Afar og ömmur verða að geta sagt nei

Afar og ömmur eru allskonar. Flest reyna þau þó að gera sitt besta. En stundum er góður ásetningur ekki nóg til að gera hið rétta fyrir barnabörnin. Jafnvel afar og ömmur sem reyna sitt besta verða stundum til vandræða fyrir foreldra barnanna og barnabörnin, segir í grein á vefnum verywellfamily. Lifðu núna stytti og endursagði.

Kynslóðir breytast og afar og ömmur eru öðruvísi í dag en þau voru fyrir hálfri öld, það sama gildir um foreldrana. Heimurinn hefur einfaldlega breyst. Það er heldur ekki víst að afar og ömmur séu tilbúin að gefa eftir. Þau vilja stundum halda áfram að stjórna allri fjölskyldunni. Stundum eru þau hins vegar fullkomlega afskiptalaus um hag barnabarnanna og foreldra þeirra. Það er alveg jafn slæmt. En allir afar og ömmur hafa gott af því að líta í eigin barm öðru hvoru og skoða framkomu sína gagnvart eigin börnum og barnabörnum. Ef breytinga er þörf þá ætti fólk að viðurkenna það og gera sitt besta.

Afar og ömmur hafa mikið að gefa barnabörnunum sínum. Það er gott og gagnlegt fyrir barnabörnin að heyra sögur frá liðnum tímum, hvernig afi og amma ólust upp og hvað það var sem gerði þau að þeim manneskjum sem þau eru. Þau eru líka fólkið sem þekkir sögu fjölskyldunnar best og geta miðlað þeirri þekkingu til barnabarnanna.

En það var ekki allt gott í gamla daga. Margt hefur færst til betri vegar. Afar og ömmur ættu ekki að ætlast til þess að barnabörnin uppfylli einhverja staðla sem giltu þegar þau voru ung. Í gamla daga horfðu menn á börn en hlustuðu ekki á það sem þau höfðu fram að færa. Flestir foreldrar vilja að börnin þeirra geti staðið fyrir máli sínu. Þau vilja að börn beri virðinu fyrir valdi en óttist það ekki.

„Af því bara“ var svar sem börn máttu oft á tíðum sætta sig við í þá gömlu góðu. Foreldrar sáu oft á tíðum enga ástæðu til að réttlæta gjörðir sínar eða útskýra þær. Í dag reyna foreldrar að útskýra málin fyrir börnum. Þau ætlast til að börnin hlýði en þau ætlast ekki til að þau hlýði fyrirmælum þeirra í blindni.

Í gamla daga voru börn meira og minna á eigin ábyrgð. Flestir foreldrar tóku lítinn þátt í skólastarfi barnanna eða áhugamálum þeirra. Hugsanlega leiddi þetta til þess að börn urðu fyrr sjálfstæð en kannski hefðu þau haft þörf fyrir að foreldrar þeirra tækju meiri þátt í lífi þeirra utan heimilis.

Það var ætlast til að börn ynnu. Það var ekki bara ætlast til að börn færu út með ruslið þau máttu oft á tíðum sætta sig við langa vinnudaga. Það má velta því fyrir sér hvort börn taki nægan þátt í heimilishaldinu nú til dags en veröldin hefur breyst. Heimanám sumra barna hefur til að mynda margfaldast. Foreldrar í dag kjósa frekar að börnin einbeiti sér að heimanáminu, læri á hljóðfæri eða stundi íþróttir frekar en að þau eyði tíma sínum í heimilisverk.

Sumir afar og ömmur virðast ekki geta fengið nóg af barnabörnunum. Þau krefjast þess að vera með í öllu sem þeim við kemur, hvort sem um er ræða afmæli, frí eða hvað annað sem fjölskyldan hefur fyrir stafni. Stundum verður þetta bara of mikið fyrir alla og fólk verður þreytt hvað á öðru. En það má svo sem til sanns vegar færa að í sumarleyfisferðum eða öðrum ferðum þar sem allir fara saman, þá eru afar og ömmur ágætis barnapíur. En stundum langar foreldra bara að vera einir með börnum sínum eða nánum vinum og börnum þeirra. Afar og ömmur verða að virða það. Þau verða líka að hafa í huga að börnin eiga annað sett af öfum og ömmum og þau eiga sinn rétt á að umgangast barnabörnin. Þið viljið ekki vera afbrýðisama amman og afinn.

Barnauppeldi hefur breyst mikið síðan afi og amma voru að ala pabba og mömmu upp. Afar og ömmur verða því að aðlagast breyttum tímum og hætta að gera hlutina eins og þau voru vön. Til dæmis á ekki að láta ungabörn sofa á maganum, það getur aukið hættu á vöggudauða. Það sótthreinsar enginn naflastrenginn með áfengi, setur talkúm á auma rassa eða gefur ungum börnum fasta fæðu. Afar og ömmur verða að taka mið af því að breytingar á uppeldisaðferðum eru yfirleitt byggðar á því hvað sé öruggast og hollast fyrir börnin. Hvað varðar eldri börn ættu afar og ömmur að virða þær reglur sem foreldrar setja um háttatíma, hvað börnin mega borða og hvað ekki og allar aðrar reglur sem settar eru.

Ég ól þig ekki upp til að gera þetta eða hitt er nokkuð sem afar og ömmur segja stundum við þá sem yngri eru. Hafið í huga að fullorðið fólk tekur eigin ákvarðanir í lífinu og stundum skiptir fólk um skoðun á lífsleiðinni. Það hættir að trúa á þau gildi sem þeim voru kennd sem börnum. Stundum skipta börnin okkar eða barnabörnin um trú, stjórnmálaskoðanir og stundum hafa þau aðrar nálganir í lífinu við höfum. Þetta er nokkuð sem þarf að virða.

Það er ekki auðvelt að vera foreldri og börnin okkar verðskulda stuðning og umhyggju en höfum í huga að allir reyna að gera sitt besta. Foreldrar með sitt fyrsta barn eru sérlega viðkvæm fyrir athugasemdum um að þau hefðu átt að gera eitthvað öðruvísi en þau gerðu. Afar og ömmur vita ekki alltaf best og ef þau sjá að þau hafa haft á röngu að standa ættu þau að hafa manndóm í sér til að viðurkenna það. Stöðug gagnrýni getur verið særandi. Illa ígrundaðar athugasemdir eða eitthvað sagt í hálfkæringi getur stuðað foreldrana illa. Samanburður getur gert það sama, berið aldrei saman þroska og færni barnabarnanna ykkar við önnur börn svo foreldrar þeirra eða þau heyri.

Afar og ömmur sem geta ekki sagt nei eru ekki góðir afar og ömmur. Það eru takmörk fyrir öllu. Afar og ömmur eiga að segja nei þegar barnabörnin biðja um eitthvað sem foreldrar þeirra vilja ekki að þau  fái, sama hvort það er sælgæti eða fá að vaka lengur yfir sjónvarpinu. Afar og ömmur eiga að segja nei þegar börnin biðja um eitthvað sem gæti skaðað þau. Þau ættu líka að segja nei þegar börnin biðja um dýrar gjafir sem þau vita að foreldrar þeirra hafa ekki efni á. Þegar allt kemur til alls er nægur tími til að segja já -en bara seinna.

 

Ritstjórn september 19, 2018 07:10