Það á ekki að refsa fólki sem vill vinna

„Ef maður er fullfrískur og vill vinna, hvers vegna ekki?“, segir Birgir Þórðarson leiðsögumaður, en hann hóf nýjan starfsferil eftir að hann hætti störfum hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands rúmlega sjötugur.  Hann segir að Heilbrigðiseftirlitið hafi haldið því að starfsmönnum sínum að huga  vel að undirbúningi starfsloka og það hafi verið farið að ympra á málinu þegar hann var 65 ára. Þegar hann var orðinn sjötugur, varð úr að hann tæki að sér ákveðið verkefni fyrir Heilbrigðiseftirlitið, eftir að því lauk hætti hann  svo störfum þar.

Vissu ekki hvað umhverfismál snerust um

Birgir var gerður að heiðursfélga í Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa á síðasta ári

Birgir var gerður að heiðursfélga í Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa á síðasta ári

„Þá var ég farinn að velta fyrir mér ferðamennskunni, en fyrir löngu síðan eða á árunum árið 1964 –’69 vann ég hjá Loftleiðum um hríð.  Það var í millibilsástandi áður en ég fór í framhaldsnám til Kanada í umhverfis- og skipulagsfræði. En þegar ég kom heim frá námi skildi enginn hvað ég var að tala um „umhverfisfræði“.  Menn töldu helst fyrir mig að fara vinna við  landgræðsluna eða skógrækt, en það var um það bil það, sem umhverfismál á Íslandi snerust um á þeim tíma“, segir Birgir sem ákvað að fara aftur til Kanada á meðan menn væru að átta sig á því á Íslandi hvað umhverfismál væru.

Fyrsta umhverfisverkefnið var á Keflavíkurflugvelli

Heimkominn fór Birgir að vinna í fiski, en sá þá auglýsingu frá Hollustuvernd ríkisins þar sem auglýst var eftir sérfræðingi í hávaðaverndarmálum. Verkefnið var á Keflavíkurflugvelli og snerist um að mæla hávaða frá flugumferð. Það hentaði honum vel, því hann hafði einmitt skrifað ritgerð  í náminu um hávaða frá flugvellinum í Montreal.  Þegar verkefninu á Keflavíkurflugvelli lauk, ílentist Birgir hjá Hollustuvernd.  Hann starfaði við mengunarvarnamál, eiturefnavarnir, úrbætur í sorphirðu og fleira og sá meðal annars um að koma Norræna umhverfismerkis kerfinu á hér á landi í samstarfi við þáverandi viðskiptaráðuneyti, en þetta var fyrir daga umhverfisráðuneytis á Íslandi.

Birgir segir öfluga ferðaþjónustu á Suðurlandi

Birgir segir öfluga ferðaþjónustu á Suðurlandi

Ein reglugerð varð að næstum 200

Hann varði stærstum hluta starfsævinnar í umhverfismálin.  „Ég var í 8 ár hjá Hollustuvernd, þegar ég hóf störf voru í gildi hér ein lög á sviði umhverfis- og hollustháttamála, Lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og ein heilbrigðisreglugerð sem byggði á þeim. Fjótlega bættust við þrjár reglugerðir, um mengunarvarnir, matvælaeftirlit og mjólkurframleiðslu. Síðar komu EES reglugerðarbálkarnir á færibandi, ég taldi reglugerðirnar þegar ég hætti og þá voru þær orðnar hátt í 200, flestar mjög sértækar“.

Eiturefni fengust í kaupfélaginu

Birgir segir að mestu breytingarnar í umhverfismálunum hafi orðið í sorphirðumálum, fráveitumálum og notkun eiturefna. Þegar hann hóf störf, voru steyptar gryfjur fyrir úrgang eða ruslinu fleygt í sjóinn. „Það var bara kveikt í þessu og reykjarbólstrar voru alls staðar. Fráveitu hreinsivirki  þekktust ekki. Holræsamálin voru þannig að það lágu rör úr öllum bæjum niður í næstu fjöru eða á.  Íslendingar voru t.d. enn að nota PCB kælimiðla í alla stærri rafspenna, en þá var búið að banna efnið í flestum löndum.  Það var  t.d. hægt að kaupa eiturefni til sauðfjárbaðana í kaupfélaginu. Það var notað við sauðfjárböðun, en við losun á baðvatninu í bæjarlækinn drapst allt lífríkið  í læknum og menn furðuðu sig á hvað hefði orðið um alla fiskana í læknum“, segir hann.

Leitaði aftur í ferðamennskuna

Norðurljósin seljast grimmtog engin furða

Norðurljósin seljast grimmt og engin furða

„Ég ákvað svo að skipta yfir í heilbrigðiseftirlit og fara frá Hollustuvernd.  Var orðinn þreyttur á sífelldum ferðalögum erlendis í tengslum við starfið.  Það var auglýst starf heilbrigðisfulltrúa á Selfossi og ég var svo heppinn að fá það. Það var lúxusvinna að vera heilbrigðisfulltrúi og ég fór um allt hálendið, til dæmis við að undirbúa starfsleyfi fyrir virkjanir.  Ég hafði farið í nám um  mat á umhverfisáhrifum framkvæmda  í University of Aberdeen í Skotlandi og kom það sér vel við starfsleyfavinnslu og umsagnir um umhverfismat t.d. virkjana á Suðurlandi“, segir Birgir.  „Ég hafði alltaf haft gaman af að fara með fólk um landið og segja frá og þannig leitaði ég aftur í ferðamennskuna. Mér finnst gaman að vinna og horfði á þessa byltingu í ferðaþjónustunni sem er mjög öflug á Suðurlandi. Þróunin hófst þar fyrir rúmum 20 árum. Heilbrigðiseftirlitið þjónustaði mörg af fyrirtækjunum,  þannig að ég sá hvað ferðaþjónustan var í góðri þróun“.

