Einar blaðamaður snýr aftur

Hörkuspennandi bók.

Hörkuspennandi bók.

Einar blaðamaður á Síðdegisblaðinu snýr aftur í nýrri bók Árna Þórarinssonar, 13 dagar. Sagan hefst á því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir 15 ára stúlku. Ljósmyndin af stúlkunni sem lýst er eftir snertir viðkvæma strengi í brjósti Einars blaðamanns. Eitthvað í svipnum minnir hann á hans eigin dóttur þegar hún var yngri og saklausari. En nú er Gunnsa sest við hlið föður síns á Síðdegisblaðinu og vill fá að rannsaka sögu horfnu unglinganna. Við grípum hér niður í bókina.

„Hvers vegna vildir þú ekki að ég tæki myndir af líkinu?“ spyr Gunnsa þegar við nálgumst bílastæðið við félagsheimilið. „Hvað var svona svakalegt að ég mátti ekki sjá það?“

Ég stillti mig um að svara seinni spurningunni. „Við erum með myndir af lögreglunni að störfum á vettvangi. Það er nóg. Við birtum ekki ljósmyndir af líkum.“

„Þegar maður opnar blöðin, Síðdegisblaðið meðtalið, er allt morandi í líkmyndum frá útlöndum.“

Sigurbjörg brosir dauft til mín. Hún þekkir umræðununa um tvískinnung íslenskra fjölmiðla jafn vel og ég. „Já,“ segir hún. „Lík í útlöndum eru annað mál. Þau eiga yfirleitt ekki aðstandendur meðal lesenda Síðdegisblaðsins.“

„Hvernig myndi þér líða, Gunnsa mín, ef þessi karl hérna  yrði keyrður niður og einhver sem ætti leið hjá smellti af mynd út um bílglugga?“

Hún horfir á mig alvörugefin.

„Fyndist þér allt í lagi eða sjálfsagt að fjölmiðill birti þá líkmynd?“

Ég sé á svip dóttur minnar að þessari umræðu er ekki lokið í bili. Hún hefur brynjað sig upp í blaðamann sem segir frá því sem hann sér og veit sannast. Ég gat einnig gert það þegar ég byrjaði í faginu. Hún hefur hlustað á mig fjasa um þetta fram og til baka. Núna er brynjan mér þrautin þyngri. Inni í brynjum eru manneskjur, jafnvel blaðamenn, jafnvel lögreglumenn, jafnvel glæpamenn.

Nokkur hópur fólks hefur safnast saman á stæðinu þar sem druslan mín má sín lítils innan um bíla frá lögreglu og sjúkraliði. Það er forvitnissvipur á andlitunum. Sumir virðast spenntir og reiðir.

„Ekki lengi að spyrjast út,“ segi ég við Sigurbjörgu. „Voða fer fólk hér snemma á fætur.“

Ég lít yfir snotra byggð lítilla einbýlishúsa á hæðunum við jaðar dalsins.

„Einhverjir hafa sjálfsagt vaknað við sírenuvælið,“ svarar hún. „Svo er kannski farið að hringja á milli húsa.“

Ýmsir viðstaddra eru snöggklæddir, jafnvel í náttbuxum undir frökkum og kápum. Tveir einkennisklæddir lögreglumenn stöðva alla þá sem reyna að komast niður í dalinn. Einhverjir ávarpa löggurnar og vilja fá að vita hvað gerst hafi. Þeir fá engin svör og fussa og sveia og spyrja hvort skattborgarar eigi ekki rétt á að vita hvað gerist í þeirra nánasta umhverfi.

„Eru ekki upplýsingalög í þessu landi?“ spyr æst kona á miðjum aldri.

„Höfum við nágrannarnir engan rétt?“ segir ungur maður í náttskyrtu yfir svörtum buxum.

Gunnsa þokar sér til hliðar og tekur myndir af mannsöfnuðinum.

Tvær konur og einn karl eru á spjalli við mann á fimmtugsaldri með grásprengt hár udnir svartri prjónahúfu. Hann er í íþróttaskóm, klæddur í gráar buxur og rúllukragapeysu og skærgrænan misstisjakka sem rennt er upp að bringu. Skyldi hann vera nágranninn sem hringdi inn tilkynninguna? hugsa ég rölti til fólksins.

Fyrirgefiði. Einar heiti ég, á Síðdegisblaðinu.“ Ég sný mér að manninum. „Varst þú sem fannst hana og tilkynnir til lögreglunnar?“

Ég átta mig ekki á því að ég hef talað af mér fyrr en spurningar berast úr öllum áttum. „Hana?“

„Hvaða hana?“

„Er lík af konu hér fyrir neðan?“

„Var hún myrt?“

Maðurinn hristir höfuðið. Hann virðist kurteis og yfirvegaður. „Ég get ekkert sagt,“ segir hann stillilega. „Lögreglan bað um segja ekki neitt.“

Ritstjórn nóvember 11, 2016 11:44