Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar
Er þetta mynd af corona-virus? spyr sjö ára gamall sonarsonur, sem skoðar myndskreytingu á forsíðu Economist. Það var alveg rétt hjá honum. Rauðar kúlur með mörgum öngum. Það er ekki að undra að hann spyrji enda hefur vírusinn snúið lífi hans og eldri bróður hans á hvolf.
Aðstæður sem tengjast faraldrinum hafa orðið til þess að við ellismellirnir erum komnir í tímabundið hlutverk uppalenda. Sonarsynir okkar hafa búið heima hjá okkur í mánuð og sambúðin mun vara fram undir jól eða meðan foreldrarnir bjarga því sem bjargað verður á erlendri grund.
Það er margt undarlegt sem hefur gerst í þessari sambúð ellismellanna og ljóshærðu drengjanna. Í fyrsta lagi hvarf verkurinn í mjöðminni. Það er ekki tími fyrir svoleiðis. Mjúku buxurnar og hlý peysan eru einkennisklæðnaður minn þessa dagana. Enginn tími fyrir pjatt. Matarvenjur heimilisins hafa umturnast. Nú er hafragrautur í morgunverð með sykri og kanel. Í kvöldmat eru fiskibollur, kjötbollur, brún sósa, spagetti, kartöflustappa og heimtilbúnar pizzur svo eitthvað sé nefnt. Hvað á að fara í nestisboxin er áleitin spurning og eru til hrein föt fyrir morgundaginn?
Full þvottavél fer í gang um leið og afinn hverfur út í myrkrið til þess að koma sveinunum í skólann kl. 08.00. Tannburstun afstaðin, hárið greitt og vettlingar og húfur í töskunum. Ég er komin í facebook-grúppu fyrir 2. bekk, komin með pin-númer fyrir Mentor og búin að fá tilkynningu um að það hafi komið upp lús í bekknum. Mig klæjar enn við tilhugsunina.
Það er sennilega ekki tilviljun að við verðum foreldrar þegar við erum ung og hraust. En við verðum hins vegar að játa að við höfum gaman af þessari áskorun sem hefur orðið til þess að vikurnar fljúga áfram. Það er engin dauð stund. Við sofum betur en áður vegna heiðarlegrar þreytu sem maður var búinn að gleyma að væri til.
Við höfum bæði alið upp börn áður en aldrei saman. Grunnprinsippin eru auðvitað þau sömu en það eru hins vegar komnar nýjar áskoranir inn í líf barna og þá um leið inn í líf uppalenda. Það eru tækin eins og símar og ipaddar og playstations og hvað þetta heitir nú allt. Eftir mánuðinn erum við fjögur að ná tökum á þessari áskorun og búin koma upp leikreglum sem við erum öll sátt við, þó auðvitað séu sumir sáttari en aðrir. Samningur um tækjanotkun var unninn í sameiningu og færður til bókar af þeim 11 ára og skreytir dyr ísskápsins. Ég veit að ég hljóma gamaldags þegar ég held því fram að líf barna án þessara tækja hafi verið litríkara og heilbrigðara en lífið í sófanum með græjuna. En við höfum líka komist að því að þeim líður betur þegar samkomulaginu er fylgt þannig að tími gefist fyrir aðrar tómstundir, nægan svefn og jafnvel spjall við ellismellina.