Tengdar greinar

Einar Örn Stefánsson

Halda mætti að Einar Örn Stefánsson væri margir menn því svo víða hefur hann komið við í íslensku samfélagi. Hann er nú orðinn sjötugur en eftir að hann hætti að vinna reglulega 9-5 vinnu fyrir fimm árum hefur hann haft mikið að gera og hefur alltaf eitthvað skemmtilegt fyrir stafni.

Framkvæmdastjóri og fréttamaður

Einar var aldrei lengur en átta ár á sama vinnustað og segir það ágætis viðmið fyrir þá sem vilja hafa fjölbreytni í lífi og starfi í fyrirrúmi. Síðast starfaði hann hjá Íbúðalánasjóði sem sérfræðingur í kynningar- og markaðsmálum. Áður var hann framkvæmdastjóri Þróunarfélags miðborgarinnar, rak almannatengslafyrirtækið Helst, var framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra bankamanna.

Þetta var allt saman eftir að hann hætti sem fréttamaður útvarps og sjónvarps, en hann var líka þulur á þessum miðlum. Einar hóf störf sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu 1980 og vann þar til 1987. Hann gerðist svo aftur útvarpsþulur í nokkur ár skömmu fyrir aldamótin, en var upphaflega í þularstarfi þar árið 1980.

Áður en Einar kom við í öllum þessum störfum var hann blaðamaður á Þjóðviljanum 1976-80, kennari á Hellu og á háskólaárunum var hann textasmiður á Auglýsingastofu Kristínar og ritstjóri Stúdentablaðsins.

Þýðingar og yfirlestur

Einar er ágætur íslenskumaður, en menntun hans er á sviði þjóðfélagsfræði og má segja að sú menntun hafi nýst honum vel um ævina í mörgum störfum. Eftir að Einar hætti hefðbundinni launavinnu hefur hann m.a. þýtt bækur, sinnt málfarsráðgjöf og yfirlesið og prófarkalesið bækur, fræðigreinar og vísindaritgerðir. Undanfarin fimm ár hefur Einar unnið töluvert við þýðingar. Hann var tilnefndur til Ísnálarinnar, verðlauna fyrir bestu þýðingu á glæpasögu 2018, fyrir bókina Stúlkan með snjóinn í hárinu eftir sænska rithöfundinn Ninni Schulman. Einar hefur líka lesið inn bækur fyrir Hljóðbókasafn Íslands í nokkur ár og hefur mjög gaman af því starfi.

Ferðalög til framandi landa

Einar segist njóta lífsins ríkulega eftir að hann hætti hefðbundinni vinnu. Ferðalög hafa löngum verið honum hugleikin, en hann starfaði um árabil sem fararstjóri erlendis ásamt Ástu Ragnheiði konu sinni, m.a. í svokölluðum Heimsreisum Útsýnar og Heimsklúbbs Ingólfs. Ásta var þingmaður í 18 ár, ráðherra og forseti Alþingis, en er nú líka “laus og liðug” eins og eiginmaðurinn. Þau hafa yndi af að ferðast til fjarlægra og framandi landa og eru reyndar nýkomin frá Úsbekistan, þar sem þau fóru m.a. um silkileiðina fornu.

Syngur í Karlakór Reykjavíkur

Einar hefur sungið í Karlakór Reykjavíkur í 26 ár. Hann segist alltaf hlakka til þegar líður að árlegum aðventutónleikum kórsins í Hallgrímskirkju. Kórinn ætlar að venju að fylla kirkjuna a.m.k. þrisvar um miðjan desember, en 30. nóvember taka kórmenn forskot á sæluna og fagna aðventunni með tónleikum í Stykkishólmi.

Einar les helst íslenskar skáldsögur, ævisögur og sagnfræði. Hann hefur mikinn áhuga myndlist og tónlist og er nokkuð duglegur að sækja myndlistarsýningar, en kemst ekki á alla tónleika sem hann langar á vegna þess að kóræfingar eru oft á sama tíma.

Í Einari býr trommari

Einar rifjar upp með bros á vör að á menntaskólaárunum hafi hann spilað á trommur í hljómsveitunum Yoga og Vinir og vandamenn og inni við beinið blundi enn lítill trommari.

Aðspurður segist Einar ekki stunda líkamsrækt nema sund en hann syndi helst daglega.

Þótt árin séu orðin sjötíu er Einar Örn sannarlega ekki að hægja á heldur lifir lífinu lifandi áfram.

Ritstjórn nóvember 13, 2019 07:56