð.

“Eftir tilkomu tannplanta upp úr miðri síðustu öld hefur kostum fjölgað sem fólk hefur þegar um tannleysi er að ræða,” segir Erna. “Möguleiki er að nota tannplanta sem fastar stoðir undir fastskrúfaða brú sem situr þá ekki á slímhúðinni og líkir meira eftir eigin tönnum. Við undirbúning slíkrar meðferðar er nauðsynlegt að gera ítarlega skoðun, greiningu og viðeigandi röntgenrannsóknir.” Erna tekur fram að ekki sé um að ræða að eitt passi fyrir alla svo nauðsynlegt sé að efnisval í fastar brýr sé ígrundað af tannlækni sem gefur ráð í hverju tilfelli fyrir sig. Síðan sé meðferð alltaf ákveðin í samráði við sjúkling.

 

Tilfelli 1 Kona á sextugsaldri.

Hérna var um að ræða konu á sextugsaldri sem óskaði eftir bættri tannheilsu og útliti.

Konan var heilsuhraust. Við skoðun var hún með flestar eigin tennur til staðar en hafði tapað nokkrum. Tennurnar voru þó mikið viðgerðar og sumar niðurbrotnar alveg niður að tannholdi. Hún var einnig með nokkrar gamlar postulínskrónur sem stungu verulega í stúf hvað varðar litasamsvörun. Gerð var ítarleg skoðun og greining á tannástandi hennar.

Meðferð:

Meðferð var ákveðin í fullu samráði við sjúkling eftir útskýringar tannlæknis á meðferðaráætlun og kostnaði.

Vegna ástands tanna og litamismuns var ákveðið að gera postulínskrónur á eftirstandandi tennur í efri kjálka. Tannplantar voru græddir þar sem tennur vantaði og postulínskrónur festar við þá eftir græðslu.

Myndir sýna fyrir meðferð og eftir.

Tannsmiður: Nondas Vlachopoulos, CDT

 

Tilfelli 2 Maður á áttræðisaldri.

Hérna var um að ræða mann á áttræðisaldri sem óskaði eftir bættri tannheilsu og útliti. Hann var nokkuð heilsuhraustur en hafði þó nýverið stigið uppúr alvarlegum veikindum. Við skoðun var hann með langflestar eigin tennur til staðar, hafði tapað þremur tönnum. Tennurnar hans voru þó mikið slitnar og sumar niðurbrotnar alveg niður að tannhold. Gerð var ítarleg skoðun og greining á tannástandi sjúklings.

Meðferð:

Meðferð var ákveðin í fullu samráði við sjúkling eftir útskýringar tannlæknis á meðferðaráætlun og kostnaði. Þótt hans eigin tennur væru mikið niðurbrotnar þá voru til staðar sterkar tannrætur sem hægt var að byggja á. Gerðar voru postulínskrónur á allar tennur í efri kjálka. Tannplantar voru græddir þar sem tennur vantaði og postulínskrónur festar við þá eftir græðslu.

Myndir sýna fyrir meðferð og eftir.

Tilfelli 3 Kona á sextugsaldri.

Hérna var um að ræða konu á sextugsaldri sem óskaði eftir bættri tanheilsu og útliti. Hún var heilsuhraust. Við skoðun var hún tannlaus með öllu en slímhúð var heilbrigð. Hún hafði lent í því óhappi að týna gervitönnum sínum.

Meðferð:

Meðferð var ákveðin í fullu samráði við sjúkling eftir útskýringar tannlæknis á meðferðaráætlun og kostnaði. Gervitennurnar voru gerðar á stafrænan máta fyrir sjúkling. Sú tækni er ný af nálinni og er ennþá í mótun. Meðferðin heppnaðist gríðarlega vel og hún var himinlifandi eftir meðferð.

Myndir sýna fyrir meðferð og eftir.

Tennur gerðar í samstarfi við Avadent Digital Dental Solutions.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 5, 2021 07:26