Að vera á réttum stað á réttum tíma

Birgir fór því í Ferðamálaskóla Íslands, en það er einkaskóli, sem hann segir bæði skemmtilegan og góðan skóla. „Þar var ég í tvo vetur og fékk réttindi bæði sem leiðsögumaður innanlands og fararstjóri erlendis“. Birgir sem hefur eins og aðrir ákveðnar áhyggjur af uppbyggingu innviða í ferðaþjónustunni segir að það hafi verið mikið að gera í leiðsögn í sumar. „Ég er búinn að vera alveg á fullu síðan ég byrjaði sem leiðsögumaður, en það er full mikið að fara ferð eftir ferð án hlés. Ég veiti leiðsögn bæði á norsku og ensku og hef mikið verið með japanska hópa. Það reynir oft á tímastjórnun í þessum ferðum,  að vera á réttum stað á réttum tíma og ef hópurinn er stór getur það verið snúið. Eins þarf alltaf að hafa öryggismálin í fyrirúmi, svo fólk fari sér ekki að voða. Ég hef hugsað mér að starfa við þetta áfram, en í hófi“.

Ásamt japönskum samstarfsmönnum

Ásamt japönskum samstarfsmönnum

Vitlaus hagfræði að refsa fólki fyrir að vinna

En Birgir segist vera búinn að fá bréf frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem honum var tilkynnt að hann þyrfti að greiða ellilífeyrinn tilbaka. „Já þeir voru snöggir að senda  ávítunarbréf strax um mitt ár, það var ekkert verið að bíða eftir áramótum og hugsanlegu tekjuuppgjöri !  Þeir kröfðust þess að ég borgaði megnið af ellilífeyrinum  tilbaka, ég þénaði of mikið í leiðsögninni. Merkilegast er að með því að vinna borga ég 1,5 sinnum meira  í skatt af vinnunni en ég fæ í lífeyri ! Þetta verður að lagfæra, þannig að fólki sé ekki refsað fyrir að vinna. Það eru margir sem reka sig á þetta og þetta er hreint arfa vitlaust út frá hagfræðisjónarmiðum. Ég er ekki að tala um að eldri borgara vinna  eigi að vera skattfrjáls, en það á ekki að refsa fólki sem hefur gott og gaman af að vinna. Mér finnst reglurnar skrítnar, frekar heimskulegar og vonandi kemur ný ríkisstjórn einhverri glóru í þetta mál, þannig að einstaklingar sem eru sæmilega frískir og vinnuglaðir megi halda áfram störfum sem þeim líkar, á efri árum“.

Lækningajurtir og hómópatía

Heilsudrykkir eru ær og kýr Birgirs

Heilsudrykkir eru ær og kýr Birgis

Birgir fór óvenjulega leið í námi. Þegar hann var ungur drengur var hann í sveit á sumrin og fékk þar landbúnaðar- og ræktunar áhuga og fór í Bændaskólann á Hólum. Þaðan fór hann í garðyrkjunám í Noregi og seinna til náms í Kanada.  Hann hefur mikinn áhuga á lækningamætti jurta og var nýlega  fyrirsæta í auglýsingu, þar sem hann auglýsir sænska mjólkursýrugerilinn Probi Mage LP299V®,  en það er einn af þessum góðu meltingargerlum segir hann, sem virkar svo sannarlega.  „Ég hef reyndar menntað mig í hollustufræðum jurta og lærði hómópatíu um tíma þó ég lyki því námi að vísu ekki“.

Góð ristilheilsa mikilvæg

Birgir segir að Probi Mage LP299V® gerillinn sé ristilheilsumál. „Góð melting og hraustur ristill er einn grunnurinn að góðri líkamlegri og andlegri heilsu. Þess vegna fékk ég áhuga á sænska gerlinum. Það hafa verið gerðar miklar rannsóknir á honum, með mjög jákvæðum niðurstöðum varðandi virkni og gæði.  Gerillinn gerir meltinguna betri, jafnari  og kemur í veg fyrir hægðavandamál“, segir hann.  Og þar með er ekki öll sagan sögð af heilsufarsáhuga Birgis, því hann hefur þróað margar tegundir af lífrænt vottuðum jurtadrykkjum, sem „bruggmeistari“ hjá sprotafyrirtækinu Arctic Mood , sem  fást í verslunum  undir merkinu Arctic Mood. Þar á meðal er Flensute, sem margir hafa áreiðanlega mikinn áhuga á, á þessum árstíma.

 

 

 

Ritstjórn nóvember 11, 2016 11:21