Þurfum við að bólusetja okkur árlega?

Reglulega er minnt á að fólk sextíu ára og eldra er velkomið á heilsugæsluna til að endurnýja Covid-bólusetningu sína. Sumir fara samviskusamlega en aðrir telja að nú sé nóg komið, enda búnir að fá fjórar og jafnvel fimm sprautur. En betur má ef duga skal ef marka má nýjustu upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki. Margrét Lára Jónsdóttir heimilislæknir var spurð hvort það væri rétt?

Fólk veikara af inflúensu en COVID

Undanfarin ár hafa læknar gert sér æ betur ljóst að inflúensur geta valdið alvarlegum veikindum hjá eldra fólki einkum þeim sem glíma við undirliggjandi heilsufarsvanda. Með aldrinum dregur einnig úr hæfni okkar til að vinna á slíkum innrásum inn í líkama okkar og margir glíma því lengi við veikindi og slappleika fái þeir inflúensuveiru á annað borð. Er nauðsynlegt að fá inflúensusprautu?

„Stutta svarið er auðvitað já og já, nýjir stofnar að af COVID eru alltaf birtast og fólk er enn að verða mjög lasið, ef það veikist, þótt flestir sleppi vel. Endurbólusetning gegn COVID á frekar að veita varnir gegn nýjum afbrigðum. Mælt er með að einstaklingar yfir sextugt sem og einstaklingar með langvinna sjúkdóma þiggi örvunarbólusetningu gegn COVID á 6 mánaða fresti. Inflúensa af völdum inflúensuveira A og B gengur ár hvert og hefur í gegnum tíðina valdið faröldrum í ljósi þess hversu smitandi vírusinn er. Inflúensan getur farið að láta á sér kræla að hausti en yfirleitt er toppurinn í fjölda smita yfir háveturinn, janúar, febrúar og fram í mars.

Reynt er að hitta á að verja gegn réttum stofni miðað við hvað geisað hefur á suðurhveli jarðar, þá í raun eftir nýafstaðið inflúensutímabil. Margir hverjir eru smituðust af infúensu vorið 2023 urðu mjög lasnir, jafnvel mun lasnari en af völdum COVID. Sem læknir, starfandi á Læknavaktinni og heilsugæslu, eins og flestir heilbrigðisstarfsmenn, varð ég þessa vel vör. Bólusetningin ver einstaklinginn þó ekki gegn því að grípa smitin en leiðir til þess að ef einstaklingur smitast þá verða einkennin yfirleitt mildari og því veikindin vægari og ganga fyrr yfir.

Sökum þess að búist var við að inflúensan yrði skæð veturinn 2022-2023 eftir tæplega 3 ára „COVID-smitgáts-varnir“ var m.a. tekin sú ákvörðun af Landlæknisembættinu að verja börnin, sex mánaða til tveggja og hálfs árs, frá nóvember 2022 til 31. desember árið 2023. Ástæðan er sú að með aukinni smitgát í ljósi COVID-heimsfaraldurs frá ársbyrjun 2020 hafði ekki geisað inflúensufaraldur á Íslandi frá vetrinum 2019-2020. Börn fædd á tímum COVID höfðu því ekki komist i tæri við inflúensu. Hingað til hafa almennar leiðbeiningar hvað varðar bólusetningu gegn inflúensu ekki miðað að því að verja litlu börnin. Forgangshópar hafa verið einstaklingar sextíu ára og eldri, þungaðar konur og einstaklingar sem glíma við undirliggjandi langvinna sjúkdóma, veikindi svo sem hjarta- og lungnasjúkdóma, nýrna- og lifrarsjúkdóma, sykursýki, illkynja veikindi ónæmisbælandi sjúkdóma og gætu farið illa út úr inflúensuveikindum.

Einnig eru heilbrigðisstarfsmenn í forgangshóp hvað varðar bólusetningar gegn inflúensu og COVID, þá einkum í ljósi þess hversu smitandi þessir vírusar eru. Yngri, heilsuhraustir einstaklingar ná sér yfirleitt fljótt og vel þó óhugnanlegt sé að sjá litlu krílin svona lítil og lasin. Auðvitað væri skynsamlegt að ná að bólusetja og fjármagna bólusetningu leikskólabarna upp á að verja okkur fullorðna fólkið um leið og þau litlu,“ segir Margrét Lára.

Alltaf ný afbrigði

Þegar Vetur konungur tekur völdn er jafn víst og snjókorn falla að vírusar og bakteríur blossa upp og skæðar pestar sem þeim fylgja verða alls ráðandi. Við höfum ekki farið varhluta af þessu nú fremur en áður nýlega bárust fréttir af því að ástandið á Landspítala hafi aldri verið verra en einmitt nú og fólk lægi á göngum og salernum spítans og fárveikt fólk yrði að gera sér að góðu að liggja á gólfi biðstofu bráðamóttökunnar. Margir kjósa að fara árlega og láta bólsetja sig gegn inflúensuveirum og telja það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi.

Allir vita að Covid er komið til að vera og nýjar fregnir herma að í haust hafi fleiri veikst af Covid en haustflensunni svokölluðu. Við getum búist við að á hverju ári komi upp ótal tilvik þar sem fólk smitast og veikist illa. Og Covid 19 er skæð veira. Hún, eins og aðrar veirur, halda áfram að breyta sér og aðlagast þeim aðstæðum sem hún finnur sig í hverju sinni. Þess vegna er þörf á að endurnýja varnir sínar reglulega og nýjustu bóluefnin virka gegn nýrri afbrigðum veirunnar. Veirur eru illar viðureignar og á hverju ári eru dæmi þess að fólk veikist af „venjulegri inflúensuveiru“ og glími við heilsufarslegar afleiðingar þess lengi. Þær geta reynst eldra fólki mjög skæðar.

Ólíkt árstíðabundnu veirunum er Covid 19 viðvarandi allt árið. Um leið og mótefni gegn henni minnka meðal almennings má búast við nýjum fjöldasmitum og jafnvel öðrum faraldri. Fólk ætti því að búa sig undir að fara árlega til að fá nýja bóluefnisprautu og ekki úr vegi að þiggja inflúensusprautu í leiðinni. Hægt er að hafa samband við sína heilsugæslustöð og fá upplýsingar um hvenær er boðið upp á bólusetningar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar

Ritstjórn janúar 8, 2024 07:00