Edda Valborg Sigurðardóttir
Grafískur hönnuður og myndlistamaður skrifar
Eitt af mínum hjartans málum var að ala börnin mín upp við að þekkja og kunna móðurmálið ylhýra þótt við byggjum í enskumælandi landi. Það var á stundum ekki auðvelt að vera sú eina á svæðinu sem talaði íslensku við þau, ólíkt því sem kann að vera ef fólk býr á öðrum Norðurlöndum og/eða í nábýli við aðra Íslendinga. Það var heldur ekki auðvelt fyrir þau að vera öðruvísi en allir hinir. Þetta gekk oftast vel, en það kom fyrir að mamman fór yfir strikið og skapaði smá pirring þegar minnt var á að tala íslensku.
Þeir sem ekki hafa upplifað það að ala börn sín upp erlendis skilja oft ekki hve snúið það getur verið að halda þeim við efnið þar sem þau lifa í þeim heimi sem umkringir þau í leik og skólastarfi. Tungumálið sem er allt um kring verður þeim því eðlilegri tjáningarmáti og móðurmálið fellur í skuggann – nema þegar mamma segir án afláts „Við tölum íslensku hér“.
Að lesa fyrir þau íslenskar bækur var mikilvægt og þar lærðu þau muninn á lesmáli og talmáli sem oft er svo ólíkt. Við skemmtum okkur gjarnan við íslensk orðatiltæki; að bíta á jaxlinn, að draga einhvern að landi, að slá tvær flugur í einu höggi o.s.frv.
Íslendingar sem búa á Íslandi eru oft yfir sig hissa ef börn Íslendinga sem hafa alist upp erlendis tala ekki íslensku og skilja jafnvel ekki málið. Það er hins vegar alls ekki sjálfgefið að það takist að halda þeim við efnið – af ofangreindum ástæðum.
Mér tókst að koma því inn hjá börnunum mínum að það væri flott að kunna annað tungumál og að við værum ríkari fyrir vikið. „Það er flott að vera öðruvísi,“ sagði mamman og smátt og smátt urðu þau mér sammála. Fyrir vikið tala þau öll ljómandi góða íslensku sem fullorðið fólk og leggja áherslu á að kenna börnunum sínum málið líka, þar sem þau búa öll erlendis.
Í dag eru þau þakklát fyrir að okkur tókst í sameiningu að ná þessu takmarki. Eitt barnanna minna fór í nám við Háskóla Íslands og þó að hann lenti stundum í smá skilningsleysi tókst honum samt vel upp og stóð sig ekki síður en samnemendurnir.
Ég stenst ekki mátið að skýra frá þessari persónulegu upplifun þegar horft er til þess sem virðist vera efst á baugi um þessar mundir: Er íslensk tunga á undanhaldi?
Hér í eina tíð voru lög þess efnis að fyrirtæki og verslanir máttu ekki heita nema íslenskum nöfnum. Þótt ég sé ekki mikið fyrir boð og bönn þætti mér það ekki óvitlaust að setja einhverjar skorður við enskunni sem alls staðar flæðir, hvort heldur er á veitingastöðum og verslunum þar sem þjónusta er aðeins í boði á ensku eða á upplýsingaskiltum og vefsíðum sem eru eingöngu á ensku – svo ekki sé minnst á heiti fyrirtækja í landinu, eins og nýjustu fréttir herma.
Ég nefni þó nokkur fyrirtæki sem hafa notað íslensk heiti og gera það gott – Kormákur og Skjöldur er vinsæl verslun í Reykjavík , einnig veitingastaður sem nefnist Matur og drykkur, staðsettur í alfaraleið sem ég er viss um að erlendir gestir sækja þrátt fyrir íslenskt heiti. Það er líka vert að hæla þeim íslensku tónlistarmönnum sem kjósa að flytja sín verk á íslensku þó svo að stefnt sé á erlenda grund til vinsælda.
Hrædd er ég um að mörg dásamleg og lýsandi íslensk máltæki séu ekki lengur í tísku hjá fólki, en hvers vegna getur eitt lítið þjóðfélag ekki tekið sig saman um að vera mamman sem segir „við tölum íslensku hér“?