Vegferð flókinna fyrirmæla

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar  

Um daginn var ég að fara í viðtal snemma morguns. Maðurinn minn, fullur umhyggjusemi, bauðst til að aka mér. Ég var að fara á stað þar sem ég þekkti mig illa. Ég var auðvitað mjög þakklát, þetta einfaldaði lífið fyrir mig – hélt ég þá. Jafnframt vissi ég að hann var spenntur að prófa nýtt GPS-app – staðsetningarfyrirbæri sem hann hafði fengið í nýja símann sinn. Hófst svo ferðin í slyddu og myrkri. Leiðsegjandinn í staðsetningarappinu hafði karlmannsrödd en heldur fannst hún hraðmælt og óskýr, þar sem ég sat í framsætinu. Leiðsegjandinn tilkynnti með stuttu millibili hvort beygja ætti til vinstri eða hægri og líka varð honum tíðrætt um „roundabout“ það er hringtorg.

Ferðin sóttist ágætlega og maðurinn minn beygði samviskusamlega eftir fyrirmælum og fór út úr á réttum stöðum á hringtorgunum. Ökum við sem leið lá út fyrir Hafnarfjörð. Rétt áður ræddum við um svona app og hversu þau auðvelduðu líf ferðafólks. Ég var samt eitthvað að tauta um að ég vildi nú hafa hönd í bagga með appinu, ekki láta það alveg ráða fyrir mig. „Það er sko óþarfi að vantreysta því, þetta er mjög skemmtileg uppfinning,“ sagði maðurinn minn. Varla hafði hann sleppt orðinu þegar ég sá það eina sem ég vissi um áfangastaðinn, beygju á vegi sem lá inn í íbúðarhverfið. Því miður kafnaði rödd mín í hátíðlegum yfirlýsingum leiðsegjandans sem fyrirskipaði að því er best var heyrt að næst ætti að beygja út úr hringtorgi. Í trausti þessara upplýsinga ók maðurinn minn áfram og ég bjóst við að á hverri stundu kæmi í ljós nýtt hringtorg. En það bara gerðist ekki.

Segir svo ekki af ferðum okkar fyrr en við vorum komin að Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar var fyrst hægt að snúa við og fara til baka að beygjunni sem við höfðum farið framhjá vegna óljósra fyrirskipana leiðsegjandans, sem því miður var alltaf svo mikið niðri fyrir að hann gaf jafnan tvær fyrirskipanir í einu. Á leiðarenda komumst við heilu og höldnu, hálfri klukkustund of sein. En það var svo sem allt í lagi, af þessu dró maður „lærdóm“, einsog nú er mjög í tísku að segja ef eitthvað fer aflaga.

Eftir að ég hafði lokið viðtalinu og dóttir mín hafði sótt mig þá barst talið að leiðsegjaranum í símanum. „Það veitir ekki af að tveir séu í þessu, annar sem hlustar á fyrirskipanirnar og hinn keyrir. Ég skil vel að ekki sé hægt að gera þetta hvort tveggja í einu. Það er ómögulegt,“ sagði dóttir mín þegar ég lýsti ferð okkar um morguninn. Hún hefur ásamt manni sínum oft ekið langar vegalengdir í útlöndum og notast þá við GPS-app.

Vegna þessarar reynslu fór ég að hugsa um öll slysin á ferðamönnum. Kannski eiga einhver þeirra rót sína í að bílstjóri, sem er til dæmis einn í bíl, er svo önnum kafinn við að fylgja flóknum fyrirmælum appsins í símanum að hann getur varla fylgst með umferðinni. Það er stundum erfitt að gera allt í einu. Ég nefni þetta í þessum pistli vegna þess að margt fólk sem er hætt að vinna og hefur allt í einu fleiri tækifæri til að ferðast á ókunnum slóðum gæti hugsanlega dregið „lærdóm“ af Reykjanesbrautarferðinni sem við hjónin fórum í. Sem sagt – samkvæmt upplýsingum dóttur minnar er heppilegra að æfa sig áður en lagt er af stað, fara stuttar ferðir þar sem annar þýðir og áframsendir fyrirmæli appsins meðan hinn keyrir og fylgist með umferðinni. Þá er líklegra að fólk komist óskaddað á áfangastað án þess að leiðsegjarinn setji það ekki alveg „út af laginu“.

 

Guðrún Guðlaugsdóttir febrúar 18, 2019 10:41