Sátt við að kveðja landið sitt

Edda, Tjörvi og Ylfa Ýr á leið til Bandaríkjanna fyrir 40 árum. Nú eru börnin bæði orðin læknar og Edda enn listamaður. Mynd: Guðmundur Ingólfsson, Ímynd.

Hæfileikaríkir Íslendingar leynast í ótrúlega mörgum samfélögum um allan heim. Edda Valborg Sigurðardóttir er einn þessara Íslendinga en hún flutti til Bandaríkjanna fyrir 40 árum. Eins og sést í skrifum hennar hér að neðan heltók heimþráin hana þegar hún var úti og þega hún flutti tímabundið til Íslands og rak litla hönnunarstofu saknaði hún barnanna sinna og barnabarnanna sem öll höfðu fest rætur í Bandaríkjunum.

Eitt af grafíkverkum Eddu sem hún vann 2019 nefndi hún „Getting Good at Saying Goodbye – Snippets of Iceland“. Verkið fjallar um að hverfa frá Íslandi í sátt og inniheldur myndir frá Íslandi sem hún tók á þeim tíu árum sem hún dvaldi hér. Grafíkverkið er allt handunnið – aðeins eitt eintak. Bókin inniheldur 20 ljósmyndir sem eru prentaðar með sérstakri aðferð og samsett þannig að hún getur ýmist legið útflött eða staðið á borði – 10 myndir á hvorri hlið. Umbúðirnar er kassi sem hún hannaði og smíðaði úr þykkum pappa sem klæddur er með grafíkprentaðri mynd. Nánar má skoða verkið hér: https://bit.ly/37HH3dQ

Edda er meðlimur í grafíkfélaginu Zea Mays Printmaking Studio og einnig félagi í Oxbow Gallery í Northamoton, Massachusetts.. Á síðustu þremur árum hafa verkin hennar verið valin á sýningar í Northampton (heimabæ hennar), Amherst og Dedham í Massachusetts og á grafík sýningum í New York borg þar sem eitt verka Eddu var keypt af New York City Library – Special Collections.

 

Edda Valborg Sigurðardóttir:

15. júní 1980 / 40 ár –

„Á þessum degi árið 1980 lagði ég af stað til bandaríkjanna með börnin mín tvö, Tjörva Ellert 7 ára og Ylfu Ýri 4 ára til langdvalar. Kvaddi foreldra, ættingja, samstafsfólk og vini með trega – þetta var ekki mitt val en aðstæður urðu til þess að þetta varð að vera.

Ég lagði af stað með áform um að dvölin yrði aðeins nokkur ár. Það varð ekki raunin. Hér hef ég alið manninn að mestu fyrir utan 10 ár á Íslandi – þau erfiðustu reyndar, árin 2007 til 2017. Ég hafði það þó af, en börnin mín og barnabörn hafa búið hér í þessu landi alla sína tíð.

Heimþráin heltók mig um árabil. Það er ekki auðvelt að byggja nýtt líf í landi þar sem menning er á alla lund ólík; umhverið, fólkið, tungumálið og daglegt líf. Söknuðurinn eftir fólkinu mínu tók aldrei enda. Eftir 10 ára dvöl á Íslandi flutti ég aftur út og það var aðeins þá sem ég gat fyrst unað mér og meðtekið daglegt líf á erlendri grundu. Það tók mig ekki nema 38 ár!

Börnin urðu þrjú, Sölvi Steinn bættist í hópinn 1983 og í dag eru barnabörnin orðin sjö. Það er mér mikilvægt að eiga náið samband við þau öll og ég legg mig fram um að heimsækja og tengjast þeim – elsta barnabarnið mitt og nafna er orðin 23 ára og yngsta er 19 mánaða í dag. Öll búa þau í hæfilegri fjarlægð til að heimsækja og ég finn mig velkomna hjá þeim öllum.

Sem starfandi myndlistamaður í dag er íslensk náttúra mér efst í huga og þangað sný ég mér í mínum verkum. www.eddavalborg.com  

Vefur þessa merkilega listamanns er þess virði að skoða.

 

Sólveig Baldursdóttir skrifar.

Sólveig Baldursdóttir júní 22, 2020 09:25