„Það er eitthvað mikið að honum Steingrími“

Guðrún Guðlaugsdóttir

Ættarmótið er áttunda bókin um Ölmu blaðamann, eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur.“ Alma sem er ákaflega forvitin hefur nú í bókunum átta fengist við ýmiss konar glæpi og beitir óhefðbundnum aðferðum í rannsóknum sínum. Hún á það til að kíkja á glugga hjá fólki og snuðra heima hjá mönnum. Stundum kemst hún inná fólk af því hún er blaðamaður og siglir þá undir fölsku flaggi. Hún er hlédræg manneskja sem hefur glímt við þrálátt atvinnuleysi, þar sem fjölmiðlaheimurinn er stöðugt að breytast“, segir Guðrún, þegar hún er spurð um Ölmu. Í þessum átta bókum líður tíminn og á meðn hefur Alma gengið í gegnum ýmislegt, alveg eins og annað fólk gerir á löngum tíma. „Hún er búin að taka áttir í lífinu eins og fólk gerir gjarnan á miðjum aldri“, segir hún. „Það leiddi til þess að hún fór út í framhjáhald. Þá komst hún að því að eiginmaðurinn hafði líka haldið framhjá. Hún skildi við hann og eignaðist elskhuga, en náði eftir miklar þrengingar saman við eiginmanninn aftur. Það segir sig sjálft að slíkt hefur áhrif á eina blaðakonu“, segir Guðrún.  En hér er gripið niður í upphafskafla bókarinnar.

Í myrkrinu skynjaði Alma hreyfingar í kringum sig og lyktina af matnum sem beið á diskunum. Fólk hafði sumt ekki lokið við aðalréttinn, lambagúllas. Einstaka manneskja var jafnvel enn að borða forréttinn, rækjukokteil. Sá réttur var í uppáhaldi hjá Steingrími.

Ættarmótsnefndin hafði ákveðið að hafa óskir Steingríms að leiðarljósi á þessu vel undirbúna ættarmóti Skeggjastaðaættarinnar. Alma þakkað guði í huganum fyrir að brátt yrði þessari samkomu lokið og hún gæti aftur náð almennilegu sambandi við eiginmann sinn. Gunnar hafði vart um annað hugsað en ættarmótið í margar vikur- raunar í marga mánuði. Hann var beinlínis orðinn rauðeygður af að grína í Ipadinn í leit að fróðleik um Skeggjastaðaættina.

Sem betur fer voru ræðuhöldin nú að baki. Steingrímur hafði verið lofaður í hástert og komið var að hápunkti kvöldsins – söng Oktavíu og kynningu á henni fyrir ættarmótsgestum. Alma hlakkaði til að sjá svipinn á ættarsamkundunni við þá athöfn. Oktavía var sannkallað launbarn sem eginn af skyldfólkinu hafði vitað að væri til, hvað þá séð.

Í lok dagskrárinnar ætlaði Steingrímur svo að ávarpa samkomuna

„Sennilega þakka fyrir þá sæmd sem verið var að sýna honum, „ ályktaði Alma.

Að ávarpinu loknu yrði borðum ýtt til hliðar, hlaðborðið fjarlægt og dans myndi hefjast við fjöruga harmónikutónlist. – Harmónika var uppáhaldshljóðfæri Steingríms.

Alma var að hugsa um hve langt var síðan hún hafði síðast dansað þegar ljósin voru skyndilega kveikt. Háborðið blasti við í hvítu ljósinu. Fólkið í ættarmótsnefndinni horfði píreygt út í salinn – allt nema Steingrímur sem var undarlega starandi og þrútinn í andliti. Engu var líkara en hann næði ekki andanum.

Ölmu brá afskaplega.

„Það er eitthvað mikið að honum Steingrími,“ hrópaði hún og stóð svo harkalega upp af stól sínum að hann valt um koll.

Þetta virtust orð að sönnu. Feitlagni, gráhærði maðurinn fyrir miðju háborðinu var orðinn rauður í framan og það korraði í honum. Hann fálmaði með annarri hendi fram á borðið en með hinni studdi hann við háls sér.

„Maðurinn er að kafna! Sláið fast í bakið á honum,“ kallaði Alma hátt. Gunnar, maður hennar, horfði litla stund með ráðleysi og skelfingu á föðurbróður sinn, eins og hann tryði ekki eigin augum. Tók svo á sig rögg og sló snöggt og harkalega á bak hans.

Fólkið í salnum starði á það sem fram fór við háborðið. Það sat á víð og dreif um salinn, þeir nákomnu saman í hóp. Við borðið næst Ölmu sat þó bara einn maður: Jim Narov bandarískur laxveiðimaður sem Bergur Jónsson, lögmaður og formaður Veiðifélags Laxfiskár, hafði auðmjúklega spurt Gunnar hvort væri í lagi að kæmi á ættarmótið.  Jim Narov langaði að sögn Bergs til að fá að sjá og heyra hvernig íslensk ættarmót færu fram. Alma leit örsnöggt á Bandaríkjamanninn. Augljóslega leist honum ekki á blikuna. Þetta var eitthvað sem hann hafði varla búist við að sjá í hinu margrómaða íslenska ættarsamfélagi.

„Ekki lái ég manninum þótt honum sé brugðið,“ hugsaði Alma og tók aftur að fylgjast með því sem gerðist á sviðinu.

Í stað hins auglýsta skemmtiatriðis – hápunkti kvöldsins – blasti við ættarmótsgestum hræðileg sjón í björtu ljósinu. Ættarhöfðinginn og afmælisbarnið, Steingrímur Skeggjason frá Háuvöllum í Þingeyjarsýslu, barðist fjólublár í andliti við að ná andanum og högg Gunnars á bak honum virtist ekki ætla að hjálpa.

Skyndilega seig Steingrímur niður og á samri stundu sýndist ljóst að maðurinn var í lífshættu staddur.

Gunnar barði aftur, nú mjög harkalega, á bak föðurbróður síns með þeim árangri að hann féll með andlitið ofan í matardiskinn svo að brún sósan úr pottréttinum skvettist í allar áttir. Glasið með rauðvíninu valt og rautt vínið litaði hvítan dúkinn.

„Hringið í 112 strax,“ hrópaði Bergur lögmaður um leið og hann stóð upp“.

Ritstjórn nóvember 29, 2021 09:04